10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af aths. hæstv. fjmrh. í sambandi við brtt. mína. Hæstv. ráðh. gat ekki fallizt á, að hér væri um gjaldeyri með öðru gengi að ræða, heldur vildi hann kalla þetta sérstakt verðlagsákvæði, sem ætti aðeins að heyra undir verðlagsyfirvöldin. Ég get ekki fallizt á þetta, því að hér er ekki um verzlunarálagningu að ræða. Þessi álagning er allt annars eðlis, enda fá verzlanir ekki þessa álagningu. Hér er því ekki um verðlagsákvæði. að ræða, en vilji hæstv. ráðh. heldur nefna þetta aukatoll, þá er mér sama. En það ber bara að sama brunni, því að öll tollaákvæði eiga að ákvarðast af Alþingi. Þetta leiðir því að sömu niðurstöðu, hvort sem um aukatoll eða sérstakt gengi er að ræða, og það getur ekki talizt heilbrigt, að ríkisstj. taki ákvarðanir um slík mál. Stjórninni er því í raun og veru fengið með þessu vald, sem lögum samkvæmt á að vera hjá Alþingi, og ef til vill gæti hún líka bætt inn vörutegundum á þennan svo kallaða frílista, meðan Alþingi ekki stöðvar það, að hún hafi möguleika til að fjalla ein um þessa hluti. Þar sem ég tel þetta fyrirkomulag bæði óheppilegt og skapa hættulegt fordæmi, vil ég láta Alþingi taka ákvörðun um, hvaða vörur falla undir þennan svo nefnda frílista og hvernig framkvæmd þessari eigi að haga, og um það fjallar brtt. mín, og raunar er það ekki annað en það, sem Alþingi ber, lögum samkvæmt.