26.01.1950
Efri deild: 41. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (3149)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ekki getað orðið hv. meðnm. mínum sammála um afgreiðslu þessa máls og því flutt sérstakt nál. á þskj. 260. Meginefni frv., ef að l. verður, er, samkv. 1. gr., að hv. flm. vilja láta nema í burtu það ákvæði, að framlag ríkissjóðs sé bundið því skilyrði, að það sé samþ. á fjárl. hvers árs. Þetta atriði var mikið rætt, er lögin voru sett, og þótti þá nauðsynlegt að setja þetta ákvæði inn, því ekki þótti fært að ákveða svona mikil fjárframlög án þess að vita fyrst, hvort hægt væri, og var nú hagur ríkissjóðs mun betri þá en nú. Það er alveg rétt, sem hv. flm. minntist á, að l. um nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum og nokkur önnur l. kveða svo á, að til ákveðinna framkvæmda skuli veitt árlegt og ákveðið framlag úr ríkissjóði. En það er sjáanlegt, ef löggjafinn ætlar að halda áfram á sömu braut og stefna hv. flm. þessa frv. ríkir hér á Alþingi, að ákveða með l. fjárgreiðslur til margra ára í senn, þá er hætt við, að sæki í það horf, að slík l., bæði þessi og önnur, verði ekki annað en pappírslög. Sérhver lög, sem sett eru um að skuldbinda ríkissjóð til margra ára um milljóna greiðslur, veikja það, að hægt sé að standa við slíkar skuldbindingar áður settar, og endar aðeins á þann hátt, sem kallað er bandormur. Það hefur gengið svo langt, að hæstv. ríkisstj. hefur orðið að fresta framkvæmd ýmissa slíkra l., því að ríkissjóður hefur ekki getað staðið við þær skuldbindingar, sem á hann höfðu verið lagðar. Vegna þessara ástæðna get ég ekki verið sammála 1. gr. frv., og 1. gr. er ekki um annað en að nema úr gildi það, sem stendur í 3. tölul. 2. gr. l. 89/1947, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Árlegt framlag úr ríkissjóði, eftir því, sem ákveðið er í fjárlögum, allt að einni milljón króna á ári næstu 10 árin frá gildistöku laga þessara.“

