12.12.1949
Efri deild: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (3210)

60. mál, notendasímar í sveitum

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég heyrði það nú á ræðu hv. þm. Barð. (GJ) hér í gær, að þó að hann væri því efnislega sammála að flýta fyrir því, að notendasímar yrðu lagðir um sveitir landsins, þá sá hann þar þó ýmis ljón á veginum í sambandi við þetta frv. Mig langar í því sambandi að benda honum á, að nokkuð af því, sem hann sagði þar, er á misskilningi byggt, en aðra hluti, sem hann benti á tel ég fullkomlega athugunarverða. Því miður man ég ekki allt, sem ég þarf að svara úr hans ræðu. Hann talaði um m. a., að mjög væri óviðfelldið að ákveða fyrir næstu tíu ár, að á þeim skuli leggja árlega fram úr ríkissjóði 2,5 millj. kr. til þess að leggja notendasíma, og benti hann á, að sum slík ákvæði, sem sett hefðu verið í lög, hefðu orðið að eintómum pappírslögum. Þetta síðastnefnda er rétt, og það er ekkert nýtt að heyra þetta frá þm. annað slagið, að þetta sé óviðfelldin aðferð. Ég man það vel, þegar það kom hér í hv. d. til mála, að viss hluti benzínskattsins skyldi renna í svo kallaðan brúasjóð. Því var þá haldið fram, að það væri ófært að ákveða fyrir sig fram, að ákveðinn hluti ríkisteknanna skyldi renna í einhverju ákveðnu augnamiði í ríkissjóðinn. Þrátt fyrir það var þetta gert. Og enn fremur hafa þeir sömu menn, sem héldu því fram með ákaflega miklu harðfylgi hér í hv. d., að þetta væri svo skelfing óviðkunnanlegt, þeir hafa síðan sjálfir ákveðið í fjöldamörgum lögum sams konar aðferð að þessu leyti og hér er um að ræða, sem sum hafa að vísu verið höfð að engu, en sum framkvæmd. Þess vegna sé ég ekki, frá þessu sjónarmiði séð, að rétt sé að amast við þessu 2,5 millj. kr. framlagi á ári í 10 ár til þess að leggja fyrir notendasíma. Ég gæti farið í upptalningu til þess að sýna, hvað sömu menn, sem hafa talið það ógurlegt að hafa svona ákvæði í l., hafa innan stundar, svo að segja, borið slíkt fram sjálfir á Alþ. og það ár eftir ár. Það er því ekki til nein sérstök stefna í þessu efni hér á A1þ.

Hv. þm. Barð. talaði um það, að tryggara væri í sambandi við 1. gr., ef hægt væri að koma fram einhverjum framlögum öðrum en úr ríkissjóði til þessara hluta, finna einhvers staðar tekjur til þess að standa undir þessum kostnaði. Ég vil benda á, að ef þetta frv. verður að l. og ákvæði þess framkvæmd, mundi það auka mjög verulega tekjur símans. Afnotagjaldið eitt mundi fyrir þessar framkvæmdir hækka um hundruð þúsundir króna, miðað við núverandi verðlag, þannig að þar kæmu tekjur, sem ríkissjóður fengi inn á hverju ári í rekstrarafgangi símans. Og þó að afnotagjöldin hafi verið lág undanfarin ár, þá voru þau hækkuð nýlega, og símagjöld hafa verið einnig sum hækkuð á þessu ári, og þar er um að ræða tekjur, sem ríkið fær beint frá símanum. — Svo er nú annað í þessu máli. Það er nú lagt til hliðar í Landsbankanum á hverju ári fé í íslenzkum krónum fyrir því, sem við fáum sem gjafafé, Marshallfé, og á þann hátt myndast í Landsbankanum sjóður, sem nemur í ísl. kr. öllu gjafafénu, sem við fáum. Þessu fé má ekki ráðstafa nema með samþykki Alþ. og samþykki einhverra fulltrúa frá Bandaríkjunum. Mér finnst, að vel geti komið til mála að verja einhverju af þessu fé — úr jafnvirðissjóðnum. — sem líklega verður upp undir það að ná 100 millj. kr., þegar það er allt komið þar inn, í þessu augnamiði. Það er beint ætlað að verja því til greiðslna á innlendum kostnaði við stofnun nýrra fyrirtækja, og það má segja, að hér sé um slíkt að ræða, hvað landssímann snertir. Þess vegna finnst mér vel geta komið til mála og vil benda hv. fjhn. á það að athuga, hvort það geti ekki komið til mála, að einhver hluti af þessum 2,5 millj. kr., sem ríkissjóður ætti að leggja fram til þessara hluta, ef frv. væri samþykkt, gæti komið á þennan hátt.

