31.01.1950
Efri deild: 42. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í C-deild Alþingistíðinda. (3153)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Mér finnst varla ástæða til með ekki stærra mál að halda uppi löngum ræðuhöldum, en eigi að síður þykir mér rétt að bæta við nokkrum orðum í tilefni að ræðu hv. frsm. minni hl. á síðasta fundi. Ég sýndi fram á það í ræðu minni, að þessi l. yrðu ekki fremur pappírslög en önnur þau l., sem hér væru samþ., en því var haldið fram af hv. frsm. minni hl. Ég vil benda á, að það, sem hér er um að ræða, er ekki annað en það, sem er í ýmsum öðrum l., svo sem jarðræktarl. og l. um húsagerð í kaupstöðum og kauptúnum, og vil einnig minna á launal. og tryggingal., en það eru allt dæmi um l., sem ákveða greiðslur til margra ára. Hér er því aðeins farið fram á að setja þessar greiðslur, sem hér er farið fram á, við hliðina á greiðslum samkv. áðurnefndum l., og þetta eru ekki meiri pappírslög en landslög yfirleitt.

Hv. frsm. minni hl. hélt því fram og lagði mikla áherzlu á það, að það væri skylda flm. að nefna tekjuliði, sem gætu komið á móti þessu. Ég hef bent á það, að slíkt er ekki venja, en aftur á móti tel ég það skyldu, hvers þm., þegar til afgreiðslu fjárl. kemur, að vinna svo að þessum málum, að ríkissjóður fái tekjur á móti þessum lið, sem öðrum útgjöldum. Þá vil ég beina frá þeim ummælum hv. þm., að ég hugsaði ekkert um að afla ríkissjóði tekna. Slíkar ásakanir um nýja þm., sem aldrei hafa unnið að afgreiðslu fjárl., eru of snemma fram komnar og tilhæfulausar, svo að ekki sé meira sagt.

Þá gætti beins misskilnings hjá hv. þm., er hann sagði, að tilganginum væri snúið við í frv.. en slíkt er algerlega úr lausu lofti gripið. Hverjum sem les lögin og frv. er það ljóst, að ekki er verið að breyta tilgangi l., þó að rýmkun hvað lán snertir sé leyfð. Hv. þm. sagði, að verið væri að lögfesta hækkun á lánum, en slíkt er alveg af og frá, því að í frv. felst aðeins, að leyft sé að veita hærri lán.

Það hefur borið á því í sambandi við þessar umr., að deilt hafi verið á stjórn fiskimálasjóðs. Ég hjó eftir því í síðari ræðu hv. þm. Barð., að hann sagði, að fiskiðjuverið væri sök stjórnar fiskimálasjóðs. Ég er að vísu ekki vel kunnugur þessum málum, en þó hygg ég, að sú bygging muni hafa verið ákveðin á hærri stöðum, enda held ég ekki, að slíkt komi þessu frv. við. Sé stjórnin óhæf, þarf að skipta um stjórn, en ekki að breyta l.

Það kom mjög fram í ræðu hv. þm., að fjárfestingin væri nú orðin allt of mikil og það þyrfti að stöðva hana um tíma a. m. k., meðan verið væri að koma lagi á fjármálakerfið. Mér hefur fundizt einkennileg og ósennileg allra meina bótin í þessum tveim úrræðum: Fyrir nokkrum árum var nýsköpunin eitt allsherjar bjargráð. En nú skilst mér, að stærsta úrræðið eigi að vera það að draga úr fjárfestingunni og allt að því stöðva hana í bili. Mér hefur þó sýnzt, að nýsköpun þá og fjárfesting nú væru aðeins tvö mismunandi orð um svipað hugtak. En of langt mál yrði að fara út í það nú. Hér er eigi heldur um stórt fjárfestingarmál að ræða. En að því leyti, sem svo er, þá er það skoðun mín, að þessi fjárfesting sé sú, er sízt má stöðva. Þessu fé er ætlað að ganga beint til framleiðslustarfsins. Og má ljóst vera af plöggum og reikningum, sem fylgja nál. hv. minni hl. sjútvn., að hvað lánin snertir, þá ganga þau fyrst og fremst til hinna ýmsu kaupstaða og sjávarþorpa vítt um landið, til framleiðslunnar þar. Þessu verður eigi neitað. Og það er þetta, sem er kjarni málsins.

Vegna þeirra ummæla hv. þm. Barð., að bezt muni henta að sameina lánastarfsemi fiskimálasjóðs starfsemi Fiskveiðasjóðs Íslands, vil ég taka fram: Þetta frv. felur eigi í sér neina breyt. á sjálfu lánakerfinu. Það mál er umfangsmikið, og án efa er þar mörgu áfátt. Tel ég það ólíklegt til úrbóta í þeim sökum að klastra við frv. það, er hér liggur fyrir hv. d., ákvæðum um breytingar á lánaskipulaginu. Það þyrfti ýtarlegri undirbúning, en hér er fyrir hendi að þessu sinni.