Nú vil ég benda á, hvernig þetta frv. er raunverulega vanhugsað, því að í sömu gr. þessara l. frá. 1947 er ákvæði nm, að Fiskimálasjóðsstjórninni sé heimilt að taka allt að 10 millj. kr. lán og ríkisstj. heimilað að ábyrgjast það. Sé þessi heimild notuð, er takmarkinu náð og fjárhagshlið sjóðsins mun betur tryggð, en með þessu frv. Ég veit einnig, að þessi málsgr. var sett inn í l. frá 1947 með það fyrir augum, að hægt væri að fara þessa leið til fjáröflunar, ef hitt brygðist, sem tekið er fram í 3. tölulið 2. gr., að hægt væri að leggja fram á fjárl. ákveðna upphæð til sjóðsins. Sé því nú svarað til, að þessi heimild sé ekki notuð vegna þess, að ekki sé hægt að fá lán, ber að sama brunni, þótt þessi grein verði samþ. Það er nú vitað, að ríkissjóður er kominn í um það bil 200 millj. kr. skuld við bankana, og ef þetta verður samþ., er ekki annað fyrir höndum, en að ríkissjóður verður að nota heimildina í l. 89/1947 og taka enn lán. — Auk þessa er önnur veigamikil ástæða fyrir því að samþ. ekki þessa gr. frv., þ. e. a. s. fjárhagsafkoma ríkissjóðs, eins og hún er í dag, og sú skoðun sérfræðinga, að ekki megi, auka fjárfestinguna í landinu og fyrsta skilyrðið til að bæta ástandið sé að draga úr fjárfestingunni. Ef nú 1. gr. þessa frv. verður samþ., er farið í þveröfuga átt. Nú geta hv. flm. auðvitað sagt, að hægt sé að draga úr alhliða fjárfestingu, þótt þetta frv. sé samþ., og þar með aukin fjárfesting í þessum þætti atvinnulífsins. Um það má auðvitað deila, hvað ganga eigi fyrir, og skal ég ekki fara inn á þau atriði. En mér þykir rétt að benda á, að eftir skýrslum hagfræðinga er upplýst, að fjárfesting í þessum atvinnuvegi var 1947 97 millj., 1948 79 millj., 1949 67 millj., og ástæða er til að ætla, að fjárfestingin 1950 muni nema allt að 66 millj. Þetta mun svara til 18–19% af heildarfjárfestingunni hvert árið, eða um 6% af þjóðartekjunum. Talið er og, að í engu landi með séreignarskipulagi sé fjárfesting, sem ríkið tekur beint eða óbeint þátt í, eins mikil hlutfallslega og hér. Ég veit ekki, hvort hv. flm. hafa gert sér það ljóst, að samþykkt á 1. gr. þessa frv. verður einmitt til þess að torvelda lausn hins mikla dýrtíðarvandamáls og tefur þannig fyrir því, að hægt sé að starfrækja atvinnuvegina á heilbrigðum grundvelli. Það er mun mikilvægara fyrir alla aðila, að skapaður sé grundvöllur en að vera að auðvelda mönnum að fá lán, sem fyrir fram eru töpuð, ef ekki er lagður starfsgrundvöllurinn. Ég tel það því mjög vanhugsað, að menn, sem vilja þessum málum vel, — og það efa ég ekki, að hv. flm. vilja, — fari nú fram á samþykkt frv., sem einungis verður til þess að íþyngja atvinnuvegunum meira, en orðið er. Í sambandi við þetta tel ég rétt að geta þess, að hæstv. fjmrh. hefur ritað fjvn. bréf og óskað eftir því, að n. athugaði, hvort ekki væru möguleikar á að skera niður um 25% hina áætluðu fjárfestingu ríkisins 1950, þ. e. a. s. 25% af 66 millj. Á þeim lista, sem hæstv. ráðh. hefur sent n. þessu viðvíkjandi, eru einmitt mörg þau framlög, sem ákveðin hafa verið til margra ára, eins og hér er gert ráð fyrir, og ekki er hægt að skerða nema með því að búa til bandorm eða fresta framkvæmd l. um óákveðinn tíma. Mér finnst það því rekast nokkuð á, að tvær veglegar stofnanir, eins og fiskimálasjóður og Fiskifélag Íslands, skuli leyfa sér að mæla með samþykkt þessa frv., en taka það ekki til greina, að stöðva þarf fjárfestinguna um tíma til þess að lækka dýrtíðina. Ég vildi nú spyrja hv. flm., því að ég geri ráð fyrir, að frv. verði. að l., ef marka má fylgi þess hér í d., — á hvað vilja þeir benda til þess að mæta þeim útgjöldum, sem af þessu mun leiða? Vilja þeir draga úr annarri fjárfestingu eða minnka aðrar verklegar framkvæmdir, t. d. byggingu brúa, lagningu vega eða annað slíkt? Eða hafa þeir á reiðum höndum till. um nýjar tekjuöflunarleiðir? Þessar upplýsingar tel ég nauðsynlegt að fá, þegar slík ákvæði eru sett sem þetta, er hafa töluverð áhrif á fjárhagsafkomu þjóðarinnar. En að þessu mun ég víkja síðar.

Það má með miklum rétti segja, að landbúnaðinum hafi ekki verið tryggðar fastar tekjur, þegar jarðabótastyrkurinn var samþ. Hins vegar fer það, hve styrkirnir eru háir, eftir því, hve framkvæmdir eru miklar. Það hefur verið talin þörf á því að styrkja landbúnaðinn, þótt ekki gæfi hann af sér mikil útflutningsverðmæti, heldur vegna þess, að mönnum finnst þjóðin missa svo mjög við það allan svip, ef landbúnaðinum er ekki sýnd sómasamleg rækt. Og ef ég með mínu atkv. ætti að skera úr því, hvort heldur ætti að stöðva jarðabótastyrkina og þetta frv. ná fram að ganga eða öfugt, mundi ég hiklaust greiða framhaldi jarðabótastyrkjanna atkv. Nú vildi ég spyrja hv. flm., hvort þeir eru á gagnstæðri skoðun, eða hvaða leiðir þeir vildu þá fara til þess að ná jafnvægi.

