29.11.1949
Efri deild: 6. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (3143)

30. mál, stóríbúðaskattur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að ummæli síðasta hv. ræðumanns um fjandskap við þetta frv. get ég ekki tekið til mín. Ég gerði við það ákveðnar efnislegar athugasemdir, sem hv. 1. flm. hefur ekki hreyft athugasemdum við, og ég verð þess vegna að álíta, að hún, á þessu stigi málsins, hafi talið, að þær hefðu við rök að styðjast, og ég get ekki séð, að það sé neinn fjandskapur við málið, þótt það sé rætt eins og það liggur fyrir og bent á, hvar þar megi betur fara. Ég vil taka það fram, að ég er út af fyrir sig — ég get sagt það alveg skýrt — því sammála, að það geti vel komið til athugunar að fallast á þessa leið, sem hér er stungið upp á, svo fremi að það takist að færa þetta í það horf, að aðgengilegt sé og verði ekki, eins og ég sagði áðan, um bersýnilega rangsleitni að ræða annars vegar og gagnslaus pappírsl. að ræða hins vegar, sem auðvelt sé að komast fram hjá. En það er það, sem ég hef verið hræddur við um slíka lagasmiði sem þessa. En ég játa, að húsnæðisvandræðin eru svo mikil og eru sannarlega svo erfitt úrlausnarefni, að fyrir fram er ekki hægt að hafna neinni till., sem í alvöru er flutt fram til þess að reyna að bæta úr þeim. Hitt benti ég á, að þetta frv. sýnist að undanförnu ekki hafa verið flutt í alvöru, vegna þess að því hefur ekki verið fylgt eftir af flm. þess, eins og gert er með frv., sem menn í raun og veru vilja að nái fram að ganga. Ég tel líka, að á þessu frv. séu svo miklir annmarkar, að ef menn í alvöru hefðu viljað láta það ná fram að ganga, þá hefðu þeir vandað betur til þessarar frv.-smíðar en gert er.

En ég vil sérstaklega taka það fram hér, að ég tel, að hyggilegra sé að beita í þessu skyni skattaðferðinni heldur en beinni skömmtun, og ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um, að það mundi koma mildilegar niður, en þó gera sama gagn í flestum tilfellum, þannig að ef um það tvennt er að ræða, þá sýnist mér skattaleiðin aðgengilegri. Ég man ekki betur, en á árinu 1943 hafi verið samþ., að vísu takmörkuð heimild um skömmtun á húsnæði, en enginn treysti sér til að nota þá heimild. Hún var skilyrðum bundin og tímatakmörkuð, en sá tími leið, sem hún var í gildi, án þess að menn treystu sér til að taka það fyrirkomulag upp hér. Hitt lýsti svo nokkrum misskilningi hjá síðasta ræðumanni, að hann sagði, að rétt væri að samþ. þetta frv. vegna þess, að það mundi koma í veg fyrir slíkar óhófsíbúðir eins og sjá mætti hér á Melunum. Ég vil benda hv. þm. á, að fjárhagsráð hefur algerlega tekið fyrir slíkar byggingarframkvæmdir. Ég held ég megi segja það, að hámark íbúðarstærðar. sem fjárhagsráð leyfir, séu 135 ferm., og í mörgum tilfellum leyfir það minni íbúðir einungis, þannig að nú þegar er búið að koma á þessari umbót. Ég vil geta þess til fróðleiks, að á þeim árum, sem ég var borgarstjóri í Reykjavík, leituðumst við töluvert eftir að stuðla að því, að góðar lóðir væru notaðar á þann veg, að gert væri að skyldu, að tvær íbúðir væru í hverju húsi. En ég minnist nokkurra dæma þess, að það var farið í kringum þetta á þann veg, að ekki varð við gert. Þessi löngun manna, þegar þeir hafa fjárráð til þess, að hafa stórar íbúðir, er svo sterk, að það verður býsna erfitt að girða þar fyrir. (HV: Mundi þá ekki skatturinn hjálpa?) Jú, það getur vel verið, að hann mundi hjálpa. Mér virðist fjárhagsráð hafa gert tilraunir til að takmarka stórar íbúðir. Þá hef ég einnig sagt, að ekki sé frágangssök að ræða frv. eins og þetta, það færi eftir því, hvernig tekst um útformun þess, hvaða afstöðu menn tækju til þess. En ég verð að segja það, að meðan einhleypar manneskjur geta fengið ríkisstyrk til að koma upp samvinnuhúsum, sem veittur er með ábyrgð ríkissjóðs, þá er óeðlilegt að leggja þungan refsiskatt á þá, sem koma húsunum upp styrkjalaust. Og þó að manneskjan, sem þetta gerir, firri sig skattinum með því að leigja út óhæfilega stóra íbúð með okurleigu, þá er betra fyrst að koma í veg fyrir slíka misnotkun á styrkjum ríkisins, áður en farið er að refsa þeim með þungum sköttum, sem koma upp sínu húsnæði algerlega sjálfir, enda viðurkenndi hv. þm., að þetta mál yrði að skoðast í sambandi við gildandi l. um þessi efni. — Af því að ég benti hér á nokkur einstök atriði áðan, vil ég einnig spyrjast fyrir um það, hvaða tilefni er til þess hér í 2. gr., að séu þrír í fjölskyldu, má hver fjölskyldumeðlimur hafa eitt herbergi til afnota, fyrir utan eldhús, gang og „hall“, en ef fjórir eru í fjölskyldunni, þá kemur önnur regla til greina. Ég sé ekki, að það sé eðlilegt að takmarka þetta á þennan veg. Mér finnst þá eðlilegra að segja: lágmarkið er, að eitt herbergi komi á hvern fjölskyldumeðlim. Það er hægt að taka um þetta augljós dæmi, t. d. ef um er að ræða hjón með uppkomin börn, sitt af hvoru kyni, eða ef ekki er hægt að komast hjá því að hafa vinnustúlku á heimilinu o. s. frv. Ég get ekki séð, að sanngjarnt sé að sníða þennan stakk svona þröngan sem hér er gert. Þetta heyrir að vísu undir meðferð málsins í n., en er ekki atriði, sem heyrir undir það, hvort menn geta. fylgt meginstefnu frv. eða ekki.