11.12.1949
Efri deild: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (3207)

60. mál, notendasímar í sveitum

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það, hve mikla nauðsyn allir menn telja sér á að hafa síma. Þessi nauðsyn kemur fram jafnt í þéttbýlinu og dreifbýlinu og það svo mjög, að í þéttbýlinu óska menn jafnvel eftir að hafa síma, sem hægt er að færa til fleiri staða í sama herbergi. Ég skal ekki draga í efa nauðsyn þessa, en ég fullyrði þó, að þörf þeirra manna, sem búa í dreifbýlinu, er ákaflega miklu meiri fyrir síma en alls fjöldans í þéttbýlinu, þegar undanskildir eru menn eins og t. d. embættismenn og menn, sem hafa mikil viðskipti með höndum og er nauðsyn á að ná fljótt viðtölum við aðra menn.

Nú er það svo, að síðan síminn kom hingað til landsins, þá hefur hann verið að smáfæra út kvíarnar og þeim fjölgað, sem hafa fengið síma, og gildir þetta sérstaklega í þéttbýlinu. Úti um landið hefur þetta gengið tiltölulega miklu hægar, og þó er komið svo, að sími er kominn liðlega á annan hvern bæ, svo að tæplega annar hver bær í sveitunum á eftir að fá síma enn. Margir af þessum bæjum eru svo langt frá símstöðum, að fólkið þarf að fara allt upp í 50 km leið til að komast í síma, og ég þekki þetta af eigin reynslu, því að ég hef iðulega þurft að borga tugi kr. fyrir að láta sækja mann í síma, sem ég hef þurft að tala við. Til þess að reyna að bæta úr þessu og flýta fyrir því, að notendasímar komi sem fyrst í sveitirnar, er frv. þetta fram borið. Það hefur verið rannsakað á skrifstofu póst- og símamálastjóra vegna þáltill., sem samþ. var á Alþ., en flutt af þm. V-Húnv. (SkG), þar sem hann óskaði eftir, að rannsakað væri, hvað það kostaði að leggja síma í allar sveitir landsins, sem eftir væru. Er talið, að með núverandi verðlagi kosti það milli 27 og 28 millj. kr., og með því að nú er hver símanotandi í sveit látinn borga 770 kr. fyrir að fá símann heim, mundi framlag ríkissjóðs nema því sem næst 25 millj. kr. Í frv. er gert ráð fyrir, að gerð sé allsherjaráætlun um að koma símum í sveitir landsins á næstu 10 árum, og gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram 2,5 millj. kr. á ári og þá verði verkinu lokið á 10 árum. Gjaldeyririnn í þann síma mundi á ári, eins og nú standa sakir, kosta 800 þús. kr., eða það er kringum 1/3 hluti af kostnaðinum við að leggja símann, sem er gjaldeyrir. Og til þess að ekki standi á honum og gjaldeyrisskortur hindri ekki framkvæmd málsins, er gert ráð fyrir, að gjaldeyrisyfirvöldin séu skylduð til að veita gjaldeyrisleyfi, svo að hægt sé að fá efni til hans, eins og fyrir er mælt í lögunum, eða efni fyrir 0.8 millj. á ári, svo að hægt sé að leggja fyrir 2,5 millj. kr. á ári í næstu 10 ár. Það þótti ekki ástæða til að taka upp neitt um það, hvert gjald menn greiddu fyrir innlagnir símanna, né heldur hvernig menn greiddu fyrir flutning efnis á staðinn. Um það eru reglur, sem ráðh. hefur sett og eftir hefur verið farið, og í 3. gr. frv. er vísað til þeirra. Þær reglur eru þannig, að landssíminn hefur flutt allt efni á næstu Eimskipafélagshöfn, en viðkomandi sveitarfélag sér um efnisflutninga, bæði í land og af hafnarstað og í hreppinn og um hreppinn, eftir því sem línurnar þar eiga að liggja. Þessar reglur eiga að gilda áfram og í þær er vitnað hér. Það þótti réttara að vitna í þær á hverjum tíma, vegna