Nú vil ég benda á, að samkv. l. 89/1947, um fiskimálasjóð, er verkefni þessarar stofnunar tvíþætt. Annað verkefni sjóðsins er samkv. 4. gr. nefndra l., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskimálasjóður veitir styrk til:

a. Hafrannsókna.

b. Rannsókna á fiskigöngum og fiskistofnum.

c. Tilrauna til að veiða með nýjum aðferðum eða nýjum veiðarfærum.

d. Tilrauna við verkun og vinnslu sjávarafurða.

e. Markaðsleita fyrir sjávarafurðir.

f. Annarra rannsókna og nýjunga í þarfir sjávarútvegsins.

Öll styrktarstarfsemi sjóðsins skal vera í samráði við ríkisstjórnina.“

Þetta eru bein fyrirmæli um, að sjóðurinn skuli veita o. s. frv., sem ekki er hægt að komast hjá, ef sjóðurinn hefur nokkurt fjármagn. En þetta hefur þó ekki verið gert, þótt svo ákveðið sé það tekið fram í l. Þvert á móti hefur verið horfið frá aðalatriðinu, því sem sjóðurinn skal gera, og það framkvæmt, sem: honum er heimilt að gera. Nú vilja hv. flm. enn auka það, sem eftir l. er aðeins heimilt að gera, en ekki skal gera. — Ég skal nú sýna fram á, hvernig verkefnum sjóðsins hefur alveg verið snúið við. Samkv. reikningi fiskimálasjóðs 1948 voru 390.365 kr. veittar til starfsemi, sem heyrir undir aðalatriðið og má ekki vanrækja, en aftur á móti var varið 1.141.120 kr. til starfsemi, sem sjóðurinn er ekki skyldugur að styrkja, heldur hefur aðeins heimild til að gera. Starfsemi sjóðsins hefur hér því alveg verið snúið við. Hann hefur á einu ári varið 1.141.120 kr. til starfsemi, sem honum ber ekki skylda til að styrkja, en hefur aðeins heimild til að styrkja og á ekki að ganga fyrir aðalstarfi hans. Hann hefur bókstaflega snúið við verkefnunum, sem honum var ætlað að vinna að, svo að maður verður alveg undrandi yfir, að slíkt skuli látið óátalið. Lánastarfsemi sjóðsins er rekin þannig, að 31/12 1947 á hann útistandandi 4.172.035 kr. og árið 1948 lánar hann 1.141.120 kr., en afborganir af lánum á árinu 1948, sem hann innkallar aftur — og eru sum þeirra lána mjög gömul —, eru aðeins 191.382 kr. Það er með öðrum orðum ekkert hugsað um að innkalla lán, heldur er það látið lönd og leiðir, þótt þessar millj. kr. séu útistandandi hjá Pétri eða Páli, eins og sést bezt á þessum lista. Og það er gengið lengra, það eru afskrifaðar á þessu ári 107 þús. kr. Ég verð því að segja það, að þeir menn, sem vilja nú með breyt. á þessum l. styrkja þá starfsemi, sem hér er rekin, þeir gera það ekki til þess að tryggja hagsmuni þeirra aðila, sem l. frá 1947 ætlast til, að séu tryggðir, heldur liggur eitthvað annað á bak við. Nú þykir mér rétt að benda á það í sambandi við þessa lánastarfsemi, að ég tel mjög vafasamt, að fiskimálasjóði sé heimilt að ganga eins langt og hann hefur gert, hvað hana snertir, og ég tel raunar alveg öruggt, að hann hafi ekki haft heimild til þess, eins og hann hefur gert í heild, en ég tei einnig mjög vafasamt, að hann hafi haft heimild til að lána einstökum aðilum eins og gert hefur verið samkvæmt skýrslum frá sjóðstjórninni. Það stendur hér í 5. gr. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskimálasjóður má veita viðbótarlán“ það er heimild, en ekki fyrirskipun, gagnstætt því, sem sagt er í 4. gr. — „gegn síðari veðrétti til stofnunar alls konar fyrirtækja, er horfa til eflingar fiskveiðum og hagnýtingu sjávarafurða, og séu lán þessi einkum veitt til þeirra staða, þar sem er tilfinnanleg vöntun slíkra fyrirtækja, en lítið fjármagn fyrir hendi. Hvert þessara lána má ekki fara fram úr 25% af stofnkostnaði fyrirtækisins og ekki að viðbættum lánum með betra veðrétti nema meiru en 85% af stofnkostnaði. Engin lánveiting má nema yfir 150.000 kr. Lánskjörin séu þau sömu og hjá Fiskveiðasjóði Íslands.“

