26.01.1950
Efri deild: 41. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (3151)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki fara lengra út í þetta atriði. Ég hef tekið mestallt fram, sem máli skiptir, í minni framsöguræðu fyrir minni hl. En ég vil benda á, að hv. frsm. meiri hl. og 1. flm. þessa frv. kom alls ekkert inn á þau atriði, ekkert inn á kjarna málsins, bókstaflega ekkert inn á kjarna málsins, m. a. að þetta eru pappírslög. Hann sneiddi fullkomlega fram hjá því atriði.

Ég ætla svo að svara aðeins örfáum orðum hans aths.

Hann segist ekki kunna við þau ummæli mín á nál., að það væri ákaflega þýðingarlítið að lögfesta þetta frv. Ég vil spyrja hv. flm. að því. Telur hann það mikils virði að fá þetta inn í l., ef ekki er hægt að taka upp framlagið í fjárl. eða ríkissjóður getur ekki fengið á þessu tímabili, m. a. á þessu ári, lán til þess að veita lán til þess að standa undir þessum gjöldum og hvorki hann né aðrir hv. þm. treysta sér til að leggja á nýja skatta til þess að mæta þessum greiðslum og í þriðja lagi, ef menn sjá sér ekki fært að færa niður önnur gjöld ríkissjóðs móts við það, sem hér verður að leggja fram? En eitthvað af þessu verður að vera fyrir hendi, til þess að þessi l. verði eitthvað annað en pappírsgagn.

Mér finnst hv. flm. ganga fram hjá kjarna þessa máls. Það er rétt, það hefur hvað eftir annað verið farið inn á þessa braut, að setja ný l., og lögbinda fjárframlag fyrir fram, án þess að bent væri á nokkrar tekjur. Hv. flm. finnst þá ekkert athugavert, þó að þessi braut verði farin áfram. Sannleikurinn er sá; að ef þetta er gert að aðalregl., að halda áfram takmarkalaust á sömu braut, þá leiðir það út í ógöngur. Ég veit, að hv. flm. er það skýr á þessi mál, að hann sér, að það getur ekki annað en leitt út í ógöngur. Það er hægt að koma með till. um fjárframlög, þó að bent sé á litlar eða engar tekjur á móti, til eins árs. En hér er um að ræða fasta upphæð, sem ríkið á að greiða í 10 ár, sem við getum engu spáð um, hvernig verða. Og svo er annað. Þessi sjóður, sem hér á að fá aukið fjármagn, hann hefur fastan og ákveðinn tekjustofn til þess að geta innt af hendi sín störf. Það er ákaflega mikill munur á því, hvort þessari stofnun væru ekki tryggðar neinar tekjur, bókstaflega ekki neinar tekjur, eða hvort henni eru tryggðar allverulegar tekjur, eins og gert er í l. um fiskimálasjóð. Sé hægt að undirbyggja þennan atvinnurekstur eins og ég hef rætt um og ætlazt er til í 4. gr., þá fær á þann hátt þessi stofnun enn meiri auknar tekjur árlega inn í sjóðinn. Mér finnst hv. frsm. líta algerlega fram hjá þessum kjarna málsins. Það er náttúrlega alltaf hægt að ákveða svona í l., eins og hv. flm. hefur bent á, og það er mikið gert að því, en hitt er annað mál, hvort það stenzt í veruleikanum. Það mætti deila um þetta, ef það væri aðeins í eitt skipti, en hér er um að ræða ráðstöfun, sem á að standa heilan áratug, og einhvern tíma grípur lífið inn í, fyrr eða síðar, og þá er sama, hvað hefur verið samþ., ef ekki er hægt að fá þessar tekjur á einn eða annan hátt, og ef fé er ekki til, þá verður það ekki heldur greitt. Það er raunverulega vantraust, hreint og beint vantraust á þm. að setja þetta inn í l. og treysta þeim ekki til að hafa þann kjark og manndóm á hverju ári að koma fram með till. um það að taka þetta ákvæði inn í fjárl. og berjast fyrir því þar. Þeir virðast ekki treysta sér til þess að gera þetta hér, heldur vilja fá þetta inn í lagabálkinn, en hugsa svo ekki um, hvort hægt sé að uppfylla l. á eftir.

