31.01.1950
Efri deild: 45. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (3155)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja þessar umr. lengi, en mér finnst samt rétt að gera aths. við nokkuð af því, sem hv. frsm. meiri hl. n. hélt hér fram.

Hv. þm. þóttist nægilega gamall, bæði að árum og sem þm., til þess að taka ekki á móti ábendingum frá mér. En þessu er öfugt varið með mig, því að ég mundi taka ábendingum frá honum með þökkum, ef réttar væru. En ég kann því illa, þegar hv. þm. er í alvarlegu máli að snúa öllum staðreyndum við, og leyfi ég mér því að leiðrétta það, þó að ekki sé nema til þess að það sjáist í þingtíðindunum, að það hafi verið gert.

Hv. þm. sagði, að ég hefði sagt það, að með þessu frv. hans væri tilgangi l. alveg snúið við. Ég sagði þetta aldrei. Ég benti á það, að framkvæmdinni á l. hefði alveg verið snúið við, en minntist ekki einu orði á hans frv.

Þá segir hann, að hér sé aðeins verið að ákveða árlegt framlag til fiskimálasjóðsins, eins og t. d. hafi verið gert til sjúkrahúsa. En þetta er ekki heldur rétt hjá hv. þm., að það sé ákveðið, hvað mikið fé skuli leggja til vissra sjúkrahúsbygginga, heldur er þar aðeins sagt, hvaða hluta ríkið leggi fram á móti viðkomandi bæjar- eða hreppsfélagi, en alls ekki hvað mikið fé. En hvað svo sem hv. þm. segir, þá verður þetta, þó að það verði samþ., aldrei annað en pappírslög. Það verður ekki annað en, ný Egilsstaðasamþykkt.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði verið að ásaka stjórn sjóðsins vegna byggingar fiskiðjuversins, en ég vil leyfa mér að mótmæla því harðlega, að ég hafi sagt það, sem hv. þm. hélt fram. Það eru orð, sem mér hefði aldrei dottið til hugar að segja, en ég verð að segja það, að ég kann vægast sagt mjög illa við þennan málflutning hjá hv. þm.

Svo fer hann að tala um fjárfestingu, alveg hávísindalega, en hann heldur einnig þar áfram að snúa öllu við, sem ég hef sagt. Ég hef aldrei sagt það, að fjárfestingarnar væru of miklar, heldur hef ég aðeins bent á það, hvað hagfræðingarnir sögðu um þetta efni í áliti sínu. Hann virðist ekki geta skilið það, hv. þm., að fjárfestingar geta verið of miklar eitt árið, en of litlar annað ár. Ég skal nefna eitt einfalt dæmi. Ef bóndi hefur eitt árið eytt öllum sínum eignum til þess að byggja fjárhús á jörð sinni, ætli það sé þá ekki til fullmikils ætlazt, að hann leggi í jafnmiklar fjárfestingar aftur á næsta ári? Þetta ætti hv. þm. að minnsta kosti að geta skilið.

Svo segir hv. þm., að það sé ekki rétt að breyta lánakerfinu og það sé allt of umfangsmikið verk að láta fiskveiðasjóð taka við þessu, þegar ég hef hins vegar sýnt fram á það með óyggjandi rökum, að fiskveiðasjóður getur einmitt á miklu hagstæðari hátt lánað þessum sömu aðilum.

En sérstaklega vil ég þó mótmæla því, sem hann sagði, að ég hefði sagt um hv. 1. þm. S-M. Hann heldur því fram, að ég hafi verið að narta í hv. 1. þm. S-M. fyrir að bera fram hækkunartill., sem hann bar fram sem menntmrh. Hvaðan hefur hv. þm. þessar upplýsingar? Kannske eru þær beint frá þessum læriföður hans. Nei, það voru ekki hækkanir til menntamála eða annarra mála, sem undir ráðuneytið heyrðu, sem mestu vörðuðu, því að ég vil nú spyrja hv. þm., hvort það heyri eitthvað undir menntmrn., að hækkuð séu framlög til vega og brúa í Strandasýslu og Suður-Múlasýslu, en það var einmitt það, sem ég talaði um, en ekki þær hækkunartill., sem hann hafði gert á framlögum til mála, sem undir ráðun. heyrðu. Það hafði þó verið samkomulag um það í fjvn., að rétt væri að skipta framlögunum eins og gert hafði verið, en ég hef samt ekki vitað, að þessar hækkanir á þessum framlögum til vega heyrðu neitt til menntamála eða heilbrigðismála. Það var að vísu eitt mál, sem heyrði undir menntmrn., og það var þegar þessi hv. þm. og þáv. menntmrh. pressaði það í gegnum þingið vegna pólitískra hagsmuna að kaupa handónýtt blaðarusl fyrir 300 þús. kr., sem var þó allt saman til áður í Landsbókasafninu, eftir því sem upplýst var. Það var met. Það er minnisvarði, sem Framsfl. hefur reist sér og seint fellur. En hv. 1. þm. S-M. hefur reist sér og flokki sínum fleiri minnisvarða, og gæti ég komið með fleiri mál, sem þannig hafa verið pressuð í gegnum þingið, eingöngu vegna pólitískra hagsmuna Framsfl., en ég sé ekki ástæðu til þess að fara að rekja það allt saman hér, en ég vil aðeins að síðustu benda hv. þm. á það, að svona málflutningur á ekki við á þingi, þótt hann sé til þess píndur af þeim mönnum, sem hann er undir bæði andlega og líkamlega.