16.02.1950
Efri deild: 56. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (3180)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson) :

Herra forseti. Það er ástæðulaust að stagla mikið um þetta mál við 3. umr., eins og búið er áð ræða það mikið við fyrri umr.

Hv. þm. Barð. er enn að tala um fiskiðjuver ríkisins í sambandi við þetta mál, sem nú liggur hér fyrir. Mér skilst, að hann vilji með sínum till. m, a. fyrirbyggja, að sagan um fiskiðjuverið endurtaki sig. Ég hélt, að hv. þm. væri það alveg ljóst, og ég veit vel, að honum er það ljóst, þó að hann vilji láta annað í veðri vaka, að með þeim ákvæðum um hámarkslán, sem sett voru inn í l. á sínum tíma, að vísu ekki fyrr en búið var að leggja milljónir í fiskiðjuverið, þá var það fyrirbyggt, að slíkt mætti eiga sér stað, að svo stórum hluta af fé þessa sjóðs væri varið í eitt einstakt fyrirtæki. Þetta veit hann vel, þó að hann vilji láta annað í veðri vaka nú.

Viðvíkjandi því, að í ræðu minni hafi ég gefið tilefni til að ætla, að ég sé kominn á aðra skoðun um þýðingu þess að ákveða þetta gjald, án þess að tekjur séu ákveðnar á móti, þá er það misskilningur. Það eina, sem ég vildi gera og gerði, var að benda á, að það fær ekki staðizt hjá sama manni að hamra það fram hér í d., að slík lagasetning sé pappírsgagn, viljayfirlýsing o. s. frv., og koma eftir nokkra daga fram í sömu d. og segja, að með þessari sömu lagasetningu sé þeim sjóði, sem hér er um að ræða, tryggt það framlag, sem l. kveða á, — alveg tryggt. Svona málflutningur fær ekki staðizt, og það var aðeins þetta, sem ég vildi benda á.