28.03.1950
Neðri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (3195)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Það hefur orðið ágreiningur í sjútvn. um afgreiðslu þessa frv. Álit minni hl. er prentað á þskj. 494, og hefur því verið útbýtt á fundinum. Ég vil taka fram, að villa er í upphafi grg. Þar stendur 1937, en á að vera 1934.

Sá ágreiningur, sem orðið hefur í sjútvn., er um það, hvort það eigi að vera eins og verið hefur, að stjórn fiskimálasjóðs ráðstafi því fé, sem veitt er úr honum samkvæmt l., eða hvort nú eigi í þeim l., sem í ráði er að setja, að binda hendur sjóðstjórnarinnar um ráðstöfun fjárins. Minni hl. hefur talið, að rétt væri að gera breyt. á frv., eins og það liggur nú fyrir, á þá leið, að stjórn fiskimálasjóðs ráðstafi sjálf fénu, en meiri hl. er hins vegar þeirrar skoðunar, að það eigi að binda í l., hvað miklu af fé sjóðsins skuli varið til lánastarfsemi og hversu miklu til styrktarstarfsemi. Meiri hl. telur, að það, sem megi verja til lána, megi ekki fara fram úr 40% af því, sem stjórn sjóðsins ráðstafar. Þetta tel ég ekki rétta stefnu, og mun ég koma að því síðar.

Á þingi 1934 voru sett l. um fiskimálanefnd, útflutning á fiski, hagnýtingu markaða og fleira. Í þessum l. eru ákvæði um fiskimálasjóð. Þar er ákvæði um, að stofna skuli sjóðinn og hvernig verja skuli tekjum hans. Í 14. gr. þessara l. er svo að orði komizt, að ríkisstj. skuli heimilt að veita einstaklingum eða félögum lán eða styrki úr fiskimálasjóði, eftir því sem nánar sé tilgreint í l. Ég vil vekja athygli á því, út af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að styrktarstarfsemin væri sett fram fyrir, að því fer fjarri, að það hafi nokkurn tíma verið tilgangur l., að lánastarfsemi sjóðsins ætti að vera aukaatriði, heldur var frá öndverðu gengið út frá, að sjóðurinn ætti jöfnum höndum að veita lán og styrki til ýmissa framkvæmda, sem þar eru tilgreindar. Því er það, að lánastarfsemin, sem rekin hefur verið á síðari árum, fer engan veginn í bága við tilgang þann, sem fyrir löggjafanum vakti, þegar þessi l. í öndverðu voru sett, nema síður sé. Þetta kemur kannske einna gleggst fram, þegar l. um fiskimálasjóð var breytt 1937, því að þar er beinlínis gert ráð fyrir ákveðnum framkvæmdum, sem fiskimálasjóður eigi að styrkja, fyrst og fremst með lánum. Þar er m. a. talað um hraðfrystihús, en lán til hraðfrystihúsa hafa verið sú starfsemi, sem fiskimálasjóður hefur einna mest sinnt á síðari árum.

