28.04.1950
Efri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í C-deild Alþingistíðinda. (3263)

60. mál, notendasímar í sveitum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að leiðrétta það hjá hv. 1. þm. Eyf. (BSt), þar sem hann fullyrti, að ég gæti ekki fylgt neinu máli á hv. Alþingi nema í pólitísku skyni og skoðaði mál einungis út frá hinni pólitísku hlið. Ég tel, að hv. þm. hafi enga ástæðu til að bera þetta fram, og væri gaman að vita, hvaða ástæðu hann hefur til þess, og vona ég, að hann endurtaki þessi ummæli sín. Raunar veit ég, að þetta hefur ekki verið hans meining, þótt orðin hafi komið svona frá hv. þm.

Þessi hv. 1. þm. Eyf. sagði, að ekki yrði allt í óvissu um lagningu síma í sveitum, ef þetta frv. yrði að lögum. Ég verð að segja það, að ég veit ekki, hvernig hv. þm. ætlar sér að tryggja þetta, nema hann fengi þessi lög um sveitasíma sett inn í stjskr. Eða hvernig ætlar hv. þm. að tryggja það, að þessi lög verði ekki svikin, þ. e. a. s., það þyki ekki mögulegt að framkvæma þau? Hafa ekki stundum verið sett lög, sem ekki hafa verið framkvæmd, af því að fé hefur ekki verið til? Þetta frv., þótt að lögum yrði, er einnig hægt að svíkja. Og hvaða trygging er þá fyrir því, að sveitasími verði lagður um allt?

Ég tel vafasamt, að hlutfallstala eigi að ráða, hvert sími er fyrst lagður. Það er einmitt mjög athugavert, hvort ekki eigi fyrst að leggja síma á afskekktustu staðina, ef þar á að hafa byggð á annað borð. Fátt er meira öryggi en hafa síma á afskekktum bæjum. Þá væri eðlilegt að leggja þangað síma fyrst, en illu heilli hefur þessi stefna ekki verið tekin upp. Auðvitað yrðu þá þéttbyggðar sveitir, eins og Eyjafjörðurinn, að bíða. En það er ekki víst, að símamálunum þoki nokkuð betur áleiðis, þótt þetta frv. verði samþ. — Það er langeðlilegast, að símamálin hvíli í höndum landssímastjóra og ráðherra, nema Alþingi vilji hafa á sinni hendi sjálft úthlutunarvaldið, enda getur Alþingi í hvert skipti gert samþykktir þar aðlútandi. — Hv. 1. þm. N-M. tók í sama streng, að fyrir sér vekti ekki annað, en það að koma síma út um héruðin. Hann hefði engu lofað í kosningunum í haust og þyrfti því ekkert að svíkja og því vekti ekki fyrir sér nein pólitísk hlutdrægni. Ég, er nú hræddur um, að þetta sé ekki alveg rétt hjá hv. þm. Gaman væri að geta sýnt ljósmynd af bréfi, sem hv. þm: skrifaði kjósendum sínum á s. l. hausti, og virðist það ekki vera nákvæm staðfesting á því, sem hv. þm. hélt hér fram í d. En ekki fer ég frekar út í þetta.

Hv. 1. þm. Eyf. hefur jafnan blandað því saman, að ég hafi gagnrýnt afstöðu hans að taka málið á dagskrá, en það hef ég alls ekki gert, heldur tel að forseti hafi haft fulla heimild til þess, og svo hins vegar, að hv. þm. sem form. fjhn. hefur ekki uppfyllt það loforð, sem hann gaf í ræðu og er hans skylda, að ræða málið við ráðherra, og þess vegna hefur hv. þm. ekki gefið upplýsingar um, hvaða álit ráðherra hefur á þessu frv. En það hefur komið fram í ræðu hv. frsm. minni hl., að hann hefur persónulega rætt við ráðh., en alls ekki skýrt n. frá, hver afstaða ráðherrans er gagnvart 2½ millj. kr. útgjöldum ríkisins árlega á næstu 10 árum til símamála: Við eigum kröfu á því að fá að vita, hvert er álit ráðherrans á þessu máli, og ég vil ekki, að hv. þm. blandi þessu saman; heimild hans til áð taka málið á dagskrá, sem ég hef ekki gagnrýnt, og hins vegar vanefndum hv., þm. á að gefa upplýsingar um álit ráðherra, sem ég hef mjög gagnrýnt. Forseti hefur haft fullan rétt til að taka málið á dagskrá, en jafnframt ber honum sem formanni fjhn. að ræða við hæstv. ráðh. og gefa d. skýrslu um álit ráðh. En mér er kunnugt um álit ráðherrans, og er hann andvígur því að taka þessa fjárhæð inn á fjárlög, og hvaða þýðingu hefur það þá að samþykkja þetta frv.? — Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að ráðherra ætti ekki að ráða lögum eða segja d. fyrir verkum, heldur ætti hann að hlýða því, er hv. Alþingi samþykkti eða færi fram á. En veit ekki þessi hv. þm., að það er alltaf samvinna á milli meiri hluta Alþingis og ríkisstj:, þegar hún er studd af meiri hluta Alþingis? Og minnist ég hér nokkuð oft samþykktar á l., þar sem hv. 1. þm. Eyf. hefur lýst yfir í atkvgr., að hann væri andvígur bæði að innihaldi og stefnu, en segði já við þeim, því að hans flokkur eða stjórn vildi hafa það svo. Er þar skemmst að minnast afgreiðslu l. um dýrtíðarráðstafanir, er þau voru afgreidd, ekki síðast, heldur þar áður: En þetta vill hann nú ekki afgreiða í samræmi við fyrri gerðir, heldur stritast hann við að koma því hér í gegn. Að vísu er þetta gott agitationsmál í sveitum, en hv. flm. vita bara, að það er ekki hægt að gera það að veruleika. Hér bisast því hv. 1. þm. Eyf. að koma máli í gegn, sem er í andstöðu við vilja þeirrar hæstv. ríkisstj. sem hann þó styður.