Ég veit ekki, hvor okkar, hv. 2. þm. S-M. eða ég, sýnir dreifbýlinu meiri andúð í sambandi við þetta mál, ég með því að sýna fram á staðreyndir í sambandi við málið eða hv. 2. þm. S-M. með því að flýja burt frá kjarna málsins. Af því að ég veit, í hvaða félagsskap hv. 2. þm. S-M. er, þá skil ég að vissu leyti, af hverju hann mun telja betra að skera niður um 25% framlög til verklegra framkvæmda yfirleitt, til þess að þessi stofnun, sem hann ber sérstaklega fyrir brjósti, fái fjárframlag. Þetta er nákvæmlega sams konar og það, sem hv. flokksbróðir hans, núv. hv. 1. þm. S-M. (EystJ), barðist fyrir, þegar hann fór í ráðherrastólinn síðast. Þá heimtaði hann sérstakar 10 millj. kr. inn á fjárl., en fór fram á að skera niður um 25% framlög til verklegra framkvæmda, en þá var hann búinn að tryggja 85% af þessum áður greindu tíu milljónum til ákveðinna verkefna. En ef skera ætti niður um 25% þá áætluðu fjárfestingu á þessu nýbyrjaða ári, 1950, og svo að bæta allmiklu við útgjöld ríkisins, útgjöldin til fjárfestingar, þá þarf að skera niður um meira en 25% þessar 66 millj., til þess að ná sama niðurskurði í heild. En ef þetta frv. væri samþ., þá mundu fleiri mál koma fram slík og ekki aðeins þetta, áður en farið væri að skera niður. Og hvar lendum við þá? Þá mundi koma fram sama kapphlaupið eins og á sér stað nú þegar hinir og aðrir, sem kaup taka, reyna að tryggja sér kauphækkun, áður en skerðing lífskjaranna kynni að koma til greina með dýrtíðarráðstöfunum. En hvert hefur slík stefna leitt? Hún hefur leitt til þess, að atvinnureksturinn og rekstur þjóðarbúsins er kominn í það ástand sem nú er. — Nei, fyrsta skilyrðið til þess, að hægt sé að tala um niðurskurð á fjárfestingunni í landinu, er að stöðva alla nýja fjárfestingu, nema til hluta, sem gersamlega er ómögulegt að ganga fram hjá í því efni.

Nú viðurkenni ég það hjá hv. flm., að hann hefur mikið til síns máls, annars vegar, að búið sé að lofa þessum mönnum styrk eða láni, sem hér er um að ræða, og hins vegar, að þeir séu búnir að setja í fyrirtæki sín fjármagn, en það á við um 2½ millj. kr., sem búið er að lofa, en ekki á það við í sambandi við visst framlag á ári í tíu ár fram í tímann. En upp á 22. gr. fjárlaga er tekin sérstök heimild til þess einmitt að bjarga þessum sömu aðilum, sem við erum að ræða um nú, þannig að fyrir þessa sök, að búið sé að lofa þessum mönnum þessum styrk, er ekki ástæða til að samþ. frv. Ég get mjög vel skilið, að það beri að gera sérstakar ráðstafanir, til þess að uppfyllt séu loforð í þessum efnum, sem mönnum hafa verið gefin, sem annars vegar fiskimálasjóðsstjórnin, hvort sem hún er góð eða ill, hefur lofað og hins vegar ráðherra staðfest loforðin. Og hæstv. ráðh. hefur einmitt í sínum till. til fjvn. gert ráðstafanir til þess, að þessi loforð verði uppfyllt á þann hátt, sem ég hef skýrt frá, þannig að það er alveg óþarfi að blanda þessum málum saman, annars vegar þessum gefnu loforðum og hins vegar því að ætla sér að fara inn á þá meginstefnu að binda ríkinu fjárframlagabagga langt fram í tímann, ef á að taka upp þá stefnu, sem hv. Framsfl. virðist nú berjast fyrir með klóm og höndum.

