12.04.1950
Efri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (3214)

60. mál, notendasímar í sveitum

Frsm. 1. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. var til umræðu hér í d. hinn 30. des. s. l. og var þá vísað til fjhn. Nefndin tók málið fyrir á fundi sínum 1. febr. s. l., og var samþykkt að senda það póst- og símamálastjóra til umsagnar. Litlu síðar barst n. svar hans, sem er dagsett 8. febr. Þá var málið tekið aftur fyrir á fundi í n. 28. febr., en n. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins, og er slíkt ekki óalgengt. Þrír nm. voru á fundi og því löglegur nefndarfundur, en 2 nm. vildu ekki taka afstöðu til málsins, en ég var reiðubúinn til þess og gaf því út nál. dags. 1. marz. Ég gerði ráð fyrir, að er þetta frv. kæmi til 2. umr., hefði eitthvað heyrzt frá öðrum nm. En nú er liðinn langur tími síðan, og er varla að vænta, að nm. skili áliti um þetta mál héðan af, því að tæplega þurfa þeir svo langan tíma til umhugsunar. Ég lít svo á, að það sé skylda nefnda að skila málum af sér. Nm. eru ekki settar neinar reglur um það, hvernig þeir eigi að snúast við málum. Þeir geta verið með þeim eða móti þeim og fylgt þeim skilorðsbundið, en það væri ekki rétt, ef einstakir nm. gætu komið málum fyrir kattarnef með því að skila ekki nál. Á þessum forsendum hefur forseti tekið mál þetta á dagskrá. Það þykir hafa verið beðið a. m. k. hæfilega lengi eftir nál.

Ég legg til í nál. mínu, að frv. þetta sé samþ., enda er ég einn af flm. þess. Ég hef ekki séð ástæðu til að bera fram brtt. við frv., en ég er fús til samninga um vissar breyt. á frv., ef framgangur þess er tryggari við það. — Frv. var sent til umsagnar póst- og símamálastjóra, og er svar hans prentað sem fskj. við nál. mitt. Hann mælir yfirleitt með því, að frv. þetta sé samþykkt.

Eins og menn sjá við lestur frv., inniheldur það tvö meginatriði. Fyrra atriðið felur í sér, að gerð verði áætlun um að koma notendasímum um allar sveitir landsins á næstu 10 árum og leggi ríkissjóður fram 2½ millj. kr. árlega í þessu skyni. Nú eftir gengislækkunina er þessi upphæð orðin of lág, en áætlun þessi er byggð á því, sem áður var. Þetta hefur mætt nokkrum andmælum, að binda ríkissjóði þannig bagga, án þess að nokkrar tekjur komi á móti. Mér virðist tæplega sanngjarnt að krefjast þess um sérstök nauðsynjamál, er fé þarf til að framkvæma, að tekjur komi þar á móti, ef það hefur þá ekki verið gert að almennri reglu. Þetta Alþ. hefur meira að segja bundið ríkissjóði stóra bagga án þess að sjá honum fyrir nokkrum tekjum. Er þar skemmst að minna á það, er Alþingi samþykkti uppbótina á laun opinberra starfsmanna. Þá má hér minna á það, að því meir sem símakerfið dreifist, því meiri verða tekjur landssímans. Þó að ekki verði hægt að framkvæma þá símalagningu, sem frv. gerir ráð fyrir, þá er hér þó sett það takmark, sem ber að keppa að.

Hið síðara meginatriði frv. fjallar um það að gera tilraun til að bæta úr því misrétti, sem er um lagningu notendasíma um einstök héruð landsins. Ég veit t. d., að sumar sýslur hafa fengið notendasíma á hvern bæ, en aðrar á örfáa bæi, og ég skal geta þess, að þær sýslur, sem mest hafa orðið útundan, eru Eyjafjarðarsýsla og Snæfellsnessýsla. Ekki skal ég dæma um það, hvernig þessu er háttað á Snæfellsnesi og hversu mikill áhugi er þar heima fyrir. En ég vil fullyrða, að það er ekki vegna áhugaleysis í Eyjafirði, að sími hefur ekki verið lagður þar, því að þaðan hafa verið sendar beiðnir um notendasíma, og ekki einasta það, heldur hafa verið gefin loforð um. að sími mundi verða lagður í þennan og þennan hrepp, en þau hafa ekki verið efnd. Ég veit ekki, hvað veldur þessu misrétti, því að ekki sýnist vera hér um pólitíska hlutdrægni að ræða. Eyjafjarðarsýsla er framsóknarkjördæmi, en Snæfellsnessýsla sjálfstæðiskjördæmi, en hins vegar hef ég tekið eftir því, að þau héruð, sem hafa átt því láni að fagna að hafa ráðherra eða aðra álíka valdamenn fyrir þm., hafa setið við betri hlut, en önnur héruð, og hægt mundi vera að nefna ákveðin dæmi um þetta. Af þessu er lagt til í 4. gr. frv., að ákvarðanir um símalagningar skuli teknar af nefnd manna, þar sem póst- og símamálastjóri er formaður og 2 menn aðrir, sem telja má eðlilega fulltrúa bændastéttarinnar. Einnig væri hægt að hugsa sér, að n. yrði skipuð öðruvísi, t. d. að 2 menn væru kosnir sérstaklega af Stéttarsambandi bænda, Ég læt eindregið þá von í ljós, að sjónarmið væntanlegrar n. verði hlutlausara og víðara en hjá þeim, sem hingað til hafa ráðið. Þetta er ekki sagt til þess að áfellast á nokkurn hátt póst- og símamálastjóra, því að auðvitað hefur hann ekki verið einráður, hann hefur haft sína yfirmenn úr ýmsum flokkum. — Í 5. gr. er ákvæði um það að hafa hliðsjón með, hvar sé mest vöntun notendasíma í sveitum. Frv. vill, að ekki sé lögð áherzla á að leggja síma á eitthvert afdalakot, heldur um byggðarlög, sem þéttbýl eru og reka landbúnað, en hafa ekki síma. Ég er þó ekki sannfærður um, að allir flm. frv. liti eins á þetta ákvæði, en telji ákvæði 1. gr. höfuðatriðið, en ég tel ákvæði 4. og 5. gr. frv. engu síður mikilsverð.

Ég gerði grein fyrir því í upphafi máls míns, hvernig gangur þessa máls hefur verið hér í d. og fyrir þeim ástæðum, sem forseti hafði til þess að taka málið á dagskrá, þótt álit allra nm. sé ekki komið fram. Gæti það orðið til þess að ýta við öðrum nm. í fjhn. að láta sitt álit í ljós. Ef svo gæti orðið, hef ég ekkert á móti því að taka málið af dagskrá og fresta umr. í nokkra daga, því að sjálfsögðu er heppilegra, að álit frá fleiri hv. nm. en mér einum liggi fyrir, er málið er afgreitt við þessa umr. Ef því fram kæmi ósk um frestun umr., mundi ég fallast á hana, en þó taka málið á dagskrá að nokkrum dögum liðnum.