Nú er það hins vegar svo, að 1947 er enn gerð breyt. á þessum l., í þá átt, að starfsemi sjóðsins er aðgreind frekar en áður var, þannig að 4. gr. fjallaði um styrktarstarfsemi sjóðsins, en 5. gr. um lánastarfsemi þá, sem nefnd er í gr. Er þar ákveðið, að hámark láns skuli vera 150 þús. kr. eða 25% af stofnkostnaði. Nú bera l. frá 1947 það beinlínis með sér, að það var ætlun Alþingis, að þessi starfsemi sjóðsins, lánveitingar gegn síðari veðrétti, yrði aukin einmitt á þeim stöðum, þar sem fjármagn væri af skornum skammti og möguleikar til að koma upp þessum framkvæmdum, enda hefur það verið svo á síðari árum, síðan þessi l. voru samþ., að mjög hefur verið sótt eftir þessum lánum úr fiskimálasjóði, og hefur sjóðstjórnin reynt að verða við þeim umsóknum eftir megni. Hins vegar er það engan veginn svo, að hitt hlutverk sjóðsins hafi verið algerlega vanrækt, því að samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið frá stjórn fiskimálasjóðs, þá hefur a. m, k. á aðra milljón króna á þessum árum verið varið í þessu skyni, þar á meðal til síldarleitar úr lofti og síldarleitar á sjó. Ýmislegt er þar annað, sem sjóðurinn hefur sinnt af þessu tagi. En eftirspurn eftir lánum úr sjóðnum hefur verið mjög mikil, og það hefur komið í ljós, einkum nú upp á síðkastið, að fiskimálasjóði var það alveg um megn að fullnægja þessari eftirspurn af þeim tekjum, sem hann hafði. En þörfin fyrir þessi síðari veðréttar lán hefur farið sívaxandi, ekki síst vegna þess, að orðið hefur erfiðara og erfiðara að fá önnur lán til þessara fyrirtækja. Stjórn fiskimálasjóðs hefur þess vegna nú á síðasta ári tekið upp þá aðferð að veita fyrirheit um lán til slíkra fyrirtækja, sem veitt yrðu af tekjum sjóðsins síðar. Þau lán, sem lofað hefur verið á þennan hátt, nema nú allhárri upphæð, eða nokkuð á 4. milljón króna. Ég skal taka fram, að loforð um þessi lán hafa verið gefin af stjórn sjóðsins með samþykki ríkisstj. á hverjum tíma. Ríkisstj. hefur hvert sinn staðfest loforð sjóðstjórnarinnar um veitingu lána á þeim tíma, sem talið hefur verið, að sjóðurinn gæti greitt það af höndum. Nú er það svo, að tekjur sjóðsins árlega samkvæmt því, sem gert er ráð fyrir í l., þ. e. a. s. ½% af útfluttum sjávarafurðum fyrir utan saltsíld, er rúmlega 1 milljón króna á ári. Árið 1949 voru þær 1,3 millj. kr. Því er það ljóst, að það hlýtur að taka alllangan tíma að veita þau lán, sem stjórn fiskimálasjóðs hefur þegar lofað, enda hefur verið gert ráð fyrir, að síðustu lánin verði ekki greidd fyrr en 1952. Hins vegar er það vitanlega svo, að það er ákaflega bagalegt fyrir þessi fyrirtæki að geta ekki fengið þessi lán útborguð fyrr, hvað þá ef það drægist enn meira en orðið hefur eða gert er ráð fyrir, að þau yrðu greidd, en á hinu hefði öllu fremur verið þörf, að það hefði verið hægt að auka þessa lánsmöguleika og veita hærri lán út á síðari veðrétt og eins að það hefði verið hægt að borga þau fyrr en líklegt er, að gert yrði að óbreyttum lögum.

Það frv., sem hér liggur fyrir, var flutt í Ed., og tilgangurinn með flutningi þess var sá að greiða fyrir þessum lánveitingum og skapa möguleika til þess, að hægt yrði að greiða út þau lán, sem lofað hefur verið, fyrr en ella og jafnframt, að hægt yrði að hækka lánin. Til þess að svo mætti verða, var lagt til í frv., þegar það var fram borið, að tekjur sjóðsins yrðu auknar. Það var ætlunin að auka tekjur sjóðsins á þann hátt, að ríkissjóði yrði gert skylt að greiða 1 milljón króna á ári í fiskimálasjóð. Að vísu er ákvæði um þetta einnar milljón króna framlag úr ríkissjóði, en því látið fylgja það skilyrði, að framlagið sé tekið upp í fjárlög, en hingað til hefur ekki orðið af því. Nú er lagt til, að ríkissjóði verði gert skylt að greiða framlagið. Með þessum hætti hefði mjög rýmkazt fjárhagur fiskimálasjóðs. Tilgangurinn var sá, að hægt yrði að auka lánastarfsemina, og í frv. voru líka ákvæði um það, að hámark þeirra lána, sem sjóðurinn veitti, væri 350 þús. í stað 150 þús. kr. áður og 50% af stofnkostnaði í stað 25% áður. Þriðja nýmælið var, að vextir sjóðsins yrðu lækkaðir niður í 2½% úr 4½%.