Hv. 2. þm. S-M. segir, að ég hafi talað um í nál., að hér sé aðeins að ræða um viljayfirlýsingu, sem komi fram í þessu frv., og telur það fjarstæðu. Hvaða fjarstæða er, að þetta sé ekki annað en viljayfirlýsing? Hvaða tryggingu getur hv. 1. flm. frv. gefið mér og öðrum fyrir því, að eftir tíu ár hér frá verði ríkissjóður megnugur þess að láta á ári 1 millj. kr. í þennan sjóð? Þetta er svo mikil viljayfirlýsing, að hvenær sem það skeður, að ríkissjóður hefur ekki fé til þess að greiða þetta framlag, hefur ekki heldur lánstraust til þess að fá féð að láni einhvers staðar og í þriðja lagi hefur enginn banki fé til, til þess að lána féð, né heldur aðrir, ef þjóðin og þegnarnir einnig eru svo aðþrengdir, að þeir geti ekki látið þetta í sköttum, þá verður þetta ekki greitt. Það er því annars vegar viljayfirlýsing, ef samþ. verður, að þetta eigi að greiða á næstu tíu árum, sem til er tekið í frv., ein millj. kr. á ári í þennan sjóð, og hins vegar bjartsýni, að hægt sé að gera þetta. — En ég teldi viturlegra að hafa, ef frv. verður samþ., það ákvæði í frv., sem er í mörgum lögum nú, að þetta skuli greitt eftir því, sem fé sé veitt til þess á fjárl. hverju sinni, því að sannarlega eru þeir hv. þm., sem með þessu máli eru, ekki of góðir til þess að berjast fyrir því, að féð sé þannig veitt. Ég held, að það væri meiri manndómur að segja sem svo: Á fjárl. 1950 skal fara ein millj. kr. í sjóðinn, — heldur en að vilja fá viljayfirlýsingu, sem hér er fyrir hendi.

Hv. flm. segist vilja benda mér á 3. gr. l. Hún staðfestir það, sem ég hef sagt, en ekki það, sem hv. flm. heldur fram. Í 3. gr. segir, eins og hann las hér upp: „Fé fiskimálasjóðs skal verja til eflingar sjávarútvegi á þann hátt, er segir í 4. og 5. gr. þessara laga.“ Og því má ekki verja á annan hátt. Þ. e., það skal fyrst og fremst veita styrki samkv. 4. gr., þannig að fyrsta og aðalhlutverk sjóðsins er að standa undir kostnaði samkv. 4. gr. Og svo má lána samkv. 5. gr. að sjálfsögðu, ef fé er fyrir hendi. Og hv. flm. þarf ekkert að segja mér, hvað lá á bak við það, þegar sett var inn síðasta málsgr. 2. gr., því að ég var í n., sem fjallaði um þetta mál, þegar lögin voru sett. Og þetta ákvæði var sett inn til þess, ef svo skyldi fara, sem alltaf er hætta á, að ríkissjóður geti ekki innt þetta af hendi, þá séu möguleikar til þess, að sjóðurinn þurfi síður að draga saman sína starfsemi, með því að hann geti þá fengið lán upp á 10 millj. kr., sem ríkissjóður ábyrgist. Og á þeim tíma, þegar við vorum að semja þetta, var miklu hægara að fá lán til hlutanna en nú. Það getur verið, að þessi gr. sé minna virði nú en 1947. En sé hún einskis virði í l. eins og nú er, þá er einskis virði að lögfesta þetta frv., sem hér liggur fyrir nú til umr.