Þetta er svo ólíkt öllum fyrri störfum og athöfnum hv. 1. þm. Eyf., að ég undrast þetta mjög.

Hv. 1. þm. Eyf. sagðist mundu hafa gaman að því að sjá till. fjvn. um skiptingu. fjár til ýmissa verklegra framkvæmda í landinu, og mér skildist, að hann byggist ekki við meira réttlæti þar, en hann hefur lýst að hafi verið haft í frammi gagnvart Eyjafjarðarsýslu í þessum símamálum, undanfarin ár. Nú vil ég segja honum það, að það að skipta þessu fé er of mikið vandaverk til þess að það sé á mínu færi eða annarra hv. fjvn.manna að gera það svo, að það sé hafið yfir alla gagnrýni og að öllum geti líkað. En það vil ég segja í sambandi við þessa gagnrýni hv. þm. á fjvn., að þar koma til greina tvö sjónarmið. Það fyrra, hvort eigi að láta þau héruð, sem setið hafa að feitu undanfarin ár, hafa sín framlög áfram, eða hvort eigi nú að veita fé til þeirra, sem haft hafa miður. En Eyjafjarðarsýsla er einmitt eitt af þeim héruðum, sem setið hafa við, háborðið hvað þetta snertir. Þetta veit hv. þm., og það snertir hann kannske vegna þess, að ekki hefur verið látið eins mikið fé ganga til framkvæmda í Eyjafjarðarsýslu á undanförnum árum einmitt vegna þess, að búið var að veita svo miklu þangað áður. En hv. þm. virðist hafa augun meira á því, sem vantar, en því, sem látið hefur verið þangað áður. Þetta svar vildi ég gefa hv. þm. varðandi fjvn.Hv. 4. þm. Reykv. (HG) spurði, hvers mætti vænta um framlög til annarra verklegra framkvæmda og hvort þau yrðu aukin í sömu hlutföllum og til þess, sem hér um ræðir til annarra framkvæmda í dreifbýlinu. Ég get nú ekki svarað þessu fullkomlega á þessu stigi málsins, því að það er ekki alveg búið að ganga frá þessu. En ég get þó upplýst, að það er samkomulag um, að til vega og brúa verði veitt upphæð að krónutölu til nokkurn veginn sama og verið hefur undanfarin ár, svo að til þessara mála er ekki veitt hlutfallslega eins mikið og til sveitasímanna. Þetta er ekki gert vegna þess að þörfin sé þar mikil, heldur vegna þess, að það þarf svo stórar fjárfúlgur til þess að bæta þar eins vel úr og hægt er að gera með framlaginu til sveitasímanna, þó að auðvitað sé ekki nauðsynlegt að leggja sveitasíma inn á hvert býli. Hins vegar er það mín skoðun, að nauðsynlegt sé að leggja síma þar, sem strjálbýlt er, og þeim mun nauðsynlegra, því afskekktari sem bærinn er og því meiri sem vegalengdir eru á milli bæja. Þetta sýnist mér nauðsynlegt vegna öryggis þess fólks, sem þarna býr. En þessi stefna hefur ekki ráðið í þessum málum, og hefur þess kannske ekki verið að vænta, því að það kostar auðvitað tiltölulega meira fé, þegar það er fátt fólk, sem nýtur símans, og svo hefur þar, sem meira er þéttbýli, verið sátt fast og meira á um, að þau héruð dragist ekki aftur úr hlutfallslega. En það segir sig sjálft, að fyrir fólk, sem þannig er sett, að það er kannske allt í senn, brúa-, vega- og hafnalaust, er meiri nauðsyn á að leggja síma heldur en þar, sem þéttbýlt er og þessar aðstæður eru fyrir hendi.

Í sambandi við önnur mál hef ég ekki orðið var við, að ætlazt, væri til aukinna fjárframlaga nema sem nauðsynleg eru vegna gengisbreytingarinnar og svo til þess að uppfylla ýmis lagafyrirmæli frá undanförnum árum, svo sem styrkur til sjávarútvegsins vegna síldveiðanna, en ekki almenn hækkun á framlögum umfram það, sem verið hefur undanfarin ár. — Þetta hefur mér þótt rétt að láta koma fram. Hins vegar getur auðvitað verið, að fjárl. verði breytt bæði við 2. og 3. umr., og þætti mér ekki ólíklegt, ef þetta mál nær það langt, að telja mætti víst, að taka yrði 2½ millj. kr. í stað einnar millj. upp á fjárlögin, að þá kæmu hækkunarkröfur annars staðar frá. Yrði það þá einungis til að spilla málinu að þvinga svo mjög fram framlög til þess, að annað þyrfti þess vegna að sitja á hakanum og yrði af þeim sökum vanrækt. Af þessum ástæðum mun ég ekki hika við að vera í andstöðu við þetta mál, en hins vegar mun ég stuðla að því, að tekið verði á fjárlög eins mikið og hægt er til sveitasímans á hverjum tíma.

Ég tel nú rétt, af því að hv. 1. þm. N-M. er kominn í d., að endurtaka þau orð, sem ég lét falla áðan í sambandi við það, sem hann sagði, að hann væri ekki einn af þeim, sem alltaf væru að lofa, en svíkja svo sín loforð. Í sambandi við þetta hefði ég gaman af að birta ljósmynd, sem ég sá af bréfi, sem hann skrifaði og sendi einum kjósanda sínum fyrir síðustu kosningar. (PZ: Ég hef aldrei lofað neinu).