21.04.1950
Efri deild: 92. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (3233)

60. mál, notendasímar í sveitum

Frsm. 2. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er stutt aths. Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) hefur stundum verið rökfastari og farið réttar með í málaflutningi sínum, en nú. Hann sagði, að hér væri um embættismenn að ræða, sem láta ætti í þessa n. eftir frv. Búnaðarmálastjóri er að vísu embættismaður. En formaður Stéttarsambands bænda hef ég ekki heyrt, að væri talinn sérstakur embættismaður, því að hann er kosinn bara fyrir vissan tíma í senn og tekur ekki laun úr ríkissjóði og er því ekki frekar embættismaður en t. d. Sigurður Guðnason alþm., form. Dagsbrúnar, — það er mjög skylt, því .að hann stendur þarna fyrir félagi, — eða þá Helgi Hannesson, forseti Alþýðusambandsins. En aftur er tekinn þarna sjálfsagður réttur af embættismanni, og þeim embættismanni, sem fyrst og fremst á að skipta sér af þessum málum og er jafnvel valinn af Alþ. í þetta og af símamálarh. sjálfum. Eftir frv. skilst mér, að ef símamálastjóri á eitthvað að koma að þessu, þá sé það aðeins til þess að staðfesta það, sem nm. gera. En Alþ. hefur komið sér saman um það við stjórnarmyndun að fela þessum manni æðstu yfirstjórn símamálanna, og tilgangur frv. í þessu er í raun og veru sá, að taka starfið af æðsta embættismanni þessara mála og draga hann út úr því og fela það manni, sem er alls ekki embættismaður. Ég segi ekki, að maðurinn sé verri fyrir því, þó að hann sé ekki embættismaður. En því vil ég beina til hv. þd., að ég tel vafasamt, hvort á að telja það þinglegt í raun og veru, a. m. k. af þeim, sem styðja núverandi ríkisstj., að taka réttinn af ákveðnum embættismanni, eins og gert er hér ráð fyrir með þessu ákvæði, embættismanni, sem falið er þetta starf sem ráðherra, völdum af Alþingi. Þess vegna getur þetta ekki gengið öðruvísi — ef á að kjósa til þessa starfs tvo menn — en að þeir inni það af hendi einnig ásamt póst- og símamálaráðherra. Annars verður nefndarskipun þessi mjög andkannaleg og hlutdræg. (BSt: En ef póst- og símamálaráðherra er Framsóknarfl.-maður?) Ef hann fær sína stöðu hjá Alþ., er ekkert við því að segja. En reyndin er, að þetta er bundið við menn, sem eru þó falin trúnaðarstörf, en þessi maður er þó ekki embættismaður, eins og hv. 1. þm. Eyf. (BSt) deildi um. Annars þýðir ekki að deila um þetta, það verður að skeika að sköpuðu.

Ég býst við, að nú hnígi ég í valinn og megi ekki segja meir í þessu máli.