Hv. 1. flm. sagði, að það væri alls ekki hægt að vefengja heimild sjóðstjórnarinnar til að veita lánin, og honum fannst rök mín, er ég nefndi dæmið um Jörund, ekki geta staðizt. Ég hef nú ekki löngun út af fyrir sig til þess að ræða sérstaklega það atriði, en það er rökrétt hugsað, sem ég hélt fram, því að það er lánað til byggingar þessa skips til þess að koma af stað nýjung í einangrun í klæðningu. Lánið er ekki hér lánað til þess að byggja skipið í heild, enda hefur fiskimálasjóðurinn ekki heldur það hlutverk né heimild til þess. Og lestar þessa skips eru ekki frábrugðnar öðrum togaralestum, sem áður voru smíðaðar, að öðru leyti en því, að þessi einangrun var úr sérstöku og nokkru dýrara efni, en í öðrum togurum hafði verið. Þess vegna gat, eftir reglum, sem sjóðurinn skyldi starfa eftir lögum samkvæmt, ekki verið um að ræða að lána úr sjóðnum í þessu efni, meira en það, sem nam mismuninum á kostnaðinum við að einangra lestir skipsins, þeim mismun, sem það var dýrara að einangra þær með alúminium, en með tré. Og sá kostnaðarmismunur hefur ekki verið nema brot af því, sem lánað var úr sjóðnum til byggingar þessa skips. Ef átt hefði að setja í skipið fiskimjölsvélar, sem rætt mun hafa verið um í fyrstu, þegar skipið var byggt, þá hefði það kostað töluvert fé að vísu. En þegar sjóðstjórnin afhenti lánið til skipsins, þá var vitað, að þessar vélar voru alls ekki settar í skipið og að þær mundu aldrei í það koma. En þær hefðu kostað miklu meira fé, en lestarklæðningarnar í skipinu. Hins vegar voru reyndar aðrir aðilar búnir á undan að láta framkvæma þessar sömu tilraunir með einangrun í lestunum, þannig að þetta var því ekki hrein nýjung í sambandi við Jörund.

Hv. 1. flm. viðurkennir, að honum finnist sumar af þessum lánsaðferðum, sem ég gat um, að átt hefðu sér stað um lán úr fiskimálasjóði, mjög hæpnar. Ég held þá, að ég hafi ekki farið mjög um of langt í minni gagnrýni, því að eftir ákvæðum 4. og 5. gr. fær ekki staðizt, að hægt sé með réttu að lána fé sjóðsins þannig. En það virðist hvíla sá skuggi yfir þessari starfsemi, sem sjóðurinn innir af höndum, að þeir, sem sjóðnum stjórna, eru alltaf að gera hluti, sem er a. m. k. mjög vafasamt, hvort þeir hafa heimild til að gera, eins og t. d. þegar byggt var fyrir 8 millj. kr. fiskiðjuver við Grandagarð. Ég er ekki að segja, að það eigi að draga viðkomandi aðila fyrir landsdóm út af því. Hitt er víst, að það er mjög vafasöm ráðstöfun, og ég tel, að miklu réttara hefði verið, en að samþ. þetta frv., að kippa í lag stjórninni á rekstri sjóðsins og setja svo fastar reglur fyrir starfsemi fiskimálasjóðs, að ekki sé neinn vafi á, hvar línurnar séu í þeim efnum. Hitt tel ég ekki tímabært, að hækka fjárframlag til sjóðsins, eins og hér er ætlazt til, og þá sérstaklega meðan ekki er gripið inn í um hina daglegu starfsemi sjóðsins, sem virðist vera mjög rík nauðsyn á að gera.

Hv. 1. flm. talaði um, að það væri sérstakt með þetta lán til fiskiðjuversins. Hvað er sérstakt með það lán? Það er það sérstaka með lánið, að eins og ég hef tekið fram, þá er það ákaflega vafasamt, hvort heimilt var að lána nokkurn eyri til þess fyrirtækis úr þessum sjóði. Og það er svo vafasamt, að þeir hafa ekki einu sinni treyst sér til þess að halda þessu fyrirtæki, sem eiga að sjá um fiskimálasjóðinn, þó að ákveðið sé í lögum, að fiskimálasjóður skuli yfirtaka allar eignir fiskimálanefndar. Það er svo vafasamt, að þeir hafa ekki treyst sér til þess að bera áfram ábyrgðina á þessari stofnun, heldur hafa kastað þessu, með litlum eða engum sóma, beint á ríkissjóðinn, eigandi hjá þessu fyrirtæki hundruð þúsunda, sem þeir líklegast fá aldrei, sem síðan hefur orðið til þess, að önnur fyrirtæki, sem sumpart voru fyrir og sumpart hafa risið upp síðan hér við Reykjavík, hafa ekki aðstöðu til þess að hafa nægilegt hráefni, svo að hægt sé að starfrækja þau. Og nú er farið inn á þessa mjög svo vafasömu starfrækslu, sem bókstaflega engin heimild er til í lögum, að leigja mótorbát og fara að gera út. Það er svo einkennilegt og sérstakt með það lán.

