24.03.1950
Neðri deild: 74. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (3104)

133. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar frv. um gengisskráningu o. fl. var til umr. í hv. d. í síðustu viku, fluttum við þm. Alþfl. við það tvær brtt., sem gerðu ráð fyrir, að persónufrádráttur mætti hækka nokkuð frá því, sem nú er, en þær till. voru báðar felldar. Þessum brtt. var andmælt m. a. með því, að slík ákvæði ættu ekki heima í þeim lögum. Hins vegar var þess getið af hæstv. forsrh., e. t. v. fyrir hönd hæstv. ríkisstj., að eðlilegt væri að hækka nokkuð persónufrádráttinn. Það er og mála sannast, að persónufrádrátturinn er óeðlilega lágur, eins og hann er í gildandi skattalögum. Í Reykjavík er hann ákveðinn 900 kr. fyrir einstakling að grunntölu, fyrir hjón 1.800 kr. og 700 kr. fyrir hvert barn, en utan Reykjavíkur er hann 100 kr. lægri fyrir hvert barn. Meðan persónufrádrátturinn er ekki hærri en þetta, eru þurftartekjur skattlagðar og auk þess óeðlilega lítill munur gerður á skattgreiðslu einhleypra og hjóna og einnig barnlausra og barnmargra fjölskyldna. Það hefur því lengi verið réttlætismál að lækka skatta á þeim, sem hafa mörg börn á framfæri sínu. En nú með gengislækkun þeirri, sem nýverið hefur verið samþ. á Alþingi, er þörfin mun meiri, því að hún hlýtur að koma mjög hart niður á láglaunamönnum og alþýðu manna almennt. Það er því þörf ráðstafana til að koma á nokkurri tekjujöfnun með því að lækka skattabyrðina á láglaunamönnum og barnmörgum hjónum. Þess vegna er þetta frv. fram borið. Væntum við flm. góðra undirtekta, vegna þess að skilja mátti af orðum hæstv. forsrh., að hæstv. ríkisstj. teldi þessa breytingu eðlilega. — Þess má geta í sambandi við þetta, að fyrir hv. Ed. liggur frv. um breyt. á skattalöggjöfinni í þá átt að hækka persónufrádráttinn, en þó ekki alveg eins mikið og hér er gert ráð fyrir. En ef ástæða hefur verið fyrir hendi að hækka persónufrádráttinn sem nemur því, sem þar er gert ráð fyrir, á þeim tíma sem það var lagt fyrir hv. d., þá er ekki vanþörf að hækka hann nú sem þessu nemur. Í því frv. eru tvö höfuðatriði: Í fyrsta lagi hækkun á persónufrádrættinum og í öðru lagi að heimila að draga kostnað vegna aðkeyptrar heimilishjálpar frá skattskyldum tekjum, ef kona skattgreiðanda vinnur utan heimilis. Sú till. mun vera miðlunartill. í máli, sem deilum hefur valdið á undanförnum þingum, þ. e. hvort skattleggja eigi hjón saman eða ekki. Ég hef borið fram frv. um, að samsköttun skuli hætt, en það hefur ekki hlotið fylgi hér á Alþ. Þetta mun hv. 8. þm. Reykv. hafa vitað og þess vegna borið fram sitt frv., m. a. til þess að freista að fá nokkra lagfæringu á því ranglæti, sem átt hefur sér stað í þessum málum. En þetta frv. veldur líka deilum, og eru margir þm. andvígir því, m. a. vegna þess að þar er blandað saman tveim lítt skyldum málum. Vegna þessa er ástæða til að ætla, enda orðin sú raun á, að það verði fyrir nokkrum töfum. Það er heldur ekki rétt að blanda þessum málum saman, þar sem annað hefur verið og er mikið deilumál. Þess vegna höfum við þm. Alþfl. í þessari d. flutt þetta frv. um breyt. á einu atriði í skattalöggjöfinni, ákvörðunum um persónufrádrátt. Viljum við nú fá úr því skorið, hvort þetta réttlætismál á ekki fylgi að fagna hjá þeim flokkum, sem styðja hæstv. ríkisstj., því að ekki er ástæða til annars en ætla, eftir því sem fram kom, er frv. um gengisskráningu o. fl. var afgreitt, að báðir þeir flokkar, sem í stjórnarandstöðu eru, séu þessu fylgjandi. — Ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. fjhn.