24.02.1950
Neðri deild: 51. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (3062)

117. mál, raforkulánadeild Búnaðarbankans

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. þetta, sem prentað er á þskj. 351, en það er frv. til l. um raforkulánadeild við Búnaðarbanka Íslands. Samkvæmt 1. gr. frv. segir svo: „Stofna skal við Búnaðarbanka Íslands deild, sem hefur það sérstaka verkefni að veita lán fyrir heimtaugargjöldum til þeirra bænda, sem fá rafmagn hjá Rafmagansveitum ríkisins. Deildin skal heita raforkulánadeild Búnaðarbanka Íslands.“ Gert er ráð fyrir, að stofnfé deildarinnar verði 5 millj. kr., sem greiðast eiga úr jafnvirðissjóði, og að lánin séu veitt til 15 ára. Vextir séu 3½%: Í varasjóð skal leggja ½%a af útistandandi fé deildarinnar. Allar fjárreiður sjóðsins fari fram í Búnaðarbankanum gegn þóknun, sem ekki fari fram úr ½% árlega af útistandandi fé deildarinnar. Ég hef rætt þetta mál allýtarlega við bankastjóra Búnaðarbankans, og hefur hann fallizt á, að nóg væri að leggja ½% í varasjóð, til þess að bankinn geti staðið undir væntanlegum rekstri raforkulánadeildarinnar.

Eins og nú standa sakir, hefur ekki verið unnt fyrir bændur að fá lán út á heimtaugar, en ráfmagnsheimtaugargjöld eru mjög há, þar sem 1/4 rafmagnsveitnanna greiðist af notendum. Meðalkostnaður á býli hefur verið 6 þús. kr. Auk þess hefur svo bætzt við kostnaður við lagnir í, íbúðarhús, peningshús og kostnaður við kaup á raftækjum. Það er því sýnt, að meðalkostnaður á býli verður um 12–15 þús. kr. Þetta er það há upphæð, að fáir bændur geta greitt þetta fé út, án þess að taka að láni hluta kostnaðarverðsins. Síðan raforkulögin tóku gildi, hefur verið lagt út í miklar raforkuframkvæmdir á Suðurlandi og víðar. Svo mun háttað á ýmsum stöðum, að heimtaugargjöld eru enn ógreidd, en margir hafa orðið að taka víxillán til þess að geta staðið í skilum með lánið. Illt er fyrir bændur að standa undir slíku, þar sem vextir eru 6–7%, en ofan á þetta bætast svo stimpilgjöld og framlengingarkostnaður. Bændum er því nauðsyn að losna við þetta lánsform, og er nauðsynlegt, að komið verði upp lánsstofnun, sem sinni því sérstaka hlutverki að lána fyrir heimtaugargjöldum, til þess að firra vandræðum. Með 5 millj. kr. stofnfé væri úr þessu bætt í næstu framtíð. Eftir að höfuðstóll deildarinnar hefur verið lánaður út, verða nettótekjur hennar árlega 500 þús. kr., þar af 7,5% afborgun af stofnfénu og svo vaxtatekjur. Reynslan mun svo skera úr því, hvort deildin fullnægir eftirspurninni. Þess er vart að vænta, að raforkuframkvæmdir verði á næstunni svo örar. En þó að tímarnir verði erfiðir, verður jafnt og þétt að miða í þá átt, að haldið verði áfram að dreifa raforkunni út um byggðir landsins, en raforkan er undirstaða alls nútíma atvinnurekstrar. Framkvæmdir, sem hafnar hafa verið í sveitum, hafa vakið menn og gefa vonir um, að sveitirnar geti öðlazt þessi þægindi. Alþingi þyrfti að sýna þessu meiri skilning. Þessar 5 millj. eru lítill hluti jafnvirðissjóðsins, því að gert er ráð fyrir, að Marshallféð verði um 120 millj. kr. Þar af er reiknað með, að 40 millj. kr. fari til virkjunar Sogsins og Laxár. Einnig hefur verið talað um að nota þetta fé til byggingar á áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju. Það er að vísu ekki nema gott eitt um það að segja, að féð sé notað til nytsamlegra hluta. Stofnun raforkulánadeildar ætti að vera einn liðurinn í þessum áformum. — Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið, en vænti þess að því verði vel tekið og verði að l. á þessu þingi. Ég vil svo gera það að till. minni, að málinu verði vísað til hv. fjhn. og 2. umr. að þessari umr. lokinni.