06.02.1950
Neðri deild: 41. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (3033)

105. mál, fjárhagsráð

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að halda neina framsöguræðu fyrir þessu máli, svo kunnugt sem það er hér á Alþingi. Þetta frv. er nákvæmlega samhljóða því, sem flutt var á síðasta þingi af hv. þm. V-Húnv. og fleiri framsóknarmönnum í deildinni; náði það þá samþykki hennar og var sent til efri deildar, en fellt þar með eins atkvæðis mun. Sósíalistar buðu Framsókn í haust að fylgja því á ný, ef fram kæmi, en ekki varð af samkomulagi um það. Hins vegar var borið fram annað frv., sem nú er til meðferðar í nefnd, en við sósíalistar getum ekki verið samþykkir. Þykir mér líklegt, að það komi bráðum í ljós, hver verða afdrif þess máls; en í öllu falli vildi ég, að þetta mál lægi fyrir, hvernig sem um hitt fer.

Á þessu stigi málsins þarf ég ekki að færa rök fyrir þessu frv., það er þegar svo kunnugt, þar sem það hefur legið fyrir á tveimur þingum í nákvæmlega sama formi. Þætti mér vænt um, að fjhn., sem hefur haft til athugunar fleiri slík frv., yrði einnig látin fjalla um þetta.