10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er gert ráð fyrir að láta fiskábyrgð þá, sem hér um ræðir, gilda til 15. maí, og með því er sæmilega bjargað vetrarvertíðinni, en alls ekki atvinnulífi fólks, nema hér við Faxaflóa, því að ef ábyrgðin gildir ekki lengur, þá er verið að útiloka, að útvegsmenn annars staðar á landinu, sem veiða sinn fisk að sumrinu, njóti þessara fríðinda. Ég legg því mikla áherzlu á, að þessu verði breytt og ábyrgðin látin gilda allt árið. Það er að vísu mjög talað um, að þetta komi ekki til greina vegna þess, að frambúðarlausn verði fundin á þessum málum fyrir 1. marz, en ég dreg í efa, að svo verði.

Þá vildi ég og ræða um framkomna brtt. þess efnis, að ríkisstj. taki að sér að innleysa lögveð og sjóveð af bátum á grundvelli laga um þetta efni, sem samþ. voru 1948, og í því sambandi leyfi ég mér að minna á, að í desember s.l. var flutt till. af hv. þm. Siglf. (ÁkJ), hv. 2. þm. Reykv. (EOl) og mér þess efnis, að Alþingi fæli ríkisstj. að láta innleysa sjóveðskröfurnar, og rökstuddum við, að til þess þyrfti að koma sem fyrst, m.a. til þess að losa hlutaðeigandi menn við óþarfa kostnað, sem yrði af því að fara með málin til lögfræðinga. Nú hafa hins vegar 4 þm. lagt til að taka inn í þessi lög ákvæði um, að ríkisstj. innleysi veðin á grundvelli l. frá 1948. Ég styð þetta vissulega, en ég álít upphæðina, sem til þessa er ætluð, allt of litla, þar sem aðeins er gert ráð fyrir 1.5 millj. kr. Það er upplýst, að sú lausn, sem gerð var fyrir vertíðina 1948, kostaði 6,5 millj kr., og þótt ástandið sé ekki eins slæmt nú og þá var, þá er það þó það slæmt, að það þarf meira en 1,5 millj. kr. í þessu skyni. Því flyt ég brtt. þess efnis, að í staðinn fyrir 1,5 millj. kr. komi 2,5 millj. kr., og þykist ég hafa fyrir því fullar líkur, að sú upphæð verði ekki of mikil, en nokkrar líkur fyrir því, að leysa megi málið nokkurn veginn með þeirri upphæð. Afhendi ég svo hæstv. forseta brtt. mína.