þess að innlagningargjaldið hefur breytzt. Það hefur nú nýlega hækkað um 10% í sambandi við almenna hækkun í landinu. Það getur vel verið, að þetta breytist aftur að einhverju leyti og þá þótti réttara að vitna í reglur, sem gilda á hverjum tíma, heldur en að slá þessu föstu. Eins hefur það verið misjafnt, hvernig hrepparnir hafa komið sér fyrir með flutningskostnaðinn. Sums staðar hefur hann verið kostaður af hreppunum að öllu leyti og sums staðar kannske að hálfu leyti og sums staðar hafa þeir, sem símana fá, séð um efnisflutninginn. Um þetta er ekkert ákveðið hér, og getur það þess vegna verið eins og verið hefur á hverjum stað. Þá hefur verið og er togstreita um það, hvar leggja eigi notendasíma á hverju ári. Þetta hefur legið í valdi landssímastjórans að mestu leyti, en þó að einhverju leyti heyrt undir ráðh. Þegar þessi ákvörðun var tekin, að ljúka verkinu á 10 árum, þótti okkur flm. ekki rétt að láta þetta heyra eingöngu undir vald landssímastjóra, heldur setja einhverja menn, sem teljast mega fulltrúar notendanna, bændanna, sem símana fá, til þess að ákveða, hvernig síminn yrði lagður. Og okkur fannst geta komið til greina fleiri sjónarmið. Fyrst er á það að líta, að eins og nú standa sakir er það töluvert misjafnt, hve langt er komið að leggja notendasímana. Það mun nú vera svo, að tvær sýslur landsins munu vera búnar að fá síma á meira en 90% af bæjum, sem í byggð eru í viðkomandi sýslum, meðan þær sýslur, sem lægstar eru, munu tæplega vera búnar að fá síma á 1/4 hluta bæja, og svo eru þær þarna á milli, á ýmsum stigum. Það kom þess vegna mjög til álita, hvort ekki ætti að setja ákvæði um það, að þegar byrjað væri á þessari 10 ára áætlun, þá kæmu í fyrstu línu þær sveitir eða sýslur, sem ekki hefðu nema tiltölulega fáa síma, meðan hinar kæmu síðar, sem hefðu þá fleiri nú. Það þótti þó ekki alls kostar fært að ákveða þetta, þar sem svo gæti staðið á, að nauðsynlegt væri að koma síma áleiðis þar, sem fleiri símar væru fyrir, því að aðstaða manna til þess að komast í síma er ekki undir því komin, hve margir símar eru prósentvís á býlafjölda sýslunnar, heldur líka hvernig þeir liggja. Það er allt önnur þörf fyrir einhvern hrepp, langan og mjóan, að fá viðbótarsíma, ef síminn er kannske kominn á annan hvern bæ í hreppnum, svo að hvergi þarf nema bæjarleið til þess að ná í síma, eða annan hrepp, þar sem síminn er kominn á hvern bæ í hálfum hreppnum, en annar helmingur hreppsins er alveg eftir, en menn þurfa þar að fara 30–40 km til þess að ná í síma. Það geta verið jafnmargir símar prósentvís í þessum hreppum, en aðstaða manna er mjög ólík til þess að komast í síma. Þess vegna þótti okkur ekki rétt að setja um þetta föst ákvæði. Það kemur einnig til greina, að þar, sem samgöngur eru það góðar, að kannske eru samgöngur milli bæjanna tvisvar á dag, er þörf manna fyrir síma ekki eins brýn og hinna, sem hafa kannske ekki samgöngur við aðra nema einu sinni í viku eða einu sinni í mánuði. Með tilliti til alls þessa þótti réttast að láta fulltrúa frá bændunum, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að verði formaður Stéttarsambands bænda og búnaðarmálastjóri, verða með í ráðum með póst- og símamálastjóra um, hvar símar séu lagðir á hverju ári. Þar við bætist, að það fjármagn, sem um er að ræða, notast áreiðanlega bezt með því að láta síma nokkuð mikið á sama