Þá vil ég benda á tvö atriði í ræðu hv. þm. Barð., sem ekki er rétt að láta ómótmælt, atriði, sem ég tel ljós dæmi þess, hvernig málflutningur á ekki að vera í þessari d. og raunar yfirleitt á hinu háa Alþ. Ég hjó eftir því, að þessi hv. þm. var að narta í hv. 1. þm. S-M. (EystJ) fyrir það, að hann hefði, þegar hann átti sæti í síðustu ríkisstj., heimtað meiri fjárveitingar til ráðuneyta sinna en — að því, er mér skildist — góðu hófi gegndi. Nú vita allir, að við stjórnarskiptin 1947 lá fyrir að framkvæma bunka af lögum frá tíð fyrrv. stj. Sumar þær framkvæmdir hlutu að verða mjög fjárfrekar. Átti það ekki sízt við um þau mál, er heyrðu undir ráðuneyti hv. 1. þm. S-M., þáv. hæstv. menntmrh. Það er nú svona og svona, þegar hv. þm., sem sjálfir hafa átt þátt í að setja hina fjárfreku löggjöf, hefja árásir á þá, er framkvæma hana, af þeim ástæðum, að framkvæmdin kostaði peninga. Annars hefur þessi hv. þm. talað áður hér í hv. d. um líkt efni. Þá var honum svarað af hv. 1. þm. Eyf. (BSt) og tel ég þetta nægja til viðbótar því, er þá kom fram.

Þá er það hitt atriðið. Hv. þm. Barð. deildi á okkur flm. þessa frv. fyrir það, að með till. okkar um hækkuð hámörk lánsfjár, miðað við hundraðshluta stofnkostnaðar, og lækkaða vexti, í 2½%, værum við að stuðla að sukki og óreiðu og lagði sérstaka áherzlu á það, að lækkun vaxtanna væri óheppileg. Jafnframt hrósaði hann sér af því að hafa átt þátt í að koma inn í l. um Fiskveiðasjóð Íslands hliðstæðu ákvæði og nú er í l. um fiskimálasjóð varðandi lánastarfsemina. Hvernig er svo háttað vaxtagreiðslum af lánum Fiskveiðasjóðs Íslands, þeim sem veitt eru skv. 8. gr., því ákvæði fiskveiðasjóðsl., sem hv. þm. hrósar sér af? Því er fljótsvarað. Í 8. gr. segir: „ ... Lán, sem veitt eru úr sjóði þessum, skulu vera vaxtalaus í 10 ár og afborgunarlaus fyrstu 5 árin . . .“ Frá mínum bæjardyrum séð er eigi hægt í sömu ræðu að átelja menn fyrir lækkun vaxta af tilteknum lánum og telja sér það til gildis jafnframt að hafa fengið lögfest ákvæði um sams konar lán vaxtalaus. Og allra sízt fer þó vel á þessu hjá þeim hv. þm., sem gerast sjálfkjörnir siðameistarar hér í hv. d., eins og mér finnst hv. þm. Barð. stundum gera. En er við virðum fyrir okkur þetta ákvæði 8. gr. l. um Fiskveiðasjóð Íslands, sem hv. þm. Barð. talaði um og taldi sér til hróss, þá vil ég spyrja: Hvað um framkvæmd þess? Ég er hræddur um, að það hafi orðið helzt til mikið pappírsgagn. Nú sagði þessi hv. þm., að við — flm. þessa frv., skildist mér — værum „sannarlega ekki of góðir til þess að berjast fyrir því árlega,“ að tekin væri á fjárl. fjárveiting til fiskimálasjóðs. En hvernig er þá háttað árlegri baráttu hv. þm. sjálfs fyrir framkvæmd ákvæðisins í 8. gr. fiskveiðasjóðsl., sem hann hrósar sér svo mjög af? Að lokum vil ég segja varðandi hina „árlegu baráttu“, sem hv. þm. talar um: Það er sannfæring mín, að þær starfsaðferðir, sem einkennast af hinni „árlegu baráttu,“ leiði aldrei til góðs. Og ég undirstrika það, sem ég hef áður sagt: Það þarf að skapa meiri festu í starfsháttum þings og stjórnar. Það þarf að draga gleggri markalínu á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Það þarf að taka upp önnur og hagkvæmari vinnubrögð á þingi en þau, sem tíðkazt hafa nú um hríð. Og, svo að ég noti orðalag hv. þm. Barð.: Íslenzkir alþm. „eru sannarlega of góðir til þess að berjast árlega“ um hverja þá fjárveitingu, sem til mála kemur að veita úr ríkissjóði.