24.04.1950
Neðri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (3108)

140. mál, skáldalaun, rithöfunda og listamanna

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Undanfarið hefur mjög verið rætt um andlegt frelsi. Umræður þessar eru auðvitað góðra gjalda verðar, en hins vegar hafa þær verið nokkuð einhliða, þar sem þær hafa aðallega snúizt um andlegt frelsi manna erlendis. En ekki hefur verið rætt um andlegt frelsi manna hér innanlands, þótt það ætti að liggja mönnum nær.

Eins er það alkunnugt, að hið opinbera hefur allmikil afskipti af listamönnum okkar. Þjóðin er fámenn, og til þess að halda uppi listamannalífi og hlynna að þeim á einhvern hátt koma til afskipti ríkisvaldsins. Beinustu atskipti þess eru laun listamannanna. Á fjárlögum þessa árs er áætlað ½ millj. kr. til listamanna. Síðustu árin hefur staðið styr um þessa úthlutun. Sumir listamenn hafa fengið hvatskeytislega áminningu um stjórnmálaskoðun sína og verið refsað eftirminnilega, en aðrir hafa fengið umbun fyrir sín stjórnmálaafskipti. Tilgangurinn hefur auðsjáanlega verið sá að laða menn til fylgis við ákveðna stjórnmálaflokka eða hræða þá. — Upphaflega var sá háttur á úthlutun listamannalauna hafður, að hv. Alþingi úthlutaði fénu til einstakra listamanna á tveim greinum fjárlaganna, 15. gr. og 18. gr. Þeir, sem komust á 18. gr., héldu sínum launum til æviloka, því að ekki mátti skerða þau, en aðeins hækka. Þetta var mikið öryggi fyrir listamenn. 1939 var þessu breytt. Ástæðan til þess var eingöngu pólitísks eðlis. Var breytingunni beint gegn Halldóri Kiljan Laxness og Þórbergi Þórðarsyni. Hafði H. K. L. þá 5.000 kr. og Þ. Þ. 2.500 kr. í listamannalaun árlega, en þeir voru nú snögglega lækkaðir niður í 1.800 kr. Tilgangurinn var einungis sá að hirta þessa menn.

Ég hef hugsað mér að vekja ekki deilur hér um þetta mál, en ekki varð hjá því komizt að drepa á þetta, sem ég hef gert, og hæfir hér að minna á ályktun, er gerð var á stofnfundi Bandalags íslenzkra listamanna 1942 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Listamannaþingið vill leiða athygli Alþingis að eftirfarandi atriðum:

1. Þeim listamönnum og rithöfundum, er launa nutu samkvæmt 18. gr. fjárlaga, var raunverulega gefið beint fyrirheit löggjafans um, að þeir nytu þeirra launa ævilangt.

2. Þetta fyrirheit löggjafans hefur verið rofið með því fyrirkomulagi, sem nú ríkir um úthlutun fjár til skálda og listamanna.

3. Slíkt brot á raunverulega gefnu heiti getur ekki talizt samboðið virðingu hins háa Alþingis, og auk þess skapar sú ráðabreytni óvissu og öryggisleysi fyrir þessa menn og aðra, er til greina hefðu komið síðar. En þetta allt saman hlýtur að draga mjög úr möguleikunum fyrir því, að fullgild ritverk og önnur listaverk geti orðið til, og er því beinlínis til tjóns fyrir menningu þjóðarinnar á þessum sviðum.“

Ég hygg, að þessi röksemdafærsla eigi einnig við í dag. — 1942 var málunum breytt enn þá. Átti þá hver deild innan listamannasamtakanna að skipta laununum á milli einstaklinga. Þessi tilhögun mun ekki hafa verið gerð af góðum hug, enda er þetta fyrirkomulag ekki skynsamlegt. 1946 var enn breytt til, og var þá sá háttur tekinn upp, að láta þingkjörna nefnd úthluta fénu. Úthlutun þessarar nefndar hefur vakið umtal og deilur. Nefndin lækkaði laun H. K. L. úr 6.000 kr. í 4.000 kr., og er það brot gegn 18. gr., þar sem hann hafði áður kr. 5.000. Enn fremur voru lækkuð laun hjá Gunnari Benediktssyni, Ólafi Jóh. Sigurðssyni, Snorra Hjartarsyni og Magnúsi Ásgeirssyni. 8 rithöfundar mótmæltu þessum aðförum og neituðu að taka við launum sinum. Dagblöðin töldu úthlutunina óréttláta og lögðu til, að fyrirkomulaginu yrði breytt. En þetta fyrirkomulag hefur haldizt óbreytt, og hefur hin þingkjörna nefnd úthlutað listamannalaununum. Þessi stefna, sem fram kom, að lækka og hirta vissa menn, hefur haldizt. Helztu breytingar, sem orðið hafa, eru: H. K. L. hefur ekki fengið nein laun undanfarin tvö ár. Halldór Stefánsson hefur verið sviptur öllum launum, Gunnar Benediktsson og Snorri Hjartarson sömuleiðis, og nú siðast gerðist það, að laun próf. Jóns Helgasonar voru felld niður. Lækkaðir hafa verið: Magnús Ásgeirsson, Steinn Steinarr, Ólafur Jóh. Sigurðsson. Allt þetta hefur vakið miklar deilur, og ég held, að fáir hafi verið ánægðir með þetta fyrirkomulag. 1946, þegar deilur stóðu um þessi mál, skipaði þáv. menntmrh., Brynjólfur Bjarnason, nefnd til að gera till. um að koma málum þessum í fast horf. Í nefndinni voru: Jakob Benediktsson, Kjartan Ólafsson, Pálmi Hannesson og Gunnar Thoroddsen. Nefndin kom sér saman um frv., og voru helztu atriði þau, að 7 manna nefnd átti að sjá um úthlutun listamannalaunanna; 4 menn skyldu tilnefndir af stjórnmálaflokkunum, 2 af heimspekideild háskólans, og 7. nefndarmaðurinn var tilnefndur af þeirri deild, sem verið var að úthluta til í það og það skiptið. Þá voru og ákveðnir 6 launaflokkar. Enn fremur, að þeir, sem fengið hefðu laun í efstu launaflokkum í 5 ár, haldi þeim ævilangt úr því. Og að lokum lagði nefndin til, að verðlauna skyldi fyrir einstök verk höfunda. Þetta frv. var sent Bandalagi íslenzkra listamanna til umsagnar. Það lagði til, að nokkrar breyt. yrðu gerðar á því, og er niðurstaðan sú, sem þetta frv. ber með sér, sem ég hef leyft mér að bera fram. Það fyrirkomulag, sem hér er lagt til að upp verði tekið í úthlutun launa til listamanna, er einfalt, og er gert ráð fyrir 3 launaflokkum. Þetta frv., eins og það nú liggur fyrir, var samþ. af öllum þeim, sem um það fjölluðu í Bandalagi ísl. listamanna, og sýndi ég það hv. 3. landsk. þm., en hann hefur haldið fast við sitt frv. Hins vegar hefði ég kosið, að hægt yrði að ná samkomulagi um þetta mál, og er ég fús til að ræða um breytingar á frv., en það skiptir miklu máli, að Alþingi komi nú endanlegu skipulagi á þessi mál.

Hv. þm. ættu að vera sammála um það, að deilur þær, sem orðið hafa um úthlutun launa til listamanna, séu sízt til sóma fyrir Alþingi, og er þess brýn nauðsyn, að í þessu deilumáli verði komið í endanlegt horf.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.