12.12.1949
Efri deild: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (3211)

60. mál, notendasímar í sveitum

Gísli Jónsson:

Fyrri ræða mín gaf ekki til efni til að óttast um það, að ég mundi ekki vilja flýta málinu út úr d. En hv. flm. hefur sannað í sinni ræðu, að í frv. er aðeins gert ráð fyrir helming kostnaðar. Það þarf 25 millj. kr. í viðbót við þær, sem frv. gerir ráð fyrir, til þess að leggja línur, er taka við nýjum línum, er lagðar hafa verið um sveitirnar. Frv. er því hálfkarað, og þyrfti að taka upp í 1. gr. ákvæði um þetta, nema flm. hugsi sér aðeins innbyrðissamband milli bæja, án sambands við langlínu. — Þá kom ný hugmynd fram hjá hv. þm., að nota Marshallfé til framkvæmdanna, og athugar n. það að sjálfsögðu.

Út af því, sem hann sagði um tekjur af nýjum símum, þá efast ég um, að þeir geri meira en að standa undir kostnaði. Trúlegt er, að frá flestum bæjum komi kröfur um 2. flokks stöðvar í stað 3. flokks stöðva. Mér er kunnugt um staði, þar sem hægt er að tengja símann beint til verzlunarstaðar og læknis héraðsins, en þá þarf að lengja símatímann úr 2 tímum upp í 6, 7 eða 8 tíma. Þetta hefur auðvitað í för með sér aukinn kostnað, og það er blekking að ímynda sér, að tekjurnar geri meira en að vega á móti útgjöldunum.

Ég er ósammála hv. þm. N-M. að því leyti, að ég tel, að l. geri ekki gagn, nema framlagið sé tryggt á annan hátt, en frv. gerir ráð fyrir. Ef til vill má fá Alþ. til að samþykkja þetta, en það gefur ekkert meira öryggi. Það má samþykkja allt. Það má samþykkja, að það verði sólskin á morgun, og það má samþykkja, eins og gert var á fundi á Egilsstöðum fyrir löngu, að landið sé skuldlaust. Eins og ástandið er nú, er engin trygging fyrir 2½ millj. kr. til þessara framkvæmda á næsta ári, nema fundinn verði nýr tekjustofn eða ýtt verði burt öðrum útgjöldum. Annars verður aðeins um pappírslög að ræða, er ekki koma að neinu gagni, og það vil ég ekki.