14.04.1950
Neðri deild: 82. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (3058)

116. mál, kosningar til Alþingis

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Þegar það mál, sem hér liggur fyrir, var afgr. í allshn., sem ég á sæti í, þá mælti n. með frv., en einstakir nm. áskildu sér rétt til þess, eins og oft er, að fylgja brtt., sem fram kynnu að koma, eða bera fram nýjar brtt. Nú hefur hv. þm. A-Húnv. lagt hér fram brtt. á þskj. 527, sem fyrst var útbýtt á þessum fundi, sem ganga í þá átt að gera verulegar breyt. á kosningal. Mér finnst þessar brtt. að mörgu leyti athyglisverðar og að rétt sé að athuga þær gaumgæfilega. En ég tel sérstaklega síðari höfuðbrtt. svo stórvægilega, að rétt væri að eiga þess kost að raða þessar brtt. A. m. k. tel ég þetta. hvað snertir mig og minn flokk. Ég vildi þess vegna taka undir það með hv. þm. A-Húnv., að þessari umr. yrði frestað nú, hvort sem málinu yrði nú vísað beinlínis til n. eða ekki. Þó að ég telji þessar brtt. athyglisverðar, vil ég á þessu stigi hvorki mæla gegn þeim né lýsa fylgi við þær. — Ég get lýst því yfir nú þegar, að ég felli mig að mörgu leyti betur við till. hv. þm. A-Húnv. viðvíkjandi merkingu framboðslistanna, og get tekið undir þau rök, sem hann flutti þar, máli sínu til stuðnings. Og ég teldi eðlilegt og skynsamlegt, að með listabókstafnum væri kjósendum landsins gefin hugmynd um það, hvaða flokkur stæði að hverjum lista, og að þannig væri stafurinn tákn þess flokks, og að listabókstafurinn væri, eftir því sem kostur er á, tengdur við fyrsta bókstaf í flokksheiti viðkomandi flokks. Mér lízt þegar vel á þessa till. og teldi, að rétt væri að athuga, hvort hún væri ekki betri og happasælli en till. í upphaflega frv., — þó að ég telji tilgang þess frv. góðan og að rétt sé og eðlilegt að tryggja landsmálaflokkunum fastan listabókstaf án tillits til þess, hvort allir flokkar hafa frambjóðendur í kjöri við allaf kosningar á hverjum stað, því að það veldur nokkrum ruglingi, ef breyt. verður á bókstöfum flokkanna. En breyt. verður á þessu af sjálfu sér, í sumum tilfellum, ef fylgt er reglum núgildandi kosningalaga. Það kannast allir við það, að í kosningahríðinni — sérstaklega í alþingiskosningum — og líka í bæjarstjórnarkosningum, þá er dreift yfir fólkið hvatningum, þar sem menn eru hvattir til þess að kjósa þennan og þennan listabókstaf. Og það veldur þá nokkrum vandkvæðum, ef ekki er sami bókstafurinn í öllum kjördæmum landsins fyrir sama flokkinn.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar inn á efni brtt., en vildi óska þess, að hæstv. forseti vildi fresta umr. um frv. og það yrði ekki tekið á dagskrá aftur, fyrr en upplýst væri, að flokkarnir hefðu kynnt sér málið nánar. Og mætti þá vel vera, að allshn. kæmi saman til fundar, eftir að það væri skeð, og fjallaði um brtt.