10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvrmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það virðist eins og sumum hv. þm. sé heldur lítið um þennan svo kallaða frílista, og þá ekki hvað sízt framkvæmd hans, eftir því sem þeir hafa látið orð falla. Nú er hv. þm. kunnugt um, hvernig á þessum frílista stendur. Hann er leyfður til samkomulags við útvegsmenn og er hlunnindi þeim til handa. Það er því ofur skiljanlegt, að þeir vilji ekki missa þá aðstoð, sem í honum felst, nema fá eitthvað í staðinn. Það má líka minna á, að sumar vörutegundirnar á þessum lista hefðu ella ekki verið framleiddar, og má þar til nefna vetrarsíldina, sem veidd hefur verið í haust og fjöldi manna hefur haft atvinnu af. Vegna þess að nokkurs misskilnings virðist gæta varðandi framkvæmd þessa máls, þá vil ég upplýsa, hvernig leyfin eru veitt í sambandi við þennan frjálsa gjaldeyri. Framkvæmdinni er lýst í bréfi frá viðskiptanefndinni, og vil ég leyfa mér að lesa hér upp úr því kafla, sem fjallar um þetta mál:

„Á árinu 1949 var framkvæmd þessara mála með nokkuð öðrum hætti, en á fyrra ári, þar sem m.a. var gert sérstakt samkomulag á milli ríkisstj. og útvegsmanna hinn 11. jan. 1949 um frílistavörur. Samkvæmt því samkomulagi senda útvegsmenn viðskmrn. framleiðslukostnaðaráætlanir sínar yfir þær framleiðsluvörur sjávarútvegsins, sem féllu undir samkomulagið við ríkisstj. Viðskmrn. vísaði því næst áætlunum þessum til fjárhagsráðs og óskaði umsagnar þess um áætlanirnar og framkvæmd málsins. Fjárhagsráð samþykkir því næst og ákveður að skipa undirnefnd í málið, en sú nefnd var skipuð einum manni tilnefndum af fjárhagsráði og öðrum tilnefndum af viðskiptanefnd ásamt þriðja manninum, sem var verðlagsstjóri. Eftir að aðilar þessir höfðu fjallað um málið og auk þess áætlanirnar og leiðréttingar undirnefndarinnar á þeim margræddar á fundi viðskiptanefndar og fjárhagsráðs og þannig endurskoðaðar, voru þær því næst sendar viðskmrn. aftur til staðfestingar. Fjárhagsráð veitti því næst alltaf öðru hvoru allt árið heimildir til viðskiptanefndar um leyfisveitingar á hinum ýmsu vöruflokkum, sem féllu undir samkomulagið um frílistavörurnar við ríkisstj. hinn 11. jan., og virðist mér fyrirkomulag þetta, með því að hafa framkvæmd málsins á jafnmargra manna höndum sem raun bar vitni, hafa torveldað mjög um eðlilega og skjóta framkvæmd á leyfisveitingunum.

Leyfisveitingar þessar á árinu 1949 voru að sjálfsögðu háðar nákvæmlega sama eftirliti og á árinu áður, og tel ég, að leyfisveitingar í sambandi við hinar svo nefndu frílistavörur, skv. samkomulagi ríkisstj. og útvegsmanna 11. jan. 1949, hafi ekki verið frekar möguleikar til þess að misnota leyfi skv. þessu samkomulagi heldur en yfirleitt önnur gjaldeyris- og innflutningsleyfi, sem veitt voru á árinu 1949.

Sverrir Júlíusson.“

Ég tel mér skylt að upplýsa þetta og vil jafnframt geta þess, að útvegsmenn hafa í viðræðum við ríkisstj. fallizt á sama fyrirkomulag og framkvæmd þessa máls í framtíðinni eða á þessu nýbyrjaða ári.

Það hefur komið til mála, að þorskalýsi yrði bætt inn á þennan svo kallaða frílista. Við lauslega athugun hefur komið í ljós, að það gæti hækkað hásetahlut nokkuð, eða hver 10 aura hækkun gæfi 131 kr. í hásetahlut og bátshluturinn hækkaði um 1.260 kr. Ég tel sanngjarna þá kröfu, að þorskalýsinu verði bætt á frílistann, en hins vegar er ég algerlega andvígur brtt. þm. V-Húnv. um, að ríkisstj. ábyrgist ákveðið verð á þorskalifur. Í fyrsta lagi vegna þess, að útvegsmenn hafa alls ekki óskað eftir slíkri ábyrgð. Í öðru lagi hefði slík ábyrgð í för með sér milljónagreiðslur úr ríkissjóði, sem engar tekjur hafa verið ætlaðar fyrir, og sýnist nægilega mikið ákveðið af slíkum ávísunum á ríkissjóð. En auk þessara ástæðna mundi slík ábyrgð gera þessi mál öll miklu torleystari. Ég vil þess vegna eindregið mælast til, að þessi brtt. verði felld.