31.01.1950
Efri deild: 45. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (3157)

45. mál, fiskimálasjóður

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vildi, áður en atkvgr. fer fram um þetta mál, lýsa þeirri skoðun minni, að þrátt fyrir það, að æskilegt hefði verið, að séð væri fyrir fé til þess að geta lánað ýmsum stofnunum, sem nú eru í smíðum og eiga við örðugleika að stríða, þá get ég ekki séð, að þetta sé rétta leiðin, að veita framlag til fiskimálasjóðs að upphæð 10 millj. kr. á jafnmikið árabil, þ. e. a. s. til 10 ára. Það er rétt, að það vantar lánsfé handa ýmsum þeim sem ekki fengu það úr stofnlánadeild sjávarútvegsins, einkum til skipa. Þetta er viðurkennt, og það er í ráði að gera breytingar til þess að bæta þar úr, sem mest á bjátar. Ég álít, að það sé rétta leiðin, að það verði gert og um leið með þeirri forsjá, að það leiði ekki til beinna útgjalda fyrir ríkissjóð, eins og hér er farið fram á í þessu frv. Þetta er nú um þörfina á þessu og aðferðina til þess að bæta úr henni. En ég held varla, að það verði annað en kák úr þessu, ef það á að fara að ánafna fiskimálasjóði þetta fé og láta hann svo lána þessa peninga út, það er ekki annað en kák. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að til er eldri stofnun, Fiskveiðasjóður Íslands, sem ástæða hefði verið til þess að styrkja öllu betur, ef ekki lægi fyrir að efla stofnlánadeild sjávarútvegsins. Á þennan hátt hefði ég rökstutt svar mitt við þessu frv., ef hv. flm. hefðu leitað umsagnar ríkisstj. um það, áður en þeir lögðu það fram, en það gerðu þeir nú ekki.

Það hefur borið á því víða í l. að undanförnu, að sett eru ákvæði, sem binda ríkissjóð miklum fjárframlögum, án þess að hliðsjón sé höfð af því, á hvern hátt ætti að leysa, ef fjárþröng væri. Ég hef staðið í þeim sporum að vera dreginn alvarlega til ábyrgðar af þessum ástæðum. Þannig var það á þinginu 1948 í sambandi við framkvæmd á l. um nýbyggingar í sveitum. Ég minnist þess þá, að það var kveðið mjög hart að orði og það kallað brigðmæli af fjmrh., ef ekki væri pungað út með fé til þessara framkvæmda, sem eftir meiningu framsóknarmanna lögin lögðu honum á herðar. Það voru nú flokksbræður þessa hv. flm., sem það gerðu. Það var nú svo í það skiptið, að það mál var nú samt leyst með því, að ríkissjóður tók lán til þess að uppfylla þessar kröfur lagabókstafsins. Finnst mér, að þegar við höfum mörg þess konar dæmi fyrir augunum, að Alþingi samþykki slík lög, sem ákveða greiðslur úr ríkissjóði á þennan hátt, án þess að hafa hliðsjón af einhverri tekjuöflunarleið til að mæta þeim, ef fjárþröng er, þá er það nægilega mikið til þess, að flestir gætu álitið, að slíkar löggjafir væru nú orðnar nógu miklar og frekar væri ástæða til þess að nema þær úr gildi, en að vera sífellt að bæta þar við. Það eru oft mestu vandræði að standa við allar þessar skuldbindingar l., vegna þess að það eru ekki gerðar tilraunir til þess um leið að afla þeirra tekna, sem á móti þurfa að koma, og þegar svo fjmrh., hver sem hann nú er, biður um hækkun á sköttum eða tollum, þá eru það ýmsir, sem hafa við það að athuga. — Þetta vildi ég aðeins láta koma fram.