Þá talaði hv. þm. Barð. um það, að þó að ég segði, að það kostaði ekki nema sem svaraði 800 þús. íslenzkar kr. í erlendum gjaldeyri það efni, sem til þessara framkvæmda þyrfti að flytja inn á ári, ef þessari áætlun, sem frv. gerir ráð fyrir, ætti að framfylgja, þá gæti það breytzt að upphæðinni, þó að um sama vörumagn væri að ræða. Já, það er nú allt breytingum háð hér í heimi, og jafnvel skoðanir manna geta breytzt frá degi til dags. Og því getur ekki síður það, sem lengra er fram undan, breytzt. En ég benti aðeins á það, hvað þetta gildir með núverandi verðlagi. En þó að það sé ekki nema 300 milljónir, sem við getum flutt inn fyrir á ári, með núverandi verðlagi á peningum, þá hygg ég, að það muni vera auðvelt að flytja inn efni til þessara mjög svo þarflegu framkvæmda, þegar ekki þarf til þess, eins og nú er, nema 0,8 millj. kr., þannig að ég sé ekki, að þetta út af fyrir sig ætti að vera því til fyrirstöðu, að þetta frv. verði samþ.

Ég álít, að þegar búið væri að slá því föstu, sem gert er ráð fyrir með 1. gr., að þetta eigi að gerast á 10 árum, þá sé miklu eðlilegra, að það séu fulltrúar frá þeim mönnum, sem eiga að nota þetta, bændunum sjálfum, sem ákveði, í hvernig röð þetta skuli gert, heldur en það séu fulltrúar frá fjárveitingarvaldinu, eins og hv. þm. Barð. vildi vera láta og benti á form. fjvn. sem annan aðila, sem í nefnd færi með póst- og símamálastjóra í þessu efni. Ef Alþingi fæst til þess að ganga inn á þá stefnu, að á næstu 10 árum skuli ríkissjóður leggja fram 2,5 millj. kr. á ári í þessu skyni, eins og 1. gr. frv. gerir ráð fyrir, þá er það búið að segja sitt álit um málið, faglega séð, og þá leggur Alþ. það í hlut þeirra manna, sem eiga að njóta þess, sem frv. þetta er um, og fagmanna, sem hafa faglega þekkingu, að sjá, hvað sé það eðlilegasta um það, hvernig þetta skuli framkvæmt að öðru leyti, en því, sem lögin ákveða, ef þetta frv. verður samþ. En ég álit, að form. fjvn. sé búinn að segja sitt álit um málið. Þess vegna sé ég ekki að það muni vera til bóta, að breytt væri 4. gr., eins og hv. þm. Barð. talaði um, þó að mér finnist það ekki skipta verulegu máli í þessu sambandi.