Nú er það vitað í sambandi við skýrsluna frá sjóðstjórninni, að á árinu 1949 hefur lánastarfsemi sjóðsins numið 1.193.000 kr., með öðrum orðum, hlutföllin milli lánastarfseminnar, sem aðeins er heimild til fyrir, og styrkjastarfseminnar, sem er skylda sjóðsins að framkvæma, eru eins og undanfarið heldur óhagstæð. En til hvaða aðila er þetta fé lánað? Meðal annars hefur verið lánað til Guðmundar Jörundssonar, Akureyri. Ég geri ráð fyrir, að það sé í sambandi við togara, sem hann lét byggja. Mér er ekki kunnugt um neina nýjung í sambandi við þá togarasmíði, aðra en þá, að lestar allar í skipinu eru klæddar með alúminium, en þessi nýbreytni hafði verið tekin upp áður í sambandi við smíði Reykjavíkur togarans Hallveigar Fróðadóttur. Ef þess vegna átt hefði að styrkja þessa nýjung, þá bar ekki síður að styrkja þá nýjung, sem fyrst var gerð. Ég skal ekki fara lengra út í það, en hins vegar var engin ástæða til að ganga lengra í því að veita lán í þessu skyni en því nam, sem þessi nýjung kostaði, og mér er vel kunnugt um það, að kostnaðarmismunurinn á því að klæða lestina á venjulegan hátt og að klæða hana með alúminium er ekki nema brot af þeirri upphæð, sem hér hefur verið lánuð. Ég skil þess vegna ekki, hvernig stjórn fiskimálasjóðs hefur treyst sér til að verja það, samkv. því sem fyrirmæli 5. gr. l. segja til um, að lána þessu fyrirtæki 150.000 kr. Það kann að vera, að þetta hafi verið lánað í sambandi við það, að hugsað var að setja fiskimjölsvélar í þetta skip, en þær vélar komu aldrei í skipið og það var fyrir fram vitað, svo að þetta lán byggist eingöngu á því, hve fjárfrek sú nýjung hefur verið, sem gerð var við smíði skipsins. Þá hafa verið lánaðar 85 þús. kr. til h. f. Mata, Reykjavík, og 150 þús. kr. til Ís h. f. Kópavogi. Ég skal ekkert um það segja, hvort þessi fyrirtæki vinna að hagnýtingu sjávarafurða. Ég hygg, að það sé mjög vafasamt um annað, kannske bæði, en hitt er alveg víst, að með þessum lánum eru þverbrotin ákvæði 5. gr. l., því að þar er tiltekið, að þeir staðir skuli ganga fyrir, þar sem ekki sé nægilegt fyrir af slíkum atvinnutækjum, en að þeir staðir gangi ekki fyrir, þar sem þeim hefur verið hrúgað upp, svo að þau standa mörg tóm og bíða eftir hráefnum, svo sem er um Fiskiðjuver ríkisins, sem stendur nú án hráefna og verður að taka á sig þá áhættu að ráða til sín fiskibáta, svo að hægt sé að starfrækja það. Ég verð að segja það, að þegar þannig er farið með þessi mál, þá get ég ekki lagt til, að lengra verði haldið á þessari braut, en nú hefur verið gert.

