31.01.1950
Efri deild: 45. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (3156)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hef nú talað við þessa umr. svo sem þingsköp leyfa, enda sé ég ekki ástæðu til þess að fara um þetta mál fleiri orðum, en þegar er gert. Mér finnst það alveg ástæðulaust í sambandi við hvert einasta minni háttar mál að fara að tala á víð og dreif um mál almennt á undanförnum þingum. Ég sé enga ástæðu til þess. Og það sem ég vék að einstökum málum á þann hátt áðan, þá var það eingöngu að gefnu tilefni hv. þm. Barð. í fyrri ræðu hans. Það kann að koma fram, að okkur beri ekki alveg saman í einstökum smáatriðum um það, hvað fram hafi komið í umr. Það kemur sem sé stundum fyrir, að hv. þm. neitar því algerlega að hafa sagt það, sem hann hefur þó í raun og veru sagt, nema þá að verið geti, að ég hafi skrifað ósjálfráða skrift, þegar ég ætlaði að skrifa tilvitnanir úr ræðu hans. Það getur að vísu verið, að svo sé, en er þó með nokkrum ólíkindum. En eins og ég sagði, þegar ég stóð upp, þá get ég ekki séð, .að neitt af því, sem fram hefur komið hjá hv. þm. Barð. í síðustu ræðu hans, hafi nokkur áhrif á afgreiðslu þessa máls, og get ég því setzt niður aftur.