Ég þarf ekkert að endurtaka um endurgreiðslur á lánum þessum úr sjóðnum, sem ég hef rætt um. Þær eru upp á um 200 þús. kr., af um 5 millj. kr., sem lánaðar hafa verið út úr sjóðnum. Það er eitthvað bogið við þá starfsemi sem lánastarfsemi.

Þá sagði hv. 1. flm., að það væri ekki rétt, að fiskveiðasjóður hefði hvarflað frá því takmarki að inna af hendi alveg sérstaka lánastarfsemi. Ég veit ekki, hvort hv. þm. er ljóst, að ein deildin í fiskveiðasjóði hefur með höndum nákvæmlega sams konar starfsemi og hér er höfð með höndum af fiskimálasjóði. Hún lánar sömu áhættulán og með álíka kjörum og þessi stofnun, og er þetta alveg hliðstætt við þessa stofnun. Þetta var gert með ákvæði í l., er l. var breytt síðast, og þá áttum við þáv. hv. 1. þm. S-M., Ingvar heitinn Pálmason og ég, þátt í því og börðumst hart fyrir því hér í hv. d., að í staðinn fyrir að gefa mönnum stórkostlegt fé, þá yrði það lánað þeim sem áhættulán og því haldið áfram gagnvart eftirkomendunum, eftir því sem fé kæmi inn í sjóðinn. Svo að ég held, að það falli vel inn í starfsemi fiskveiðasjóðs, að sú stofnun verði látin yfirtaka þessa lánastarfsemi fiskimálasjóðs. Ég teldi slíka breyt. til mikilla bóta frá því fyrirkomulagi, sem er, og skil ég ekki, hvernig staðið verður á móti því að minnka stórkostlega kostnaðinn við lánin, því að það getur ekki vakað fyrir hv. flm. frv., að svo og svo mikið fé fari beint í stjórn sjóðsins, en ekki til þeirra, sem eftir l. eiga helzt að fá féð.

Hv. 1. flm. sagði, að það sannaðist við afgreiðslu þessa máls, hvaða hug menn bæru til dreifbýlisins. Ég sé ekki, að afgreiðsla þessa máls sé neinn mælikvarði á það. Og ef málið er bara borið fram til þess að auglýsa sig sem einhvern fulltrúa dreifbýlisins, þá skýtur hv. þm. alveg fram hjá markinu. Það getur ekki styrkt dreifbýlið að setja nokkur hundruð þús. kr. eða milljónir í fyrirtæki eins og fiskiðjuver hér í Reykjavík, það get ég ekki skilið. Og það getur ekki heldur verið ráðstöfun til hagsbóta fyrir dreifbýlið að setja þau ákvæði um fjárframlög, sem í frv. er gert ráð fyrir, ef það yrði til þess, að skera þyrfti niður svo eða svo mikið af fjárframlögum til verklegra framkvæmda, svo sem vega, brúa og símalagninga í sveitum. Ég held því, að hv. flm. ætti að spara sér að slá um sig með að segja, að fylgi við þetta mál, sem hér er á ferð, sé mælikvarði á velvilja manna til dreifbýlisins á þann hátt, sem hann talaði um. Ég þori að mæta honum á því sviði, hvor okkar standi betur með hagsmunum dreifbýlisins, og ég þarf ekki að láta núa mér því um nasir, að afstaða mín til þessa máls sé einhver fjandskapur við dreifbýlið.

Verði frv. þetta samþ. hér við þessa umr., mun ég við 3. umr. bera fram brtt. við það. Ég vil geta þess, að hv. 2. þm. Árn. (EE) var vegna veikinda ekki viðstaddur, er málið var afgr. í n., og hefur því ekki skrifað undir nál. Ég veit ekki um afstöðu hans til þessa máls.