Ég sé, að stofnunin hefur farið inn á þá, eins og þeir segja sjálfir í bréfi sínu, mjög vafasömu leið að lofa lánum af væntanlegum tekjum sjóðsins næstu tvö ár. Ég skal ekki segja um, hve vafasöm sú leið er, það eru þeirra eigin orð, en hér eru að minnsta kosti þrjú atriði, sem fróðlegt væri að fá upplýsingar um. Björn Benediktsson netagerðarmaður, Reykjavík. hefur lofað lán hjá fiskimálasjóði, að upphæð 150.000 kr. Ég veit ekki, hvort hann rekur frystihús, en þótt svo væri, þá teldi ég, að ekki mætti lána honum, vegna þess fjölda af frystihúsum, sem komin eru upp hér í Rvík. Fiskimálasjóður hefur einnig lofað vélsmiðjunni Þór, Ísafirði, láni, en það er vitað, að undanfarin ár hafa vélsmiðjur blómgazt mjög og verið hinar mestu afætur á útgerðinni yfirleitt. Ef það er líka hlutverk fiskimálasjóðs að lána þeim, þá verð ég að segja það, að þetta frv. þarf sannarlega að athugast betur að öðru leyti. Ég tel, að þessi lán, sem ég hef nú nefnt, samrýmist ekki heimild l., heldur sé algerlega óheimilt að lána til þessara fyrirtækja. Sama er að segja um dráttarbrautina á Norðfirði. Dráttarbrautir hafa 40% styrk úr ríkissjóði, en þar að auk styrkir ríkið þær með því að ábyrgjast 60% af lánum þeirra. Mér finnst því skörin fara að færast upp á bekkinn með slíkri lánastarfsemi. Ég verð að segja það, að ef ofan á þessi fríðindi á það að bætast, að ríkissjóður taki lán með 6 eða 6½% vöxtum í Landsbankanum og verji því til að lána þessum fyrirtækjum og það með 2½% vöxtum, þá er það fjármálaspeki, sem ég ekki skil. Og sá flokkur, sem stendur að slíkri fjármálaspeki, er ekki alveg ábyrgðarlaus. Hann getur sagt við viðkomandi fjmrh., að hann geti sagt af sér, ef þessir baggar skuli á ríkissjóð bundnir, en ábyrgðarlaus er ekki slíkur flokkur, sem vill knýja fram slíka meðferð í fjármálum landsins.

