16.01.1950
Neðri deild: 30. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (3029)

92. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég skal ekki deila neitt við hv. 2. þm. Reykv. um stofnlánadeildina yfirleitt eða í sambandi við þær ráðstafanir, sem gerðar voru á sínum tíma í sambandi við stofnlánadeildina. Hinu verður ekki neitað, að það hefur verið talin mjög óvenjuleg aðferð, sem viðhöfð var við stofnun deildarinnar. En ég skal ekki fara frekar út í þá sálma að þessu sinni. Þetta er mál, sem um garð er gengið, og verður engin breyt. á því gerð að sinni héðan af.

Ég vil í sambandi við mál þetta, sem nú verður vafalaust vísað til n., vekja athygli þeirrar hv. n. á því, að þetta mál er í athugun hjá fjmrn. Það er af sumum talinn vafi á því hvort lagabreyt. er þörf til þess að ná því takmarki, sem stefnt er að með þessu frv., að fé, sem greitt hefur verið af höfuðstól stofnlánadeildarinnar, renni til hennar aftur. En þetta er í athugun og mun koma frá ráðuneytinu innan skamms.

Ég vildi gjarna í þessu sambandi láta í ljós þá skoðun, að það er mjög óeðlilegt, eins og hér hefur tíðkazt, að ríkið verði að greiða bankastofnunum hér sömu vexti eins og almenn verzlunar- eða atvinnufyrirtæki. Þetta tíðkast hvergi annars staðar í heiminum, svo að ég viti. Og það að skulda ríkið fyrir 7% vöxtum af yfirdráttarlánum á heldur, að því er ég veit bezt; ekki neins staðar hliðstæðu annars staðar. Þetta þarf því að breytast. En það verður því aðeins hægt að breyta slíku, að lánstraust ríkisins sé ekki látið standa öllum til boða, eins og hefur óneitanlega verið stefna Alþ. undanfarin ár.