13.02.1950
Neðri deild: 46. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (3039)

113. mál, veiting prestakalla

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það má alltaf um það deila, hvort það sé meira eða minna lýðræði, hvort prestar eru kosnir af söfnuði eða skipaðir af yfirvaldi. Það er ekki skilyrði fyrir lýðræðisskipulagi, að prestar séu kosnir, og sama gildir um aðra embættismenn. Það getur verið jafngott lýðræði í landi, þó að prestar séu ekki kosnir, en almenn áhrif gæti það haft í för með sér um skipan embætta, ef slíkt frv. næði samþykki og það, sem hér liggur fyrir. Hér er um að ræða takmörkun á valdi, sem fólk yfirleitt lætur sig miklu skipta. Ég held, að það gæti verið varhugavert að takmarka þann rétt, sem safnaðarfólkið nú hefur, nema ef auðsæ rök væru þar til grundvallar lögð. Það má geta þess, að nokkur rök fyrir frv. þessu eru færð fram í dagsljósið í grg. fyrir frv. Mér finnast þau rök heldur viðalítil, og eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, hv. 2. þm. Reykv., þá væri hnignun frá því, sem er, að samþ. þetta frv. Réttur safnaðanna væri fyrir borð borinn, en hins vegar væri réttur prestanna einna fyrir brjósti borinn. Frv. þetta virðist því meira vera miðað við það, en hagsmuni heildarinnar. Það er og eftirtektarvert, að prestar hafa látið sig þetta mál litlu skipta, og gæti þó tilefnið verið minna. Í grg. frv. er þó gefið í skyn, að nokkrir prestar hafi lýst sig fylgjandi frv. Prestastefnan hefur þó ekki mælt með því. Ef prestar teldu málið svo gott sem hv. flm. vilja vera láta, mundu þeir varla láta sér svo fátt um frv. finnast. Hitt er svo aftur annað mál, að hér er ekki ætlazt til, að miðað sé við einkahagsmuni prestastéttarinnar, heldur á hér víðfeðmara sjónarmið að koma til. Mér finnst eðlilegast, að litið sé á þetta frv. frá því sjónarmiði, hvort það komi að gagni til hins betra. Öruggur prófsteinn ætti það að vera, hvort frv. leiddi til þess, að almenningur fengi frekar þann prest eða presta, sem fólkinu væri að geði. Ég held, að það sé erfitt að trúa því, að svo yrði. Ég held, að mér sé óhætt að segja það, að tveir þeirra presta, sem mestum vinsældum hafa haft að fagna hér í Reykjavík, hefðu hvorugur fengið veitingu fyrir embætti, á þeim tíma, sem þeir voru kosnir, hefði verið farið eftir venjulegum reglum um embættaveitingar. Svo að tekið sé eitt dæmi, sem nærtækt er, þá má geta þess, að líklegt er, að hinn vinsæli dómkirkjuprestur séra Bjarni Jónsson hefði ekki fengið skipun sem prestur dómkirkjunnar, ef eldri og reyndari prestar hefðu sótt á móti honum og farið hefði verið eftir venjulegum reglum í embættisveitingu. Nú vita allir, hverra óvenju vinsælda séra Bjarni nýtur. Þetta er ekki heldur eina tilfellið. Það má því segja um marga presta, að engar líkur eru til þess, að þeir hefðu fengið þau brauð, sem þeir þjóna, hefði almenningur ekki haft rétt til þess að ganga að kjörborðinu og velja sér prestinn. Það hefur og sýnt sig, að yfirleitt hefur verr tekizt til í þeim tilfellum, þegar ráðh. hefur vikið frá vilja fólksins og ekki veitt brauðið þeim umsækjanda, sem hlotið hafði flest atkv., en tekið þann manninn, sem honum hefur fundizt sér geðþekkari af einni eða annarri ástæðu. Af þessari reynslu sést það glöggt, að