29.11.1949
Efri deild: 6. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (3137)

30. mál, stóríbúðaskattur

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafá mörg orð um þetta frv. Það lá hér fyrir á síðasta þingi, en varð ekki útrætt, þannig að þdm. er það kunnugt. Ég vil aðeins láta þess getið, að það, sem fyrir flm. vakir með þessu frv., er það að fá einhvern jöfnuð á húsnæði, en svo sem kunnugt er, er húsnæðisskorturinn mikill og kemur ákaflega illa niður meðal fólksins, það sem samkv. skýrslum er sagt, að hér í Rvík búi um 1.700 manns í bröggum, sem ættu þegar að hafa verið lagðir niður, þar sem þeir voru byggðir til aðeins fárra ára. Samtímis hefur það svo gerzt, að byggt hefur verið meira af stærri íbúðum, en nauðsynlagt má teljast, að fólk hafi, og er tilgangurinn með þessu frv. sá, að reyna að fá á einhvern hátt jöfnuð metin. Mundi það geta gerzt með tvenns konar hætti, þ. e. að vegna þessara l. yrði aukið framboð á húsnæði eða í gegnum þann skatt, sent hér er gert ráð fyrir, sköpuðust möguleikar til þess, að byggingarfélögin fengju einhver fjárráð, en eins og kunnugt er, er það annað aðalatriðið, sem hamlar byggingum mjög mikið, að ekki er nokkur leið að fá fé með nokkurn veginn sæmilegum kjörum. — Ég orðlengi þetta ekki frekar, en óska, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og fjhn.