12.04.1950
Efri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (3215)

60. mál, notendasímar í sveitum

Haraldur Guðmundsson:

Forseti. Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Eyf. (BSt), að meiri hl. n., fjórir hv. nm., hafa ekki tekið afstöðu til þessa máls. Skal ég nú gera mína afsökun varðandi þetta atriði.

Ég vil fyrst lýsa því, að mér þykir það furðuleg óþolinmæði hjá hæstv. forseta, sem er form. fjhn., að taka málið á dagskrá nú, þegar ekki nema hann einn hefur skilað nál. um það og ekki er vitað um afstöðu allra hinna nm. til þess. Ég vil svo taka það fram, að þegar málið var afgreitt úr hv. n., gat ég ekki mætt og því ekki verið viðstaddur afgreiðslu þess. Hygg ég, að öllu þessu athuguðu, að rétt sé að fá málinu frestað nú og halda síðan fund í hv. fjhn. á ný og vita, hvort ekki væri þá hægt að fá málið afgreitt þar á viðunandi hátt. En persónulega finnst mér, að þá þyrfti að liggja fyrir umsögn hæstv. fjmrh. um málið eða hann mætti þar sjálfur að öðrum kosti, til þess að n. gæfist kostur á að heyra hans álit á því.

Um efni málsins skal ég ekki ræða að svo komnu máli, en það kann að vera, að fleiri þyrftu þar að vera með í ráðum um lagningu símans en frv. ákveður. En aðalatriðið er í mínum augum, hvort hægt er og fært að hækka framlagið til þessara mála eins mikið og gert er ráð fyrir í frv. Hér er sem sé lagt til, að 2½ millj. kr. verði árlega varið í þessu skyni, en undanfarið hefur það verið eitthvað nálægt 800 þús. kr. Hygg ég því, að nauðsynlegt sé að fá álit hæstv. fjmrh. um þetta atriði, áður en málið er afgreitt.