14.04.1950
Neðri deild: 82. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (3056)

116. mál, kosningar til Alþingis

Jón Pálmason:

Herra forseti. Eins og ég gat um, þegar frv. þetta var til 1. umr. hér í þessari d., þá gerði ég ráð fyrir að flytja breytingartillögur við það. Hef ég nú gert það, og eru þær hér á þskj. 527.

Við frv. sjálft eru tvær brtt., og er aðalatriðið það, að farið er fram á að breyta tillgr. talsvert verulega frá því, sem er í frv., og á þann hátt, að í stað þess að lögfesta, að listabókstafirnir fari eftir stafrófsröð ævinlega, þá sé þessu breytt svo að hver stjórnmálaflokkur fái sinn listabókstaf. Ég legg til í till. minni, að Alþfl. og Sósfl. hafi þá listabókstafi, sem þeir hafa haft, Alþfl. A, Sósfl. C, en hinir flokkarnir hafi sem listabókstaf fyrsta staf í nafni sínu, Framsfl. F og Sjálfstfl. S. Þá velji nýir flokkar sér listabókstafi á sama hátt, fyrsta staf í nafni flokksins, svo fremi að hann falli eigi saman við listabókstafi annarra flokka, sem þegar eru festir. Með þessu finnst mér að fyrirbyggja megi rugling, og mér hefur virzt ófært, að þrír stjórnmálaflokkar landsins hefðu þá stafi stafrófsins, b, c, d, sem líkust hljóð hafa. Hef ég orðið var við það á Alþ.,hæstv. forsetar hafa orðið að temja sér sérstök hljóð, þegar þeir hafa lesið af kjörlistum. Hér er farið fram á, að sömu reglur gildi í þessu efni og um einkennisbókstafi bifreiða. Þar er ákveðið, að ákveðinn stafur gildir alltaf fyrir sama hérað, þ. e. fyrsti stafur í nafni þess. Nú er eigi hægt að breyta hér meira en l. um kosningar til Alþ. En ég tel, að þessi regla eigi að vera „gegnumgangandi“ með flokkaskiptingu þeirri, sem nú er, og þótt nýir flokkar komi fram. Sami stafur á að gilda fyrir alla flokka „niður í gegn“, og vil ég, að það gildi þá eins um smærri kosningar, bæjar- og sveitarstjórnakosningar, og um alþingiskosningar. Þetta verður gleggra en hitt, og álit ég eigi unnt að koma þessu fyrir á gleggri hátt. Má segja, að hið eina, sem brýtur regluna, sé það, að ég legg til, að listabókstafur Sósfl. sé C, en það er ekki fyrsti stafur í nafni hans, heldur er það S eins og hjá Sjálfstfl. En þessi flokkur hefur haft þennan listabókstaf, og stefnan, sem hann kennir sig við, sósíalismi, er skrifuð með c í flestum málum, svo að ég tel, að eigi þurfi að verða óánægja vegna þessa meðal þeirra.

Ég á hér á þskj. 527 miklu stærri og víðtækari brtt. við kosningal. Eru þær varðandi landslista flokkanna, þ. e., að breytt skuli með þá og sé þeim raðað af stjórnum flokkanna og frambjóðendur taki kosningu eftir þeirri röð, sem þeir eru í á landslista. Ég tel þá hendingarreglu, sem gilt hefur, óheppilega á ýmsan hátt og óheilbrigða. Það hefur í fyrsta lagi sýnt sig, að þannig getur farið, að vísast sé, að smæstu kjördæmin fái tvo þm., þegar flokkarnir bjóða fram. En þeir geta boðið fram menn, þótt ég hefði talið, að hentugra sé stundum, að þeir hafi landslista, sem fái atkv. — fremur þar en annars staðar. En þetta er þó eigi aðalagnúinn, sem er sá, og er það þá annað atriðið, að fólk, sem kýs frambjóðendur í vonlausum kjördæmum, hefur eigi hugmynd um, hvaða manni atkv. þess komi í rauninni að gagni. Segjum, að líkindi séu til, að frambjóðandi fái 20–30 atkv., en hann komist ekki að sem uppbótarþm. Þá hefur kjósandinn ekki hugmynd um, hverjum þessi atkv. koma að gagni. Getur það þá orðið sá, er honum er ógeðfelldur. Í þriðja lagi er það athugandi, verði reglurnar lögfestar skv. 1., 3. og 4. brtt. á þskj. 527, að þá mundi það gera eðlilegra en ella, að eigi flokkur von á aðeins örfáum atkv., þá sé bara landslisti í kjöri. Þarf þá eigi að vera að senda út í vonlítil kjördæmi frambjóðendur. Þá vissi fólk, hvað væri um að ræða en ekki yrði farið eftir gildandi reglum um þá, er ná uppbótarþingsætum, þ. e. 1. Fallnir frambjóðendur. 2. Þeir, sem hafa hæst hlutfall. 3. Skv. röðuðum landslista. Mér fyndist, að þetta ágreiningsatriði ætti að koma til athugunar. Þarf ekki stjórnarskrárbreyt. til þess. Hins vegar vil ég taka það fram, að vegna þess, að hér yrði um víðtækar breyt. að ræða, teldi ég ekki óeðlilegt, að brtt. yrðu athugaðar af hv. allshn.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um málið. Ég vænti þess, að hv. þm. sé ljóst, um hvað sé að ræða, og þeir geti án orðalenginga orðið við þessu.