10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Mig furðar alveg á fullyrðingum hv. 1. þm. S–M. Ég hélt þvert á móti, að það væri hans skoðun, að þeir tekjustofnar, sem hafa að undanförnu verið lögleiddir með það fyrir augum að standa undir dýrtíðinni, sem svo er kallað, og er þá meint það fé, sem notað er til að greiða niður kjöt og annað slíkt innanlands til að halda niðri dýrtíðinni og svo til að bæta upp útflutningsvörur, hefðu verið til þess notaðir. Ég fullyrði aftur á móti, að oftast hafi verið notað meira en skattaálögur gera ráð fyrir í þessu skyni, bæði hvað snertir fiskábyrgðina og niðurgreiðslur innanlands, og er þess vegna alls ekki rétt að halda því fram, að verið sé að leggja á skatta hér á Alþ. — mér skildist, að það hefði verið gert undanfarið — undir því yfirskini, að þeir væru notaðir til dýrtíðarráðstafana, en svo hefði það ekki verið gert. Annað var ekki hægt að skilja af orðum hv. þm. Þetta var gersamlega rangt. Ég vil svo spyrja hv. þm. um það, hvers vegna það var, að á síðasta Alþ. starfaði þessi hv. þmn. með mér — en þá var hann ráðh. — og öðrum að því að finna tekjustofna til þess að standa undir þeirri fiskábyrgð, sem Alþ. var þá að taka á sig, og til að greiða niður dýrtíðina innanlands og annað slíkt. Fjárl. bera þess vott, að gert var ráð fyrir 64 millj. kr. útgjöldum í þessu kyni. Að auki var svo dýrtíðarsjóður, og í hann var safnað m.a. með skattaálögum til að standa undir þessu. Þá var þessi hv. þm. þeirrar skoðunar, að þetta þyrfti að gera. Ég skil ekki, að hann hefði tekið þátt í þessum aðgerðum sem ráðh., ef hann hefði ekki verið á þeirri skoðun, að þess þyrfti með. Nú virðist hann vera kominn á allt aðra skoðun. Nú þarf bara að samþykkja útgjöld, og síðan koma dagar og þá koma ráð. Þetta er náttúrlega skoðun líka, en þetta er gersamlega í ósamræmi við skoðanir, orð og athafnir hv. 1. þm. S-M. á síðasta ári, þegar hann var í ríkisstj. Ef um orðaleik er hér að ræða, þá er hann þeim megin, sem hv. 1. þm. S-M. er.

Ég bið afsökunar á því, að þegar ég minntist á brtt., þá láðist mér að geta um brtt. hv. þm. Ísaf. um 11/2 millj. kr. sjóveðskreppuhjálp, sem hann taldi, að þyrfti að samþykkja. Í sambandi við það, sem hann sagði um þetta, vil ég geta þess, að árið 1948 var veitt ábyrgðarlán, og þá komu menn með til ráðuneytisins eða sendu réttar upplýsingar um síldarvertíðina. Það varð til þess, að sérstök n. var sett til að rannsaka þessi mál, og það var gert gaumgæfilega.. Sú n. var kölluð skilan. Þá var svo veitt hjálp, sem nam 61/2 millj. kr. Ég tók 6 millj. kr. upp í fjárlfrv., en 61/2 millj. kr. þurfti til að leysa vandann frá síldarvertíðinni 1948. Í haust horfði þetta allt öðruvísi við, a.m.k. frá mínum bæjardyrum séð. Það var fullyrt, að L.Í.Ú. hefði átt að fara til ráðun. og biðja um sams konar hjálp. Ég mótmæli því, að það hafi verið gert. Ég hafði talsvert rökstudda ástæðu til að álíta, að það þyrfti tæplega á kreppuhjálp að halda handa bátaflotanum á s.l. hausti. Ég veit um mína síldveiðisjómenn í Eyjum, þeir voru sumir með bágborinn árangur, en ég held, að ég hafi engan mann heyrt víkja að því orði, að gera þyrfti ráðstafanir hliðstæðar þeim, sem gerðar voru 1948. Ég skal ekki um það segja, að ef ég hefði haft mig allan í frammi við að lýsa eftir kreppuástandi, nema þá hefði mátt ná saman 70 skýrslum, eins og nú er sagt að liggi hjá L.Í.Ú. Ég hef þess vegna ekki viljað forsóma neitt í þessu efni. Það getur vei verið, að 11/2 millj. kr. dugi til að leysa þessa kreppu, en það getur líka vel verið, að það komi menn fram á sjónarsviðið, sem hafa fengið lán til að gera upp við hásetana í haust, svo að hásetarnir séu ekki með kröfur á þá. Þessir menn, sem hafa fengið lán hjá öðrum í þessu skyni, þyrftu þá kannske líka hjálp, og þá þyrfti þessi kreppuhjálp að verða víðtækari. (PO: Þeir eru þarna með.) Veit hv. þm. þetta? (PO: Já.) Það kann að vera. Ef miðað er við, að 61/2 millj. þurfti til að veita þessa aðstoð 1948, þá þykir mér líklegt, að 11/2 millj. nál ef til vill skammt fyrir árið 1949, þ.e.a.s., ef leitazt er við að framkvæma þetta réttlátlega, eins og gert var 1948, en það fullyrði ég, að þeir menn, sem sátu í skilan. 1948, hafi gert. Svo er annað, sem vert er að athuga í þessu máli. Einn af stærstu útgerðarmönnum landsins skrifaði grein í dagblað og sagði þar á þá leið, að sá háttur væri á hafður, að hið opinbera verðlaunaði þá menn, sem létu það undan falla að greiða sjómönnum sínum laun, en hinir yrðu. að eiga sig sjálfir. Ég hef alltaf borið kvíðboga fyrir því, ef sá hugsunarháttur færi að grípa um sig hjá útgerðarmönnum, að með því að draga að gera upp við sitt fólk, þá mætti búast við, að Alþ. eða ríkisstj. tæki sig til og færi að hjálpa þeim. Það þarf að grandskoða það, sem gert er í þessu efni. Ég ætla ekki að leggja á móti því, að þessi brtt. verði samþ., en ég vil benda á það að, að mínu áliti er það ekki útilokað, að allmiklu meira fé þurfi en þarna liggur fyrir. Það var minnzt á, að skilan., sem að þessu starfaði 1948, mundi bezt til þess fallin að hafa þetta verk með höndum. Það tel ég einnig líklegt, og þar bætast við verkefni, sem hún hefur ekki gert ráð fyrir, vegna þess, að nú vinnur hún á grundvelli löggjafar, sem hefur verið sett um þetta atriði síðan kreppuhjálpin var veitt 1948.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en vildi aðeins taka þetta fram nú, en ég minntist ekki á þessa till. áðan, vegna þess að hún lá ekki hér fyrir prentuð. Það má svo segja, eftir því sem hér hefur fram komið, að sama sé, hvort samþ.till. um 11/2 millj. til viðbótar, ef ekki þarf að sjá fyrir neinum tekjum, svo að mögulegt sé að framkvæma slíka hluti.