10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Finnur Jónsson:

Það var rétt hjá hæstv. atvmrh., að gerðar voru sérstakar ráðstafanir á árinu 1948 til aðstoðar síldarútvegsmönnum, og enn fremur hitt, að það hefur verið að störfum eins konar skilanefnd í þessu máli. Hitt held ég, að engum dyljist, sem hugsa um þessi mál og kynna sér þau rækilega, að við þann aflabrest, sem varð á síldveiðunum 1949, hafa myndazt alveg ný viðhorf. Vitanlega var til þess ætlazt, að þessi n. lyki störfum fyrir vertið 1949, en það hefur hún ekki gert, og veit ég ekki um ástæður til þess og enda held, að það hafi ekki mikið að segja í þessu sambandi. En ég veit, að hvað sem líður þeim samtölum, sem kunna að hafa farið fram milli landssambandsins og atvmrh. og þessum aðilum ber ekki saman um, verður því ekki neitað, að gert var samkomulag milli fyrrv. ríkisstj. og landssambandsins um, að hlutatryggingasjóðurinn tæki til starfa á árinu 1949. Nú má e.t.v. segja, að þetta samkomulag hafi verið gert af fyrrv. ríkisstj. og sé ekki í gildi, en ég hygg, að sú mótbára eigi ekki rétt á sér, því að þeir þingflokkar, sem báru ábyrgð á ríkisstj., báru ábyrgð á því, að það samkomulag, sem gert var 11. janúar, væri haldið. Nú hafa farið fram kosningar síðan, en margir af þeim mönnum, sem voru þá í flokkunum, sitja enn á þingi, og er ekki hægt annað, en að krefja þá til ábyrgðar fyrir þetta loforð: Nú hefur þessa af hálfu Alþ. ekki verið minnzt, og hæstv. fyrrv. ríkisstj. lét sér það lynda, en hins vegar hefur komið í ljós, að með því að skilanefndin lauk ekki störfum fyrir áramót, og með því að hlutatryggingasjóðurinn hefur enn ekki tekið til starfa, þá myndast ný vandræði fyrir sjávarútveginn, og skil ég ekki, að hæstv.- atvmrh. geti lokað augunum fyrir þessu, jafnvel þó að óvenjugóð vertíð hafi verið hjá útgerðarmönnum í hans kjördæmi, Vestmannaeyjum, nú undanfarið, svo að það hefur þar mjög hjálpað útgerðarmönnum til þess að standa í skilum. Því held ég fast við það, að nauðsyn sé á að leysa þau vandræði, sem útvegsmenn hafa orðið fyrir vegna síldarleysis á vertíðinni 1949 og vegna þess að Alþingi stóð ekki við skuldbindingar sínar um stofnun hlutatryggingasjóðs, einmitt með því, að skilanefndin miði störf sín við árslok 1949, en ekki 1948. Það var vissulega mjög virðingarverð tilraun, sem gerð var af hálfu hæstv. fyrrv. ríkisstj. til þess að gera útvegsmönnum kleift að halda áfram síldveiðum s.l. sumar, þegar svo leit út, að mikill hluti bátaflotans hætti veiðum um miðjan ágúst eða jafnvel fyrr. Hins vegar þótti hæstv. ríkisstj. sér nauðsynlegt að auka sjóveðskröfurnar með því að láta kost og olíur einnig hafa sjóveð. Þetta var að vísu gert til þess að hjálpa útveginum, en um leið eru sjóveð skipverja gerð minni. Hygg ég því, að ekki verði undan því vikizt, sem ég áður tók fram, að skilanefndin miði störf sin við árslok 1949, enda mun hún nú ekki vera mjög nærri því að ljúka störfum. Það má vera, að upphæð sú, sem brtt. okkar felur í sér, reynist of lítil, en það er þó alltaf betra fyrir skilanefndina að hafa þetta fé en ekki neitt og gera ónýtt það mikla undirbúningsstarf, sem hún hefur unnið, en það verður, ef störf hennar eru miðuð við árslok 1948. Ef till. okkar verður ekki samþ.; en Alþingi gerir nú fljótlega, svo sem mjög er rætt um, frambúðarráðstafanir vegna útgerðarinnar, þá hygg ég, að menn standi þar mjög ójafnt að vígi að því leyti, að margir, sem fengið hafa ný og dýr skip, mundu missa þau, ef ekki væri miðað við árslok 1949, en hins vegar mundu flestir þeir, sem gömul skip eiga, halda þeim. Ef till. okkar verður ekki samþ., mundi Alþingi því að þessu leyti gera mjög upp á milli útvegsmanna. Ég skal ekki um það segja, hvor réttara hefur fyrir sér, hæstv. atvmrh. eða L.Í.Ú.; það verða þessir aðilar að gera upp sín á milli, en ég þykist vita, að hæstv. atvmrh. neiti ekki því samkomulagi, sem þingflokkarnir gerðu við L.Í.Ú. þann 11. jan. 1949, og að hann neiti heldur ekki, að það samkomulag hefur ekki verið uppfyllt, og ég geri enn fremur ráð fyrir því, að hann neiti ekki, að þessi till. okkar sé fram borin af fullri nauðsyn.