ekki virðist hún vera örvandi til þess að breyta til í þessum efnum. Svo má ekki gleyma hinu, að nú á síðari árum hefur ágreiningi skotið upp á milli presta um trúarmálefni. Menn þurfa ekki annað, en lesa málgögn kirkjunnar, en þar kemur þetta mjög skýrt fram. Málsmetandi kennimenn greinir á um höfuðatriði kennisetningarinnar, sem prestar starfa eftir. Ekki tekur betra við, er þessi sjónarmið koma til álits. Ég held, að það yrði erfitt fyrir kirkjumrh. að taka ákvarðanir í þeim efnum og ýta undir einhverja af þeim skoðunum í trúmálum, sem nú eru efst á baugi í deilum kennimanna. Ef ráðh. fengi svo mikið vald sem lagt er til í þessu frv., færi ekki hjá því, að hann yrði oft að taka afstöðu og skera úr því frá þeim sjónarmiðum. Nú er auðsætt, að einmitt í slíkum tilfellum, er vandi á ferðum. Ráðh. skal leita álits biskups á umsóknunum og héraðsprófasts, svo og sóknarnefndar eða sóknarnefnda. Ef nú þessum aðilum ber ekki saman, þá er vandinn bundinn við kirkjumrh., sem sker úr. Slíkt verkar á kosningu prestsins, og virðist því ekki annað vera heillavænlegra en að láta safnaðarfólkið sjálft segja til um það, hvaða formælanda það vill aðhyllast. Það verður ekki hjá því komizt að gera sér grein fyrir því, að þessi skoðanaágreiningur á túlkun kennibókstafsins er fyrir hendi og að starf prestanna er svo mjög með öðrum hætti, en annarra embættismanna. Einmitt vegna þessa skoðanaágreinings og vegna þess, að störf prestanna eru með allt öðrum hætti en annarra embættismanna og miklu tengdari persónu og hugarfari sóknarbarnanna en starf annarra embættismanna, þá er miklu eðlilegra, að almenningur skeri úr um það sjálfur, hver eigi að vera prestur hans, heldur en stjórnarvöldin hér í Reykjavík hafi um það úrslitavald, auk þess sem fyrirkomulagið er þannig eftir frv., að vel getur viljað til, að einum armi innan kirkjunnar í þessum ágreiningi, sem þarna á sér stað, væri um of ívilnað og gert hægara fyrir um að koma sínum mönnum að en hinum, og horfir það ekki til þess, að líklegt sé, að því samkomulagi verði náð innan kirkjunnar, sem nauðsynlegt er að fáist í þessum efnum, ef vel á að fara.

Það má segja, að ekki heyri það beint til við 1. umr., en ég vil þó láta það uppi, að mér finnst ákvæði 2. gr. frv. ekki vera fullljós. Þar er tekið fram, að það á að leita umsagnar sóknarnefndar eða sóknarnefnda, og síðan segir: „Ef þessir þrír aðilar, biskup, héraðsprófastur og sóknarnefndir, verða á eitt sáttir í áliti sínu um umsækjendur, skal veita embættið samkvæmt því.“ Það er auðvitað ljóst, að ef enginn ágreiningur kemur upp milli neinna af þessum aðilum, þá er hægt að veita embættið samkvæmt því, sem segir í frv. Nú skulum við segja, að sóknarnefndir séu klofnar innbyrðis, en þar fáist meiri hluti, og þá er það venjulega talin lögformleg ákvörðun nefndar, ef meiri hluti hefur fengizt. Og sé litið á þessa aðila sem þrjú sjálfstæð stjórnarvöld, biskup, héraðsprófast og sóknarnefnd, þá má segja, að þar séu allir á eitt sáttir um meðferð málsins, þó að minni hluti sé til innan sóknarn., sem er á allt öðru máli. Hér er um mjög veigamikið atriði varðandi skilning á frv. að ræða, atriði, sem verður að fást skýrar, hvernig skilja beri, ef þetta frv. á að fá framgang á þann veg, sem hv. flm. leggja til. Ég