21.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (3085)

131. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég hafði sent þetta frv. til hv. fjhn. og beðið hana að flytja það í d., áður en stjórnarskiptin urðu. Heyrir það að vísu undir hæstv. fjmrh., en hann er fjarverandi, og þykir mér því hlýða, að ég fylgi því úr hlaði með nokkrum orðum.

Áður en samþykkt voru l. um stofnlánadeildina, hafði Alþ. og ríkisvaldið gert ráðstafanir til þess, að byggðir væru 50 bátar í Svíþjóð og 30 togarar í Bretlandi. Gert hafði verið ráð fyrir því, sérstaklega hvað togarana snerti, að þeir gætu fengið lán úr stofnlánadeildinni, þegar til kæmi, og enn fremur þessir bátar og aðrir, sem þyrftu á slíku stofnfé að halda. Þegar til kom, var ljóst, að stofnlánadeildin hafði ekki nærri það fé, sem þurfti til þess að lána fyrirtækjum, sem stofnuð höfðu verið til nýbygginga og gert hafði verið ráð fyrir, að fengju lán í stofnlánadeildinni. Afleiðingin af þessari fjárþurrð var sú, að ríkissjóður, ef svo mætti segja, brann inni með 7 af þessum 30 togurum, sem gátu ekki fengið lán úr deildinni. Þegar svo var komið, var horfið að því ráði, að ríkissjóður legði þetta út til bráðabirgða, þ. e. a. s. aukin yfirdráttarheimild ríkissjóðs í Landsbankanum fyrir þessa 7 togara. Enn fremur urðu út undan 17 Svíþjóðarbátar, og þær fjárhæðir, sem ríkissjóður hefur lagt út í þessu skyni, eru 16½ millj. kr. fyrir togarana og 9½ millj. fyrir bátana. Þetta eru 26 millj., sem fallið hafa á ríkissjóð, þannig að yfirdráttarskuldir hans hafa aukizt að sama skapi. Undir þessum kringumstæðum virðist ekki rétt, að þau ákvæði stofnlánadeildarl. komi til framkvæmda, að endurgreiðsla lánanna falli jafnóðum til Seðlabankans og að það sé jafnframt dregið úr stofnlánadeildinni. Það þykir ekki eðlilegt, að ríkissjóður sé með þennan bagga á herðum, og væri því réttara, að stofnlánadeildin fengi greiðslufrest á þessu hjá Seðlabankanum, þannig að þetta verði þá ekki greitt úr deildinni fyrr en fullnægt hefur verið þeim kvöðum, sem ríkissjóður hefur orðið á sig að taka í þessu sambandi. Að vísu má segja, að það séu fleiri skip eða fyrirtæki, sem hafi orðið út undan hjá stofnlánadeildinni, fyrirtæki, sem beinlínis höfðu fengið loforð hjá viðkomandi yfirvöldum um lán úr stofnlánadeildinni, en ekki fengið sökum fjárskorts deildarinnar. Má segja, að það væri sanngjarnt, að þessi fyrirtæki væru tekin þarna með. En fjmrh. taldi ekki rétt fyrir sig í þessu sambandi, að annað væri tekið en það, sem ríkissjóður hefur á sinni könnu. En ég vildi drepa á þetta til þess að benda á, að fjmrn. lokar alls ekki augunum fyrir þeim möguleika, að þessum fyrirtækjum yrði liðsinnt jafnframt. Það mundi þá verða tekið til athugunar undir gangi málsins í þinginu. Hér er ekki stofnað til neinnar nýrrar fjárfestingar, heldur gerðar ráðstafanir til þess að létta byrðum af ríkissjóði og að það komi inn í þá stofnun, sem að réttu lagi á og átti að standa undir þessum fjárkröfum.