17.04.1950
Efri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (3224)

60. mál, notendasímar í sveitum

Frsm. 1. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég held nú, að hv. þm. Barð. hafi algerlega sannað það, sem ég sagði í ræðu minni hér um daginn, að hann sæi alls staðar grýlur, ef hann heyrði Framsfl. nefndan, og meira að segja væri hægt að segja, að slíkt verkaði á hann eins og rauð dula á vissa skepnu. — Hv. þm. sagði, að eins gott hefði verið að gera ráð fyrir, að miðstjórn Framsfl. úthlutaði símanum, úr því að ráðgert væri, að búnaðarmálastjóri og formaður Stéttarsambands bænda væru í þessari n. En það, sem ég átti við þegar ég sagði um daginn, að stjórn, sem væri að meiri hluta til skipuð sjálfstæðismönnum, mundi ekki kjósa mann sem formann, ef hann sýndi með starfi sínu, að markmið hans með því væri að vinna Framsfl. í vil, var einmitt það, að stjórn sú, sem annar þessara manna er form. fyrir, er að meiri hluta til skipuð sjálfstæðismönnum. Samkv. hugsanagangi hv. þm. Barð., sem hv. 11. landsk. virðist hafa líka, finnst mér eðlilegt, að þeir bæru fram frv. til l. um breyt. á stjskr. í þá átt, að ekki mætti fela framsóknarmönnum nein opinber trúnaðarstörf. Og það veit ég, að er svo augljóst, að ekki þarf fram að taka, að þessir menn eru ekki nefndir í frv. vegna þess, að þeir séu framsóknarmenn (GJ: Einmitt þess vegna.) Því mótmæli ég algerlega, það er ósatt. Þessi ákvæði um nefndarskipunina eru í frv. vegna þess, að þau sýnast eðlileg, en ég gæti vel hugsað mér aðra tilhögun á þessu, t. d. með því að láta Sþ. kjósa n. til að úthluta símanum, eða aðra slíka tilhögun. En þessi skipan, sem er í frv., finnst mér bara eðlilegri. - Hv. þm. Barð. sagði, að ég hefði sagt í öðru orðinu, að beitt hefði verið hlutdrægni um, hvar síminn hefði verið lagður, en í hinu, að ekki hefði verið beitt hlutdrægni. Í framhaldi af þessu kom svo í ljós af því, sem hv. þm. sagði, að hann skilur ekki muninn á almennri hlutdrægni og pólitískri hlutdrægni. Ég sagði, að það hefði verið af hlutdrægni, en ekki pólitískri hlutdrægni, að sími hefur ekki verið lagður meira í Eyjafjarðarsýslu, en raun ber vitni. Hæstv. dómsmrh. kastaði því hér fram áðan, að póst- og símamálastjóri væri framsóknarmaður, og sé ég því ekki ástæðu til að ætla, að frá hans hendi sé þetta af pólitískri hlutdrægni, og get ég raunar ekki séð, hvernig það ætti að geta stafað af pólitískri hlutdrægni, hvort sem um væri að ræða Framsfl. eða Sjálfstfl. Það ætti þá helzt að vera Alþfl. að kenna. Hitt fullyrði ég, að Eyjafjarðarsýsla hefur verið beitt hlutdrægni og rangindum, þó að ekki sé af pólitískum ástæðum. Hv. þm. spurði, af hverju sýslan hefði verið beitt þessari hlutdrægni, en því get ég ekki svarað, því að ég veit það ekki. Ég hef fengið bréf frá póst- og símamálastjóra, þar sem honum verður tíðrætt um efnisskort og annað slíkt, en á sama tíma er verið að leggja síma um næstu sýslur. En hitt veit ég, að þetta verður ekki þolað lengur.

Hv. 11. landsk. kvað það vera einsdæmi, að mál væri afgreitt þannig, að aðeins væri komið nál. frá einum nefndarmanni. Ég minntist á þetta fyrr við umr. og get endurtekið það, að ég tel þá ráðstöfun mína að taka málið á dagskrá alveg rétta, því að ég get ekki meint, að einn nefndarhluti geti stöðvað mál og drepið með því að neita að skila nál. Ég tel það skyldu n. að gefa út nál. og skyldu forseta að taka mál á dagskrá, ef liðinn er mánuður eða meira síðan nál. frá einhverjum nefndarhluta var útbýtt. Í samræmi við þetta hef ég nú tekið málið á dagskrá.

Hv. 11. landsk. (ÞÞ) var að tala um, að þetta frv. mundi, ef að l. yrði, leiða illvígar deilur inn meðal bændastéttarinnar. Þetta tel ég nú ekki rétt, en þótt svo yrði, þá mundi það verða jafnt fyrir því. Nú, að láta þingið ákveða sérstaklega, til hvaða sveita eða héraða veita skuli þennan styrk, getur vel verið rétt og var ég mjög að hugsa um að hafa þann hátt á þessu. En að svo er ekki í frv. er einungis vegna þess, að svo talaðist til milli mín og hinna tveggja hv. flm., að hafa þetta svo. En vel má vera, að hin tilhögunin sé réttari, og verði þetta frv. ekki orðið að l., er fjárl. verða afgreidd, þá mun ég flytja till. um slíka styrki.

Ég var búinn að tala áður við þessa umr., svo að ég get ekki gert nema stutta athugasemd og ætla því ekki að hafa þetta lengra nú, en vil að síðustu fastlega mótmæla því, að fyrir mér hafi vakað með flutningi þessa frv. að koma framsóknarmönnum til valda, og væru það raunar harla einkennileg ákvæði þessa frv., ef svo hefði verið. Fyrir mér vakti aðeins að koma á meira réttlæti í skipan þessara mála, því að ég er fulltrúi annars þess kjördæmis, sem mestri hlutdrægni hefur orðið fyrir. Fulltrúi hins kjördæmisins hefur undanfarin ár verið sjálfstæðismaður, og væri það því einkennileg afstaða hjá mér, ef fyrir mér vekti ekki annað en pólitísk sjónarmið, að sækja jafnframt mál þeirrar sýslu.

Ég vona svo, að ef þetta mál nær ekki fram að ganga, þá beiti hv. þm. Barð. áhrifum sínum, því að hann er mikill valdamaður í fjármálum landsins, í þá átt, að réttur verði hlutur þeirra, sem mestum rangindum hafa verið beittir undanfarin ár í þessum efnum.