held sem sagt, að það sé vænlegast við meðferð þessa máls að íhuga, hvort líklegt sé, að það leiði til þess, að almenningur fái þá presta, sem honum líkar betur við, en nú er. Ég held, að það sé eina markmiðið, sem við eigum að fylgja í þessu máli, en aftur á móti stoði almennar, fræðilegar bollaleggingar harla lítið, og mín afstaða til málsins mótast af því, að ég tel, miðað við þá reynslu, sem fengin er, að það sé sízt líklegra til þess að greiða fyrir því, að menn verði ásáttari með presta sína, að taka áhrifavaldið af mönnum á þann veg, sem hér er ráð fyrir gert. Og ég tel auk þess aðra annmarka, sem ég hef drepið á, vera þessu samfara. Það er einnig á það að líta í þessu sambandi, að menn hafa það auðvitað í hendi sér að mynda sérsöfnuði, ef þeir eru óánægðir með þá presta, sem þeir fá. Nú er það auðvitað svo, að sérsöfnuðir geta verið svo litlir, að það sé óeðlilegt, að þeir séu myndaðir, og auk þess að kirkjan er auðvitað gagnslaus nema hún hvíli á samþykki þeirra, sem í henni eru, og þá verð ég að segja það, að almennt séð verður það ekki á neinn hátt talið til ófarnaðar, þó að sérsöfnuðir séu myndaðir. Víða eru söfnuðir að vísu svo fámennir, að þegar af þeim ástæðum mundi mönnum ekki detta í hug að kljúfa þá, og ekki er hægt að standa undir kirkjulegu starfi nema í þeim söfnuðum, sem ákveðnir eru með l. En á þeim stöðum, þar sem er um stærri söfnuði að ræða, þá get ég ekki séð neitt athugavert við það, hvorki frá lýðræðislegu sjónarmiði né kirkjunnar sjálfrar, þó að þeir, sem af einhverjum ástæðum geta ekki unað við, að tiltekinn maður verði þeirra sáluhirðir, velji sér annan hirði, ef þeir eru menn til þess að standa sjálfir undir kostnaðinum við það. Mér finnst það ekki ófarnaðarmerki, heldur merki um það, að þar sé um lifandi félagsskap að ræða og menn vilji eitthvað á sig leggja til að halda honum uppi. Mér er að vísu ljóst, að hættan — ef menn vilja tala um hættu í því sambandi — hættan við slíkri klofningu safnaðanna er ekki meiri með núgildandi fyrirkomulagi en hún yrði, ef sá háttur er tekinn upp, sem hér er gert ráð fyrir. Hættan á, að söfnuðir klofnuðu, yrði einmitt aukin, ef yfirvöldin ættu að setja þann prest, sem almenningur vildi ekki hafa. Það má segja, að lýðræðisleg hætta felist ekki í þessu frv., vegna þess að fólkið hefur í hendi sér frjálsræði til að mynda nýja söfnuði, en það má ekki heldur telja það stórkostlega ógæfu, ef slíkt kæmi fyrir. Og það er alger misskilningur hjá hv. flm., ef þeir halda, að það hafi ekki fyrr verið óánægja með presta og ágreiningur út af þeim, en núgildandi veitingarfyrirkomulag var tekið upp. Það er um þessar mundir hér um bil aldarafmæli þess, að prestur var hrakinn héðan úr Reykjavík, — mesti mætismaður, — vegna þess að safnaðarfólkinu líkaði ekki við hann. Þessi prestur hafði verið skipaður á löglegan hátt, en mönnum þótti hann ekki tóna nógu fallega eða hafa nógu háa rödd, og neyddist hann til að segja af sér og varð svo prestur úti á landi. Þannig hefur þetta verið, að menn hefur greint meira á um presta, en aðra embættismenn, og það eru ekki nein líkindi til þess að úr því dragi, þó að valdið til þess að skipa þessa menn verði tekið úr höndum fólksins sjálfs, heldur mun það þvert á móti leiða til aukinna vandræða.