Ég hef bent á, hvernig fé fiskimálasjóðs hefur verið varið undanfarin ár. En einmitt vegna þess, að svona átti ekki að fara með fé sjóðsins, voru ákvæðin sett í 4. gr. l. á sínum tíma, því að það er vitað — og það er svar við spurningu hv. 1. flm. um það, hvort ástæða hefði verið til að breyta l. —, að aðalástæðan til þess, að l. var breytt, var sú, að álitið var, að fiskimálan. gamla hefði farið langt út fyrir þau takmörk, sem hún hafði heimild til að fara samkv. l. Hún hafði t. d. ekki heimild til þess að leggja millj. kr. í fiskiðjuver. Með þessum l. átti að tryggja það, að fiskimálasjóðsstjórnin, sem við tæki eftir þessum l., gæti ekki farið á sama hátt með fé það, sem hún hefði yfir að ráða. En hún virðist ætla að fara eins að í þessu efni og hefur þegar gengið langt inn á þá braut. Hins vegar voru sett fyrirmæli í 4. gr. l., þar sem fyrirskipað er, hvert verkefni sjóðsins skuli vera. Og það er gert meira. Það er sett trygging fyrir því, að þessari fyrirskipun sé hægt að hlýða, með því að setja inn í 2. gr. frv., að fiskimálasjóður skuli hafa tekjur, eins og sagt er í 1. og 2. gr., af útflutningsgjöldum. Frv. er byggt upp með fullkomnu öryggi um, að annars vegar nægi tekjurnar einmitt frá sjávarútveginum, og hins vegar á að verja einmitt sömu tekjum til þess að undirbyggja og treysta sjávarútveginn í framtíðinni, á sama hátt og 4. gr. mælir fyrir um, en það er ekki byggt upp til að grafa undan sjávarútveginum, eins og gert hefur verið með framkvæmdum sjóðstjórnarinnar, þar sem meiri hluti fjárins er tekinn frá aðalverkefninu og lánað til manna, sem ekki stunda sjávarútveg eða koma nálægt sjávarafurðum. Og ég vil ekki vera með í því að viðurkenna eða halda áfram að styrkja slíkt. Ef fara á yfirleitt inn á lánastarfsemi, er langbezt að setja alveg ákveðin ákvæði um það í l. Ef frv. verður samþ. hér við 2. umr., þá mun ég bera fram brtt. við 3. umr., einmitt í sambandi við það, að þá er alveg sjálfsagt að setja ákvæði um það í l., hve mikill hluti af tekjum sjóðsins skuli fara til lánastarfsemi og hvað mikið til starfsemi samkv. 4. gr. Þeim mönnum, sem farið hafa með sjóðinn undanfarið, hefur ekki verið trúandi til þess að fara með hann samkv. l., og þess vegna er bezt að binda það svo með l., að þar sé enginn vafi á. Það verður að metast af Alþ., hvernig það vill skipta þessu fé. Ef svo á að halda áfram lánastarfsemi, sem ég skal út af fyrir sig ekki mæla á móti, ef hún er rekin innan viturlegra takmarka, þá á að sjálfsögðu að láta þá starfsemi ganga yfir til fiskveiðasjóðs og taka hana úr höndum þeirra manna, sem hafa haft með hana að gera undanfarin ár. Skal ég færa fyrir því nokkur rök. Fiskveiðasjóður hefur nú yfir að ráða um 30 millj. kr., en það er það fé, sem hann lánar út samkv. fyrirmælum l. um fiskveiðasjóð. Það hefur á árinu 1948 kostað kr. 94.622,05 að stjórna þessum málum, útlánum, sem nema um 30 millj. kr., og að innheimta þau og tryggja. Á reikningum sjóðsins er ekki neitt svipað því af afskriftum eða töpuðum skuldum — á árinu 1948 eru engar tapaðar skuldir — eins og hjá fiskimálasjóði, þar sem þær eru á annað hundrað þús. Fiskimálasjóðsstjórnin hefur á sama tíma kostað kr. 147.747,01, eða 50 þús. kr. meira en stjórn fiskveiðasjóðs. Ég hef rætt um það við stjórn fiskveiðasjóðs, hvort þeir mundu vera fúsir til að taka þetta verk að sér, og þeir telja, að það mundi vera þeim ljúft. Það mundi kosta sáralítið eða ekkert samanborið við þann kostnað, sem hefur verið við fiskimálasjóð, því að ekki þyrfti að bæta við mörgu starfsfólki til að vinna þessi störf. Auk þess hefur fiskveiðasjóður haft með höndum — og er það innifalið í þeim kostnaði, sem ég nefndi — aðstoðarlán til síldarútvegsmanna 1947, að upphæð 5 millj. kr., og aðstoðarlán til síldarútvegsmanna 1948, rúmar 4 millj. kr., og auk þess styrki úr lánasjóði fiskiskipa, nærri 7 millj. kr. Þetta heyrir allt undir verksvið Fiskveiðasjóðs Íslands, og er þá eðlilegt, að hann taki einnig við lánastarfsemi fiskimálasjóðs. Fiskveiðasjóðurinn er langkunnugastur hag útgerðarmanna yfirleitt og veit bezt, hvar skórinn kreppir að hjá þessum aðilum, og þekkir bezt skuldbindingar þeirra á öllum sviðum. Það er þess vegna langeðlilegast, að sá hluti þessa fjár, sem ætlaður er til útlána, sé afhentur Fiskveiðasjóði Íslands til meðferðar. Fiskifélag Íslands leggur einnig til í sinni umsögn, að þetta verði gert. Ég mun því, eins og áður er fram tekið, ef þetta frv. verður samþ. við þessa umr., bera fram till. um það í fyrsta lagi, að skipt sé tekjum sjóðsins á milli verkefnanna samkv. 4. og 5. gr. l. og að sá hluti. sem ætlaður er til útlána samkv. 5. gr., verði afhentur öðrum aðila. Á þann hátt má stórlega draga úr kostnaði við fiskimálasjóð. Þá er hann ekki orðinn nema nefnd til að ákveða, hvernig styrkveitingum skuli varið, og er alveg meiningarlaust, að borgaðar séu 150 þús. kr. á ári fyrir að veita styrki, sem nema 390 þús. kr. Það fer að verða skrýtin fjármálaspeki.