Ég hef áður getið um það, að þau loforð, sem stjórn fiskimálasjóðs var búin að gefa um siðari veðréttar lán úr fiskimálasjóði, mundu nema nokkuð á 4. milljón króna og gert væri ráð fyrir, að þau síðustu yrðu ekki greidd fyrr en 1952. Þessi lán eru lofuð til 29 fyrirtækja, og eru flest þeirra, eða a. m. k. meiri hluti þeirra til hraðfrystihúsa í verstöðvum. Einnig er þar um að ræða beinamjölsverksmiðjur og, að ég ætla, lifrarbræðslur og fleiri tegundir framkvæmda í þágu sjávarútvegsins. Ég hef athugað það lauslega, í hvaða landshlutum þessi 29 fyrirtæki væru, sem fengið hafa loforð fyrir lánum úr fiskimálasjóði. Mér telst svo til, að af þeim séu þrjú við Faxaflóa, fjögur við Breiðafjörð, tólf á Vestfjörðum, fjögur á Norðurlandi, fimm á Austurlandi og eitt á Suðurlandi. Þau eru sem sé mjög víða um landið, í öllum landshlutum og í mjög mörgum verstöðvum. Það er því mjög almennt hagsmunamál manna í mörgum verstöðvum á landinu, að þessi lánastarfsemi sé fremur aukin en rýrð.

Nú gerðist það, að ég ætla við 3. umr. í Ed., að gerð var breyt. á þessu frv. með nokkuð einkennilegum hætti, að mér virðist. Þessi breyt., sem samþ. var við 3. umr. í Ed., var á þá leið, að af tekjum sjóðsins skyldi verja 60% í ákveðnum tilgangi, sem þar er nánar tilgreindur. En af því leiðir, að ekki má verja nema 40% í mesta lagi til lánastarfsemi, og þannig er ákvæði frv. eins og það liggur fyrir nú. Niðurstaðan er þá sú, að í staðinn fyrir að auka möguleika fiskimálasjóðs til útlána, eins og ætlazt var til með frv. í fyrstu, er frv. orðið þannig, að ef það yrði að l. eins og það er, yrðu möguleikar sjóðsins til útlána rýrðir í stað þess að verða auknir, og það er vitanlega allt annað, en ætlazt var til. En þrátt fyrir það, að þannig hefur verið frá gengið, að útlánamöguleikarnir í heild hafa verið rýrðir, þá standa samt enn þau ákvæði, sem í því voru í upphafi, að hámark lánanna megi vera allt að 350 þús. kr. í stað 150 þús., eins og er í l., og allt að 35% stofnkostnaðar. Ég geri ráð fyrir, að hv. dm. sjái, að á þennan hátt er ekki hægt að afgr. frv. Það væri að minnsta kosti mjög órökrétt að afgreiða frv. á þann veg að ætlast til, að einstök lán úr sjóðnum séu hækkuð og minnkaðir jafnframt möguleikar sjóðsins til að veita þessi lán. Þannig afgreiðslu er ekki hægt að hafa á frv.

Hv. þm. Ísaf. (FJ), frsm. meiri hl. n., sagði það sem sína skoðun, að stjórn fiskimálasjóðs hefði nú gert of mikið að því að lofa lánum, en lagt of litla áherzlu á hitt verkefni sjóðsins, að veita styrki til rannsókna og tilrauna í þágu sjávarútvegsins. Ég skal ekki ræða þetta út af fyrir sig, en það er staðreynd, að þessum lánum hefur verið lofað, og það er líka staðreynd, að það hefur verið mjög aðkallandi þörf fyrir þessi lán. Ég vil fullyrða, að ýmsum fyrirtækjum, sem hér um ræðir, einkum í hinum smærri verstöðvum, verður naumast komið upp nema þessi lán verði veitt og tæpast nema þau verði hækkuð frá því, sem gert var ráð fyrir. Þessum lánum hefur verið lofað, og það verður ekki aftur snúið með það. Við það verður að standa, og þá verður vitanlega að gera ráð fyrir fé til þess, og ég sé nú ekki, að það sé forsvaranlegt að láta þau fyrirtæki, sem hér um ræðir, bíða eftir útborgun lánanna í 2–3 ár. Þegar af þeirri ástæðu hefði verið ástæða til þess að auka nú þegar tekjur sjóðsins og þar að auki líka vegna þess, að full þörf væri á að hækka lánsupphæðirnar vegna þess, að þeim hefur verið lofað.

