21.04.1950
Efri deild: 92. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (3236)

60. mál, notendasímar í sveitum

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal stytta mál mitt mjög. En ég harma, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera viðstaddur þessar umræður, eftir því sem hann hefur talað um fjárhagsástandið. Mig furðar á því, að hann skuli láta það afskiptalaust, ef hér á að binda í lögum 2½ millj. kr. framlag með þessu frv., sem hér er til umræðu. Það hefur ekki verið bent á tekjuöflun til að mæta þessu, en útgjöldin, sem ákveðin eru með frv., eru þrefalt hærri en tekið er upp í frv. hæstv. ríkisstj. Ég veit ekki nákvæmlega, hvernig hlutfallið er milli framlags notenda og framlags ríkissjóðs til þessara mála. Ég hygg þó, að ekki sé fjarri lagi, að á undanförnum árum hafi þetta hlutfall verið eins og einn á móti átta. Það er að segja, á móti hverjum þúsund krónum, sem menn hafa lagt fram til þess að fá síma heim til sín, hafi þurft að greiða átta þúsund úr ríkissjóði. Ég verð því að endurtaka það, sem ég sagði fyrr í þessum umræðum, að mér finnst ákaflega mikillar einsýni gæta í flutningi þessa máls og baráttunni fyrir því hér í þessari hv. d. Þess er ekki að dyljast, að með sömu fjárhæð og hér um ræðir má bæta úr þörf margfalt fleiri manna en um er að ræða í þessu frv. Menn eiga að leggja mesta áherzlu á að bæta sumar af aðallínum landsins, enn þá meiri, en að koma símanum út í strjálbýlar sveitir, eins og hér er gert ráð fyrir. Það er að vísu æskilegt að koma símanum á svo til hvern einasta bæ um landið allt. En ég þekki ekki eitt einasta land, sem hefur náð þessu marki, og er þó ólíku saman að jafna, hvað fjarlægðir strjálbýlisins snertir. Hitt er víst, að með því að teygja svona netið eykst rekstrarkostnaðar landssímans miklu meir, en tekjustofninn, sem af þessu leiðir. Ég verð því að segja, að mig furðar stórlega á þessu, sérstaklega þegar þess er gætt, að Alþingi hefur á undanförnum árum samþykkt, að lagt yrði fram eins mikið fé til þessara mála úr ríkissjóði og hægt er að ætlast til.

Ég flyt engar brtt. við frv. að þessu sinni, en vil benda á ákvæði 2. gr., þar sem segir, að hvað sem tautar og raular, skuli taka inn í innflutningsáætlun hvers árs nægilegt magn af símaefni til þess að fullnægja ákvæðum þessara laga. Þetta er fjarri lagi, að taka einar lögboðnar framkvæmdir út úr og lögbjóða, að hvað sem öllu liði, skuli aldrei minna til þeirra veitt, en tiltekið er í þeim sérstöku lögum. — Ég vil segja það um brtt. hv. 2. minni hl., að ég mun greiða atkvæði með þeim báðum. Ég tel þá skipun, sem n. leggur til í sambandi við 4. gr., fjarri lagi. Það er Alþingis og ríkisstjórnarinnar að taka ákvarðanir um það, hvernig þessu fé er skipt. Að skipa n., sem er einráð í þessum efnum, finnst mér fjarri öllu lagi.

Ég skal svo ekki eyða að þessu fleiri orðum.