16.02.1950
Efri deild: 56. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (3179)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki deila mikið við hv. þm. um þetta atriði. En ég vil spyrja: Er hann að komast að þeirri niðurstöðu nú, að hann hafi gengið svo langt í þessu máli sem hann hefur gert til þess að hann sé aðeins að fá hér viljayfirlýsingu? Mér hefur ekki fundizt hann vera á þessari skoðun undanfarið, og það er um það, sem deilan hefur staðið á milli okkar, mín og hv. 2. þm. S-M. Ég hef bent á, að lögin verði aðeins viljayfirlýsing, nema tryggt verði fjárframlagið hverju sinni þannig, að þetta verði lagt fram til sjóðsins. En hv. 2. þm. S-M. hefur haldið fram, að með því að fá þessi ákvæði, sem í frv. eru, inn í lögin, þá sé tryggt, að þetta fé verði lagt fram. Er hann nú eitthvað að fá eftirþanka um það, að það þurfi að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir til þess að þetta verði eitthvað annað en auglýsing austur í Suður-Múlasýslu? Það getur verið, að þessi hugsun hafi eitthvað svifið að þessum hv. þm. En gengið út frá því, sem hv. 2. þm. S-M. hefur fullyrt hér, að með því að gera þessar breyt. á l. um fiskimálasjóð, séu sjóðnum tryggðar meiri tekjur, — því að till. í frv. um breyt. á l. sjóðsins er ekki um annað en það, að það skuli með sérstökum l. ákveða, að taka skuli inn í fjárl. á hverju ári í tíu ár eina millj. kr. á ári, sem renni í fiskimálasjóð, í staðinn fyrir að í l. er nú, að þetta skuli greitt í sjóðinn eftir því, sem fé er veitt til þess á fjárl. hverju sinni, — gengið út frá fullyrðingum þessa hv. þm., þá skilst mér, að hann ætli sér að tryggja sjóðnum þessar tekjur með þessu frv., ef að l. verður, þannig að það sé þá skylda hv. þm. hverju sinni að sjá um, að þetta fé verði tekið inn á fjárl. Og gengið út frá þessu sé ég ekki annað, en að það sé rétt hugsun hjá mér, að sjóðurinn hafi yfir einnar millj. kr. meiri tekjum að ráða, ef frv. verður að l., en annars mundi. Ef hv. þm. S-M. er nú á annarri skoðun og álítur nú, að engin trygging sé fyrir þessu, þó að l. um fiskimálasjóð verði breytt, hvers vegna á þá ekki að geyma frv.? Því að hvers virði er það þá fyrir fiskimálasjóð, þó að það sé eitthvað verið að flagga með flutning svona frv. austur í Múlasýslu? Hvers virði er það fyrir þá, sem eiga að fá lánaða peningana úr sjóðnum, þó að flaggað sé með frv. heima í kjördæmi, ef féð til sjóðsins verður ekki greitt? En verði féð greitt í sjóðinn, þá stendur sú ályktun mín óhagganleg, að sjóðurinn hefur meira fé en hann hafði áður.

Hv. þm. S-M. sagði, að hann liti svo á og legði þess vegna til, að brtt. mín yrði felld, að þessum málum sé betur borgið með því að láta þau liggja í höndum sjóðstjórnarinnar, eins og verið hefur, og sjútvmrh., heldur en að um ráðstöfun fjár sjóðsins sé ákveðið með l., eins og ég vil með brtt. Mér finnst þetta rekast nokkuð á við þær fullyrðingar, að hann vildi heldur lagabókstafinn um framlagið, en að eiga þetta undir Alþ. á hverju ári, hvort þessi eina millj. yrði greidd til fiskimálasjóðs á ári hverju í tíu ár. En látum reynsluna tala. Ég minnist þess — og ásaka ég þar ekki hæstv. sjútvmrh. —, að á þeim tíma, sem Áki Jakobsson var ráðh., þá eyddi sjóðstjórnin með leyfi ráðh., ekki með fyrirskipun ráðh., heldur með leyfi ráðh., stórkostlegum fjárfúlgum í að byggja hér iðjuver, sem kostar átta til níu millj. kr. og er engum til sóma né gagns. Þetta fyrirtæki hefur orðið engum til gagns, að það hefur verið ausið í það fé út úr sjóðnum, sem annars hefði gengið til aðila, sem nú á með brtt. minni að tryggja, að fái þetta fé, sem sjóðurinn hefur til umráða, aðila, sem samkv. l. sjóðsins fyrst og fremst ber að láta fá þetta fé til þess að styðja fyrirtæki þeirra. Þetta fyrirkomulag um það, hvernig varið hefur verið fé sjóðsins, samkv. því dæmi, sem ég nefndi, telur hv. þm. S-M. vera betri ráðstöfun málanna en að kunna fótum sínum svo forráð að ákveða nú með lagafyrirmæli, hvernig eigi að nota fé sjóðsins. En á sama tíma sem hann talar svona lýsir hann þar með yfir, að það sé ekki aðalgrundvöllurinn undir framtíð sjávarútvegsins að framkvæma þau verkefni, sem talin eru upp í 4. gr. laga sjóðsins, því að annars gæti hann ekki fullyrt, að hann áliti, að þessum málum væri betur borgið með því sleifarlagi á þeim, sem verið hefur, með því móti, að það hlutverk sjóðsins, sem í 4. gr. er sett fram sem aðalhlutverk hans, sé vanrækt, og með því gefur hann í skyn, að það, sem talað er um í 4. gr. l., sé miklu minna virði fyrir sjávarútveginn yfirleitt en það, sem leyft er samkv. 5. gr. l. að verja fé sjóðsins til, og þá fyrst get ég skilið hans afstöðu í málinu, ef reiknað er með þessu. En sannleikurinn er sá, að ef ekki á með tilstyrk sjóðsins að halda uppi þeim aðalverkefnum, sem sjóðurinn átti að styrkja og talin eru upp í 4. gr. laga sjóðsins, þá getur verið, að við þurfum ekkert á sjóðnum að halda. Ef á að láta niður falla að halda uppi rannsóknum, sem eru undirstaða undir því, að hægt sé að reka sjávarútveg á sem beztan og hagkvæmastan hátt, og ef á að láta niður falla markaðsleitir, sem tryggja, að öruggara sé að selja það, sem veitt er úr sjó, þá getur það komið til m. a., að frystihúsin verði látin standa auð og þau geti aldrei endurgreitt þessi lán, sem sjóðurinn hefur veitt. Það er þess vegna, að ég berst fyrir þessari till., að ég er á öðru máli en hv. flm. Hann er þeirrar skoðunar, að það geri ekkert til, þó að ekki sé gerð ný rannsókn á þessu sviði, það sé bara að láta kylfu ráða kasti með það. Það geri ekkert til, þó að það séu milljónir tonna af síld hér fyrir utan, sem ekki sé hægt að ná vegna þess, að við höfum ekki veiðarfæri af því tagi, sem hentar til slíkra veiða, það geri ekkert til, síldin komi að Norðurlandi, þegar hlýni í veðri. Það sé um að gera að lána nógu mikið fé til að byggja nóg af frystihúsum, sem kannske kemur ekkert í.

Ég nenni svo ekki að ræða meira þetta mál, það er margrætt. Ég læt till. að sjálfsögðu koma til atkv. og vil gjarnan sjá, hvað margir menn vilja leika þennan skrípaleik, sem hv. flm. er hér að leika.