17.04.1950
Efri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (3222)

60. mál, notendasímar í sveitum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla fyrst að svara hér nokkrum aths. frá hv. 1. þm. Eyf. (BSt). — Hann gerði þá athugasemd við ræðu mína, að Framsókn væri grýla í mínum augum í hverju máli. Ég fæ nú ekki séð, hvernig það geti talizt grýla, þótt ég sé andvígur því, að það sé lögboðið, að Framsfl. eigi að ráða algerlega einn einhverjum ákveðnum málum. Eins og 5. gr. frv. er nú orðuð, er það sjáanlegt, að meiri hl. n. þar á að vera skipaður framsóknarmönnum, og geta þeir því algerlega ráðið þessum málum og þurfa ekki að taka neitt tillit til þriðja mannsins í n. Það væri alveg eins gott að setja í lögin, að Framsfl. réði einn þessum málum. Hv. þm. sagði, að nú mætti segja, að Sjálfstfl. réði einn þessum málum. Þetta er herfilegur misskilningur. Auðvitað er póst- og símamálastjóri tæknimenntaður maður, en hann verður að bera allar ákvarðanir sínar undir ráðherra, en eins og greinin er nú orðuð, er beinlínis lagt til, að ráðherra skuli framkvæma ákvarðanir þessarar n. Þetta er reginmunur. Ég vænti þess, að hv. þm. taki það ekki sem neinn fjandskap gegn Framsfl., þótt hér sé mælt gegn því, að flokkurinn fái vald til þess að ráða þessum málum einn. Það er mjög óviðfelldið að gefa einum flokki vald til að ráða svona viðkvæmum málum einn, og ég mun aldrei samþykkja það.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að vitanlega yrðu þessir menn ekki endurkjörnir, ef þeir misnotuðu þetta vald eða sýndu pólitíska hlutdrægni. En ég vil bæta því við, að þessir menn hafa einmitt sýnt pólitíska hlutdrægni og verið endurkjörnir samt og e. t. v. af þeirri ástæðu. — Hv. þm. sagði, að það væri sitthvað að vera flokksmaður eða opinber starfsmaður. Það er hægt að segja það, en reynslan ber vitni um annað. Þar hefur oft verið gengið fram á yztu nöf.

Hv. þm. sagði, að hann hefði nú bréf í höndunum, sem sannaði það, að ekki hefði verið sýnd pólitísk hlutdrægni í símalagningum í Eyjafirði. En hv. þm. sagði, að samt hefði verið sýnd hlutdrægni í öðrum landshlutum, en upplýsti ekki, af hvaða ástæðum. Ég óskaði eftir því að fá að vita, hvaða ástæða hefði verið fyrir því, að hlutdrægni hefði verið beitt. Það er ekki nema rétt, að hv. þm. viti, hvaða vald það er, sem sýnir þessa hlutdrægni. Það gæti jafnvel farið svo, að fjvn. færi að skipta því fé, sem ætlað er til símaframkvæmda. Ef hv. forseti d. og form. fjhn. Ed. gæti upplýst, hvað það er, sem valdið hefur þessari hlutdrægni, þá er það mikilsvert. Þá gæti auðvitað komið til mála að skipta símafénu eins og t. d. vegafénu. Þá þarf ekki að saka neina aðila um hlutdrægni í skiptingu fjárins aðra en þingmenn. Ég vil fá ákveðin svör við því, hvaða afl það er, sem hér er að verki.

Hv. 1. þm. N-M. (PZ) var ekki myrkur í máli, er hann lét þau orð falla í sinni ræðu, að það gerði ekkert til, þótt n. sýndi hlutdrægni, og færði þau rök fyrir því, að það væri ákveðið, að sími ætti að leggjast um allar byggðir landsins á næstu 10 árum. Við þetta er nú í fyrsta lagi að athuga, að það er ekki víst, að allir geri sig ánægða með að bíða í 10 ár eftir síma, og því er ekki sama, hverjir verða fyrstir til að fá hann. Í öðru lagi er engin trygging fyrir því, að sími verði lagður á alla bæi á næstu 10 árum, þó að það hafi verið sett í lög. Þá sagðist hv. þm. hafa meðferðis bréf, sem sýndi, að sérstök hlutdrægni hefði átt sér stað í símalagningu í Barðastrandarsýslu. Hann ætti bara að leggja þetta bréf fram, svo að hægt sé að rannsaka þetta mál, því að sjálfsagt er hér að verki sama valdið og hv. 1. þm. Eyf. hefur verið að tala um. En mér er ekki kunnugt um, hvaða vald er hér að verki.

Hann, þessi hv. þm., sagði, að það væri misskilningur, að það þyrfti 100 millj. kr. til að fjölga línunum. Ég hef rætt þetta við póst- og símamálastjóra og hann segir, að ef á að reikna með nauðsynlegri fjölgun á aðallinum, húsbyggingum og öðru, þá er þetta álíka upphæð og hann hefur gefið upp áður. Hv. 1. þm. N-M. benti á, að það væru ekki nein vandræði að finna rúm á fjárl. fyrir 2½ millj. kr. á ári. Það má e. t. v. segja, að þjóðin þurfi ekki að taka á sig miklar fórnir til þess að skrifa 2½ millj. króna á þann pappír, sem fjárlögin eru rituð á, en það þarf meiri fórnir, ef á að framkvæma það. Fjárlögin eru nú þannig, að það vantar tekjur á móti nauðsynlegum gjöldum ríkisins. Fjmrh. er nú að reyna að meta, hvað helzt sé hægt að skera niður af útgjöldum ríkisins. Nú er alltaf matsatriði, hvað sé þarfast og nauðsynlegast og hvað megi helzt skera niður. Ég vil benda á, að það hefur verið deilt um það hér á þingi, hvort hækka ætti þennan lið úr 500 þús. upp í 800 þús., en nú er ætlunin að þrefalda hann og rösklega það. Ég vildi sem form. fjvn. gjarnan taka við ábendingum frá hv. 1. þm. N-M. um það, hvað hann vill fella niður á fjárl. í staðinn, hvort hann vill lækka framlög til sauðfjársjúkdómanna eða jarðræktar. Þetta kostar nú ríkið 5–7 millj. kr. á ári, og ef hægt væri að draga úr þessu, er auðvitað sjálfsagt að setja aðra útgjaldaliði í staðinn. En að ætla sér að setja þessi útgjöld á fjárl. án þess að fella niður önnur í staðinn, er fjarstæða, og fæ ég ekki séð, að málinu sé betur borgið fyrir það. — Úr því að hv. 1. þm. N-M. er kominn inn í d., vil ég endurtaka það, sem ég sagði áðan, að mér væri kærkomið, ef hann léti í té þau gögn um hlutdrægni í símalagningu í Barðastrandarsýslu, svo að hægt sé að taka þetta mál upp, og má þá vera, að hægt sé að rétta hlut þessara manna.