Nú vil ég í sambandi við þetta leyfa mér að benda á það, að þrátt fyrir það að Alþ. 1947, fyrir margítrekaðar beiðnir útgerðarmanna, tryggði ákveðið fé og mjög mikið fé frá útgerðarmönnum sjálfum til þess að inna þau verkefni af hendi, sem tiltekin eru í 4. gr. frv. og eru aðalundirstöðuatriðin til að tryggja rekstur sjávarútvegsmála í framtíðinni, framkvæma rannsóknir í sambandi við fiskveiðar og hins vegar að leita öruggra markaða fyrir sjávarafurðirnar, þá er til þeirra mála aðeins varið 390 þús. kr. árlega. Hefur því orðið að leita til Alþ. hvað eftir annað til að krefja mjög hárra útgjalda til þessara framkvæmda, sem fiskimálasjóður á að annast. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á það, að fyrir Sþ. liggur þáltill., þar sem skorað er á Alþ. að veita nú þegar mjög ríflega fjárhæð til að láta gera gagngerðar rannsóknir á því, hvernig hægt sé að veiða síld, sem vitað er, að liggur hér úti fyrir ströndum Faxaflóa, svo að þessi fyrirtæki, sem eru hér kringum flóann og eru í fjárþröng og verið er að styrkja, hafi eitthvað að starfa. Það er hugsað að senda út skip til þess að leita uppi, hvar helzt er hægt að ná veiðinni, láta athuga, hvort ekki er hægt að finna upp ný veiðarfæri o. s. frv. En þetta er einmitt það, sem fiskimálasjóði ber skylda til að gera samkv. 4. gr. l. Við höfum fengið umsókn frá fiskimálasjóðsstjórninni í sambandi við þetta mál, þar sem sagt er, að sjóðurinn geti ekki tekið þetta verkefni að sér, þar sem hann sé í fjárþröng. En hvers vegna er hann í fjárþröng? Hann er í fjárþröng af því, að hann hefur notað það fé, sem átti að standa undir þessum kostnaði, til annarra hluta, sem hann hafði mörgum sinnum minni heimild til að gera og er miklu minni ástæða til að gera. Það verður engan veginn hægt að tryggja með nokkru öryggi framkvæmd á 4. gr. l. um fiskimálasjóð, nema hér sé snúið við á þeirri braut, sem farin hefur verið í þessum efnum, og hætt sé við að láta meginhlutann af tekjum sjóðsins árlega ganga í vafasöm lán, vafasama fjárfestingu, en hugsa ekki um meginatriðin, að tryggja rannsóknir, tilraunir og markaðsleitir í þágu sjávarútvegsins og alveg sérstaklega, svo að þessi fyrirtæki geti komizt á fjárhagslega sterkan og öruggan grundvöll. Það er áreiðanlegt, að eigendur þessara fyrirtækja, sem hér hefur verið minnzt á, óska miklu frekar eftir því, að hægt sé að búa þannig að þessum málum, að þeir geti rekið fyrirtæki sin öruggir án þess að þurfa á þessari lánastarfsemi að halda. En það verður ekki gert með því að fara lengra í lánastarfsemi og lengra frá því verkefni, sem fiskimálasjóður fyrst og fremst á að vinna að.