Þetta, sem ég hef drepið hér á, mun vera það helzta, sem hv. þm. Barð. minntist á í þessu frv. — Svo bar hann nokkrar brigður á, að þær tölur, sem hér eru nefndar, mundu vera réttar. Í sambandi við það segir póst- og símamálastjóri í bréfi til mín: „Kostnaður við að koma þessum bæjum í símasamband við næstu símastöð er áætlaður 27 millj. kr., og er það miðað við núverandi verðlag. Með núgildandi stofngjöldum, kr. 770,00 á hvern bæ, mundi kostnaður ríkissjóðs verða u.m 25 milljónir kr.“

Þetta segir póst- og símamálastjóri um þetta í bréfi til mín, sem hann skrifar 5. des. 1949, og þaðan eru þessar tölur teknar. Þannig að ef hv. þm. Barð. ber brigður á það og heldur, að það sé einhvern veginn öðruvísi, sem ég hef um þetta sagt, heldur en rétt er, þá, ef svo væri, væri það af því, að þetta væri ekki rétt með farið í þessu bréfi frá póst- og símamálastjóra, þ. e. a. s. skakkt reiknað út af þeim verkfræðingum, sem hafa haft þetta með höndum.

Þá benti hv. þm. Barð. á hitt réttilega, að samhliða því sem notendasíminn yrði lagður, þá þarf sjálft heildarsímalínukerfið í landinu ýmiss konar umbáta við, sem sumar standa í beinu sambandi við það, að notendasímana sé hægt að leggja. Margar langlínurnar eru þannig nú, að ef á að bæta við þær notendasímum að ráði, þá þarf að þetta línurnar og bæta við vírum á línurnar. En þetta tóku þeir til greina, sem hafa reiknað út kostnaðinn af að leggja einkasímana, og þetta er innifalið í þessum 2,5 millj. kr., þéttingin á línunum. Aftur á móti hagar annars staðar þannig til, að það þarf að leggja nýjar línur, og enn fremur má sums staðar búast við, að svo fari, þegar nýir notendasímar bætast við á einhverri stöð, að breyta þurfi venjulegri símalínu í fjölsímalínu, og kannske fá fjölsíma, þar sem áður er einföld stauralína o. s. frv., til þess að hægt sé að anna því aukna álagi, sem búast má við, að verði við það, að notendasímum fjölgi svona mikið. Með þessu er ekki reiknað í því 25 millj. kr. framlagi, sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir. Til eru áætlanir um þennan kostnað, sem verkfræðingar póst- og símamálastjórnarinnar hafa gert, og telja þeir, að hann verði svipaður, eða um 25 millj. kr., ef þessu verður komið í fullkomið lag. Það er hins vegar viðurkennt, að víða megi koma þessari aukningu síma á án þess að auka langlínukerfið. Flm. hafa gert ráð fyrir, að eins og áður verði samhliða auknu álagi dyttað upp á langlínurnar, til þess að vega á móti auknu álagi, en í frv. hafa þeir ekki gert ráð fyrir þeim kostnaði. Hjá þeim kostnaði verður ekki komizt, hvort sem frv. verður samþ. eða ekki, en gefið er, að hann getur dregizt meira á langinn, ef frv. er ekki samþ. og menn hugsa sér að þetta verði framkvæmt á lengri tíma, t. d. 20 árum eða jafnvel 50 árum, ef varið er til þessara framkvæmda ½ millj. kr. á ári, eins og í fyrra.

Ég held, að þegar hv. þm. Barð. athugar þetta í sambandi við það, sem hann sagði um það, hve mikils virði síminn væri fyrir þetta fólk, — hann sagðist þekkja menn, sem fremur mundu kjósa að fá til sín síma en veg, — þá geti hann ekki annað en stutt að því, að frv. verði að l. og nái skjótum árangri.

Ég bið nú n. að athuga, hvort ekki væri hugsanlegt að nota til þessara framkvæmda eitthvað af því fé, sem lagt hefur verið til hliðar í jafnvirðissjóðinn í stað Marshallhjálparinnar, t. d. til þess að standa undir auknum kostnaði við langlínurnar.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að svara hv. þm. Barð. Báðir erum við sammála um, að hér er um brýna nauðsyn að ræða, og ég vona, að hann hjálpi okkur að koma frv. gegnum d. og út í lífið.