Ég lít á frv. sem hvert annað kák. En hins vegar vil ég benda á, að það mundi binda ríkissjóð miklum byrðum og gæti jafnvel orðið til þess að draga úr því, sem í undirbúningi er varðandi stofnlánadeildina, og þeim vonum, sem menn binda við eflingu hennar. En því er ekki að leyna, að stjórn stofnlánadeildarinnar hefur ekki lagt sama skilning í þá löggjöf, að dómi ríkisstj., og þingið hefur haft fyrir augum, þegar hún var samþykkt á sínum tíma. Það klingir næsta oft við, þegar þessi mál eru rædd, að nýsköpunarstjórnin hafi gefið loforð í þessu efni, sem ekki hafa verið uppfyllt, og ég hef a. m. k. oft orðið fyrir miður vingjarnlegum aðdróttunum í því sambandi, sérstaklega vegna misskilnings á völdum nýbyggingarráðs. En ég vil leyfa mér að benda á það, að nýbyggingarráð fór hvergi fram yfir þau takmörk, sem því voru sett af löggjafarvaldinu. Þegar því er haldið fram, að nýbyggingarráð hafi lofað að lána, en svikið það, þá er það ekki rétt, því að það gat ekki og gerði ekki heldur að því að gefa loforð um lán, heldur tiltók það aðeins hámark þess, sem heimilt var að lána. Það var sem sé bara eftirlit, sem þar fór fram, og nýbyggingarráð skrifaði síðan stofnlánadeildinni um það, en hafði hins vegar alls ekki á valdi sínu, hvernig stofnlánadeildin fór með þær ráðleggingar, sem af ráðinu voru gefnar. Það er aftur á móti alveg rétt, að nauðsyn er á umbótum, þar sem haft er fyrir augum að leysa úr viðjum þá, er brestur lán til sinna þarfa. Það er réttmætt, og það þarf að gera. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, flýtir ekkert fyrir, að sú hugsjón komist í framkvæmd. Það hefur annmarka, sem ég skal ekki orðlengja um, en mér þótti hlýða að gera grein fyrir þessu hér. Ráðuneytið sem slíkt hefur lítið yfirlit yfir lán úr fiskimálasjóði öðruvísi, en það er lagt fram af fiskimálasjóðsstjórninni. Og það hefur tíðkazt í ráðun., bæði áður en ég kom þar og síðan ég kom þar, að samþ. þessar till. því nær undantekningarlaust, sem fiskimálasjóðsstjórnin hefur gert. Þetta er náttúrlega ekki það æskilegasta fyrirkomulag, því að þar sem er um útlánastarfsemi að ræða, eins og þarna er orðið, þyrfti miklu nánari athugun á slíkum lánveitingum, en fiskimálasjóðsstjórnin hefur tök á að láta fara fram, og að slíkri athugun er miklu betur staðið og hún er miklu betur í samræmi við lánastarfsemi yfirleitt að því leyti sem hún er framkvæmd af Fiskveiðasjóði Íslands. Þar ætti í raun og veru að vera öll lánastarfsemin, sem í þessu efni kæmi til greina að því er snertir báta og iðjufyrirtæki við sjóinn, þó að það hafi verið að þessu leyti látið vera heimilt fiskimálasjóði að gera slíkt hið sama. En það hefur verið réttilega bent á það hér af hv. frsm. minni hl. n., að það er ekki fyrsta boðorðið í starfsskrá fiskimálasjóðs, að hann skuli starfrækja lánastarfsemi, heldur er hún heimil. En sjóðurinn hefur aðrar skyldur á herðum, og í fyrsta lagi hefur löggjafinn ætlazt til þess, að hann annaðist framkvæmdir á sínu höfuðverkefni, en að lánastarfsemin hafi svo ekki átt að vera nema í 2. röð. En þróun þessara mála hefur orðið dálítið önnur, og ætla ég ekki að fara að lá fiskimálasjóðsstjórninni, þó að hún hafi orðið að láta undan þrýstingi í þessum efnum, því að það er öllum vitað, hve mikið hefur verið sótt á um að fá lán úr sjóðnum og er enn í dag, og er erfitt þar að standa á móti, ef það er annars talið heimilt og komið í hefð að gera þetta.

Væri hér um það mál að ræða, sem ég teldi til verulegra þrifa, líka fyrir þann flokk manna, sem nú kynni að langa til að fá lán úr fiskimálasjóði, þá mundi ég hafa veitt þessu máli brautargengi. En eins og á þetta mál er litið í sambandi við aðrar fyrirætlanir þær að efla stofnlánadeildina, þá er ég hræddur um, að það geri ekki atvinnuvegunum tilætlað gagn að samþ. þetta mál, en það hefur hins vegar marga annmarka, sem á hefur verið bent, svo sem þá að leggja margra millj. kr. byrði á ríkissjóðinn á næstu tíu árum. — Ég mun því ekki treysta mér til að fylgja málinu.