Í frv., eins og það liggur fyrir, vilja hv. flm. hækka takmörkin úr 150 þús. kr. upp í 350 þús. kr. Það er hámarkslán, sem lána má til einstaklinga úr sjóðnum. Sjálf sjóðstjórnin mælir á móti þessu í bréfi sínu og telur, að ekki sé tímabært að hækka hámarkslán úr sjóðnum, og þykir mér það ekki undarlegt, þar sem þeir eru búnir að hrifsa svo að segja allar tekjur hans, þó að þeir vilji ekki láta lögfesta slíka hækkun, enda kæmi það í beina andstöðu við þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, þar sem stjórnin hefur skipt 2.661.000 fyrir fram úr sjóðnum, sem er allt það fé, sem hann hefur yfir að ráða á næstu tveimur árum. Mér þykir því engin furða, þó að sjóðstjórnin geti ekki fallizt á þessa mjög svo þrauthugsuðu till. hv. flm. En eftir frv. er samt sem áður ætlazt til, að þessi lán, sem eru að langmestu leyti áhættulán og lítil sem engin trygging fyrir að komi aftur, skuli lánuð með 2½% vöxtum á ári, meðan vitað er, að hvorki fiskveiðasjóður né nokkur önnur stofnun í landinu tekur svo lága vexti, að undanskilinni stofnlánadeildinni, sem nú er komin í þrot, mikið fyrir það, hvað vextir voru settir lágir hjá henni, eins og bent hefur verið á. Hver á að borga mismuninn? Er ætlazt til, að mismunurinn milli venjulegra vaxta og 2½% vaxta sé nokkurs konar styrkur til þessara manna? Mér virðist það vera hugsunin hjá hv. flm. Það er vitað, að eigi ríkissjóður að láta 1 millj. kr. árlega, þá þarf hann að greiða af því láni a. m. k. 6½%, ef ekki 7% vexti, og mér skilst, að hann eigi að bæta því við sitt lán að bera þá byrði. Það er áreiðanlegt, að í dag er hvergi hægt að fá lán með 2½% vöxtum, hvernig sem að er farið. Þessi fjármálastefna, sem hér er rekin, er fyrir neðan allar hellur. Það er fyrir neðan allar hellur að byggja upp nokkra lánastarfsemi á mjög vafasömum verðmætum á bak við annars vegar og meira en helmingi lægri vöxtum, en venjulegir eru hins vegar. Hér er komið inn á hreina styrkjastarfsemi en ekki lánastarfsemi, en það er ekki tilætlunin, heldur er það beint gegn fyrirmælum 5. gr., að slík styrkjastarfsemi sé rekin.

Ég hef þá lýst, hvers vegna ég hef ekki getað orðið samferða meðnm. mínum um afgreiðslu málsins. Það getur vel verið, að bæði þeir og aðrir, sem mál mitt heyra, telji þetta fjandskap við sjávarútveginn, en ég tel hitt meiri fjandskap við sjávarútveginn, að vera að skapa upp á pappírinn skilyrði, sem aldrei verður hægt að veita þessum atvinnuvegi, og blekkja menn til áframhaldandi starfsemi á þeim grundvelli. Ég tel það nauðsynlegast í þessu máli að skapa þann starfsgrundvöll fyrir þessi fyrirtæki, að þau geti sjálf starfað að eðlilegum hætti undir eðlilegum lánskjörum, en ég kalla það eðlileg lánskjör, ef þau gætu fengið 4%. Ef þau gætu fengið þau lánskjör, sem talað er um í 5. gr., að megi veita, þá tel ég það eðlileg lánskjör, þó að ekki sé farið lengra út í fjarstæðuna, en komið er.

Ég skal svo ekki á þessu stigi málsins ræða það nánar, en ég hef gert, en legg til, að frv. verði fellt.