Ég vil ekki gera lítið úr því á neinn hátt, að nauðsyn sé til þess að verja opinberu fé til að styrkja rannsóknir og tilraunir ýmiss konar í þágu sjávarútvegsins, t. d. í sambandi við leit að síld eða fiskimiðum og veiðarfæratilraunir. En hitt vil ég fullyrða, að engu minni ástæða sé til þess að aðstoða menn í verstöðvum víðs vegar um landið við hagnýtingu sjávaraflans, og það liggur ljóst fyrir, að fyrir þeim, sem upphaflega settu l. um fiskimálanefnd og fiskimálasjóð, vakti það, að menn fengju aðstoð til þess að koma upp fyrirtækjum til slíkrar hagnýtingar sjávaraflans. Víða vantar allmikið á það, að hinn verðminni hluti aflans sé hagnýttur svo sem skyldi, og þarf ekki að fara um það mörgum orðum. En jafnframt er svö það, að í mörgum verstöðvum er sem stendur mjög lítið um tæki til hentugrar hagnýtingar aflans yfirleitt. Mjög víða hefur þó nú verið hafizt handa í þessum efnum og byrjað að byggja hraðfrystihús, beinaverksmiðjur, lifrarbræðslur og fleira. Sumum af þessum fyrirtækjum er að verða lokið, sum komin skemmra á veg, en flestum eða öllum er það sameiginlegt, að þau skortir lánsfé, til þess að hægt sé að ljúka verkinu. Flest þeirra reyndu að fá lán úr stofnlánadeild sjávarútvegsins, og höfðu mörg þeirra skilríki fyrir því, að svo mundi verða. Hefur þó því miður yfirleitt ekki verið hægt að veita þessi lán, en jafnvel þó að séð yrði fyrir einhvers konar stofnláni til þessara fyrirtækja, er enginn vafi, að þau hefðu fulla þörf fyrir þau síðari veðréttar lán, sem gert var ráð fyrir, að þau fengju úr fiskimálasjóði. Vil ég því alvarlega vara við því að fara að binda hendur fiskimálasjóðsstjórnarinnar þannig, að hún geti ekki greitt lán, sem þegar hefur verið lofað, jafnvel þó að hún hafi áhuga fyrir rannsóknum og tilraunum, sem ég vil síður en svo gera litið úr. Og ég vil raunar taka fram, að jafnvel þótt ekki væru í þessum l. gerðar sérstakar ráðstafanir til fjárgreiðslu í því skyni, þá er náttúrlega á valdi Alþingis að veita fé til slíkra rannsókna eða tilrauna, ef eitthvað sérstakt liggur fyrir, er sýnir, að þörf sé meiri fjárútlána, en nú eiga sér stað. Þeir menn, sem fara með stjórn fiskimálasjóðs, eru kosnir af Alþ. Ég ætla, að þetta séu menn, sem hafi bæði áhuga og þekkingu á þeim málum, sem hér um ræðir og þeim hafa verið falin. Ég tel þess vegna út af fyrir sig ekki neina ástæðu til þess að fara að gera aðra skipun í þeim efnum og að Alþingi fari að taka að meira eða minna leyti úthlutun þessa fjár úr höndum þeirra manna, sem með hana hafa farið. Og þó að meiri hlutinn af tekjum sjóðsins hafi undanfarin ár farið til lánveitinga, má vel svo vera, að stjórn sjóðsins sjái á næstu árum meiri ástæðu til þess, en verið hefur að styrkja tilraunir og rannsóknastarfsemi, og ég hef enga ástæðu til að ætla annað, en þessir menn beri fullt skyn á það, sem gera þarf í þeim efnum, og þá nauðsyn, sem þar kann að vera. Ég er síður en svo að halda því fram, að skipting fjárins milli lána annars vegar og styrkveitinga hins vegar eigi endilega að vera sú sama og hún hefur verið undanfarin 2–3 ár, en ég held því fram, að ástæðulaust sé að gera þá breyt., sem gerð er í frv., eins og það liggur fyrir frá Ed., að banna með lögum, að lánað sé meira en 40% af tekjum sjóðsins.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég hef vakið athygli á því, að þeim tilgangi, sem frv. fól í sér upphaflega, hefur verið breytt mjög einkennilega og að því er ég tel á mjög óheppilegan hátt, og eins hef ég vakið athygli á hinu, að það er ekki hægt að afgreiða frv. í þeirri mynd, sem það er nú, þ. e. að gera hvort tveggja í senn: að minnka möguleika sjóðsins til útlána og ætlast jafnframt til þess, að lánin séu hækkuð frá því, sem nú er. Því atriði yrði a. m. k. að breyta samræmisins vegna, og væri hægt að athuga það við 3. umr. málsins, en við þessa umr. hefur minni hl. lagt til, að það ákvæði, sem ég hef áður nefnt og sett var inn í Ed., verði fellt niður.