stað, en ekki með því að láta síma á einn, tvo eða þrjá bæi sinn í hvorri sveit eða sýslu um landið allt á hverju ári. Ég lít svo á, að menn muni miklu betur sætta sig við það, eftir að búið er að samþ. frv. eins og þetta, þar sem þeir sjá fyrir endann á símalagningu í sveit sína á næstu 10 árum, þó að þeir þurfi að bíða einu eða tveim árum lengur eftir símanum en áður, meðan allt var í óvissu um þetta og ekki vitað, hvort byrjað yrði á verkinu á næstu 20 eða kannske 50 árum. Þá settum við í 5. gr. til hliðsjónar og ábendingar fyrir þessa fyrirhuguðu n., að vitanlega teljum við að þeir verði að taka tillit til þeirra sveita, sem eru mikið aftur úr öðrum sveitum með að fá síma til sín. Nú er að vísu ástandið þannig, að ég geri ekki ráð fyrir, að hægt verði að veita gjaldeyrisleyfi fyrir meira efni en svo, að hægt verði að leggja síma fyrir 2½ millj. kr. á ári, en enginn veit, hvað framtíðin ber í skauti sínu, og eftirsóknin eftir að fá síma sem allra fyrst er ákaflega mikil. Þess vegna er gert ráð fyrir í frv., að menn, sem vilja fá símana til sín, geti lagt fram lánsfé og fengið síma lagðan til sín fyrir það, en þó því aðeins, að hægt sé þá að veita gjaldeyrisleyfi, sem með þarf. Ég held, að ef þetta frv. yrði að l., og ég vona, að svo verði, þá sé stigið ákaflega stórt spor til þess að greiða fyrir því, að menn fyrst og fremst fái símana og það aftur óbeint verði til þess, að menn sitji áfram í sveitunum og láti síður lokkast úr þeim, en hefur verið nú síðustu árin. Það eru til gömul l. frá 1929 um einkasíma í sveitum, sem ekkert hefur verið með gert og eru í raun og veru í framkvæmdinni fallin úr gildi. Landssímastjóri benti á, að rétt væri að nema þau l. úr gildi, og þess vegna höfum við tekið það upp í 7. gr. frv., að svo verði gert. Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta frv. komi það fljótt til framkvæmda, að eftir því verði hægt að fara nema að einhverju leyti á árinu 1950, og þess vegna höfum við ekki sett neitt ákvæði um það til bráðabirgða. Þegar sýnt er, hvaða undirtektir frv. fær hér á Alþ., má á síðara stigi málsins hugsa sér að setja inn ákvæði um það, að t. d. á árinu 1950 skuli lagður fram einhver hluti af því fjármagni, sem um ræðir í 1. gr. frv., þar sem verkið kæmi ekki til framkvæmda nema part af árinu. Þetta mun náttúrlega sú n., sem fær málið til meðferðar, athuga.

Það kann einhverjum að finnast, að þessi upphæð, 2,5 millj. kr., sé há og erfitt verði að koma svo hárri upphæð fyrir í fjárl. Ég held, að það sé ekki erfitt, og ég treysti mér til þess, þegar þar að kemur, að finna nóga liði, sem hægt er að ná sparnaði á, á móti þessu, — nóga. Ég skal ekki fara sérstaklega út í það að benda á þá nú. Ég er ekki hræddur um, að ekki náist samkomulag um það út af fyrir sig, ef frv. að öðru leyti þykir aðgengilegt og rétt þykir að láta það ná fram að ganga.

Ég er ekki alveg viss um, í hvaða n. málið á að fara. Málið er samgöngumál, það er líka almennt félagsmál og enn fremur fjárhagsmál. Ég held, að réttast væri að setja það í fjhn., enda þótt það snerti ekki tekjuöflun. Ég held, að ég geri það að minni till., en sætti mig annars vel við, ef hæstv. forseti, sem er 2. flm. frv., vill að það fari í aðra n. Ég óska þess svo, hvaða n. sem frv. fer í, að það fái fljóta afgreiðslu og góðar undirtektir og nái sem fyrst fram að ganga á þessu þingi.