12.04.1950
Efri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (3219)

60. mál, notendasímar í sveitum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda á það á þessu stigi málsins, að við þær breyt., sem hafa orðið á gengi íslenzku krónunnar, þá mun sú upphæð, 2,5 millj. kr., sem ríkissjóður þarf að leggja fram árlega, ef tilætlunin er, að verkinu verði lokið á 10 árum, þurfa að hækka upp í 2,8 millj. kr. Og þegar n. tekur frv. aftur til meðferðar, sem ég geri ráð fyrir að gert verði, eftir því sem fram hefur komið, þá vildi ég biðja hana að athuga þetta.

Að öðru leyti vil ég benda á það, að ef þetta frv. nær að verða að l., þá breytist viðhorf bænda ákaflega mikið. Mér virðist, að hv. þm. Barð. og fleiri jafnvel séu hræddir um, að sú n.. sem skipuð yrði eftir 4. gr., mundi verða hlutdræg. Ég er ekki hræddur um, að nokkur hætta sé á því, þegar búið er að slá því föstu, að þetta verði framkvæmt á næstu 10 árum. En hitt er allt annað mál, að ef menn eiga það ævinlega undir högg að sækja, hvort það verða 500 þús., 800 þús. eða 1 millj. kr. eða einhver önnur upphæð, sem veitt verður árlega til þessa verks, og menn vita ekki nema þeir verði að bíða kannske í 40–50 ár eftir því að fá síma, þá eru þeir hræddir um, að hlutdrægni muni verða beitt. Þegar aftur á móti er búið að slá því föstu, að síminn eigi að koma á næstu 10 árum, þá hverfur þessi ótti manna; af því að viðhorfið breytist gersamlega. Ég get til dæmis nefnt bæi vestur í Barðastrandarsýslu, sem þykjast hafa orðið afskaplega afskiptir, þegar nágrannar þeirra fengu síma og þeir einir voru skildir eftir. Ég hef nýlega fengið um það bréf, að hér á að hafa verið beitt hlutdrægni. En ef þessir menn hefðu átt vist að fá síma á næstu 10 árum, þá hyrfi þessi hræðsla um hlutdrægni. Ég tel þetta ákaflega mikils virði, að bændur viti, að einhvern tíma á næstu 10 árum fái þeir síma, svo að þeir láti ekki hugfallast og flýi af jörðum sínum, af því að þeir séu hræddir um að fá aldrei síma. Upp úr þessu legg ég geysilega mikið.

Á annað atriði, sem kom fram hjá hv. þm. Barð., ætla ég að minnast. Hann hefur það eftir símamálastjórninni, að það þurfi 100 millj. kr. til þess að veita notendasímanum útrás. Þetta er mjög mikill misskilningur, sem ég veit ekki, á hverju byggist. Símastjórnin telur þurfa upp undir 25 millj. til breytinga á símakerfinu í sambandi við þennan notendasíma. Sums staðar þarf að gera mjög miklar breytingar á línulagningum, eins og t. d. á Snæfellsnesi, þar sem þarf að gerbreyta sjálfu línukerfinu um allt nesið, ef sími á að koma á hvern bæ þar. Það er tekið með í reikninginn hér. Hitt er annað mál, að byggja þarf símstöðvahús, leggja jarðsíma og fleira, t. d. þarf nýtt hús við Hrútafjarðará og víðar. Allar þær breytingar er búizt við, að kosti upp undir 100 millj. kr., en það stendur ekki í sambandi við notendasíma í sveitum. Þær breytingar, sem þarf að telja á þeirra kostnað fram yfir það, sem hér hefur verið gert, eru breytingar á húsum, borðum og ýmsu öðru, sem símamálastjóri segir, að þurfi að gera vegna notendasímans og geti komizt upp í 25 millj. kr. — Það var sérstaklega þetta tvennt, sem ég vildi taka fram. Fyrst og fremst það, að því verði slegið föstu, að síminn komi á næstu 10 árum. Þá hættum við hv. þm. Barð. að þurfa að vera á hlaupum til póst- og símamálastjóra til að minna á óskir um síma fyrir þennan og þennan hreppshluta á þessu eða hinu árinu. Menn vita þá, eins og áður er tekið fram, að þeir fá símann á næstu 10 árum, og þurfa ekki frekar um það að hugsa. Þetta er að mínum dómi þungamiðja málsins. Það er talað um, að erfitt sé að láta þetta fé og erfitt að slá því föstu nú að hægt sé að láta þetta fé á fjárl. á hverju ári. En ég verð að segja það, að ef vilji er til fyrir því að leysa þörf sveitanna fyrir síma, þá sé það bara ekkert erfitt. Það er nú svo, að hvert mál fer eftir því, sem það er virt, og manni gengur misvel að leysa verkefnin, eftir því hvort vilji er fyrir hendi til að leysa þau eða ekki. Ef vilji er til þess, þá er vel hægt að láta þessar 2,8 millj. kr. Hitt gæti orðið miklu erfiðara, að fá gjaldeyri til þess, sem í þessu tilfelli yrði 1 millj. kr. á ári. Það gæti vel verið, að af gjaldeyrisástæðum þyrfti að framkvæma verkið á 15 árum í staðinn fyrir á 10 árum. Það er spurning, hvernig gjaldeyrismálin verða í framtíðinni. Það er búið að fara þannig með þau mál í heild af þeim, sem undanfarið hafa yfir þeim ráðið. Þetta athugar n. vafalaust líka, þegar hún tekur málið aftur til athugunar.

Því, sem sagt hefur verið bæði um 4. og 5. gr. frv., er form. n. búinn að svara, og ég sé ekki ástæðu til að bæta neinu þar við. Ég skal þó aðeins taka fram eftirfarandi. Ég er staddur austur á Hornafirði rétt fyrir sláttinn. Þar eru þá staddir 5 menn frá landssímanum og þeir eiga að leggja þar síma á nokkra bæi. Efni er komið á staðinn. Mennirnir fara til Reykjavikur án þess þó að leggja símann, en eru svo síðar sendir austur á Hornafjörð til að leggja hann. Þarna var fé eytt að óþörfu. Ég skal taka annað dæmi. Það eru sendir 3 menn tvær dagleiðir til að leggja síma á einn einasta bæ, þó að ekki þurfi að leggja síma á neina bæi þar í nágrenninu. Það veitir því ekki af að setja það inn í frv., sem í 5. gr. er fram tekið, að enn fremur skuli leitazt við að skipuleggja framkvæmdir eftir því, sem hentast þyki fjárhagslega. Það er alveg nauðsynlegt að taka þetta fram, og til þess þarf n. að taka tillit.