10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. atvmrh. sagði, að ég hefði haldið því fram, að á undanförnum árum hefðu þeir peningar, sem aflað var til að greiða niður dýrtíðina með, verið notaðir í annað. Hafi ég sagt þetta, þá er það af vangá, því að eins og hæstv. ráðh. tók fram, þá hefur það ekki verið gert. Þessar greiðslur hafa í heild orðið eins og þær tekjur, sem aflað var til þeirra.

Það, sem ég vildi benda á, er þetta, að ef sá háttur er á hafður, sem núv. ríkisstj. leggur til, að hafður verði, að nýrra tekna verði aflað til að standa undir allri útflutningsábyrgðinni, þá verður niðurstaðan sú, að mjög mikið af þeim peningum, sem undanfarin ár hefur verið aflað til að standa undir niðurgreiðslum og til að greiða útflutningsuppbætur, verður notað í annað. Það mun sýna sig, ef þetta er rannsakað, að þeir tekjustofnar, sem undanfarin ár hafa verið settir til að standa undir niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum, mundu ekki í ár gefa mikið undir 80 millj. kr., og ef þeir fá að renna í útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur, eins og til stóð, þá mundi þetta standast á endum. En verði nú, eins og gert er ráð fyrir í fjárlfrv., mikið af þessum peningum tekið til að standa undir launagreiðslum og almennum útgjöldum, þá þarf að afla nýrra tekna í þessu skyni. Þetta vildi ég segja með því, sem ég tók fram, og hvernig sem menn haga bókhaldinu, þá verður þetta þannig. Það er ekki hollt að láta þjóðina standa í þeirri meiningu, að hægt sé að belgja út ríkisreksturinn og hækka laun án þess að afla tekna, en afla svo tekna að nafninu til, til að standa undir útflutningsuppbótum, en láta peningana renna til annars.