12.12.1949
Efri deild: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (3277)

61. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir) :

Herra forseti. Hér er, eins og segir á þskj. 86, um breyt. á skattal. að ræða, og er samkv. 1. gr. um að ræða breyt. á 10. gr. núgildandi skattal., sem stefnir í þá átt að gera konum, sem vinna utan heimilis, auðveldara með að geta unnið utan heimilis síns án þess að komast svo hátt í skattstiganum eins og verið hefur undanfarið. Sem sagt, í staðinn fyrir það, sem lagt hefur verið til hér á þingi um þetta áður, er nú hér lagt til, að fyrir hjón, þar sem konan vinnur utan heimilis, fáist frádráttur frá skattskyldum tekjum, sem nemi þeirri upphæð, sem gengur í kostnað vegna heimilisstjórnar vegna þessarar vinnu konunnar. Þessi frádráttur er talsvert hærri heldur en gert er ráð fyrir í 10. gr. skattal., en þar segir: „Frádráttarbær kostnaður við heimilisstjórn má þó ekki fara fram úr lögleyfðum frádrætti vegna eiginkonu, samkvæmt 12. gr.“ En sá lögleyfði frádráttur er nú 900 kr., þ. e. a. s. 2700 kr., þegar búið er að umreikna skattinn. Það er ekki hægt að segja nákvæmlega, hver séu talin laun ráðskonu á heimili. Þau eru einhvers staðar á milli 500 kr. og 1.000 kr. á mánuði, og mun vera algengt, að þau séu 700 kr. Það mætti því ganga út frá því, að sá frádráttur, sem er leyfður í þeim tilfellum, sem hér er gert ráð fyrir, eins og nú er samkv. gildandi l., væri einn þriðji hluti á móti því, sem hér er í þessu frv. gert ráð fyrir. En þess er að gæta, að hver sá, sem hefur ráðskonu eða hjálparstúlku á heimili sínu, ber af því miklu meiri kostnað, en laun hennar ein. Og hefur mér reiknazt, að ef laun ráðskonu eða stúlku eru t. d. 700 kr., þá mundi það verða helmingur þess kostnaðar, sem hlýzt af því að hafa ráðskonuna á heimilinu.

Það hafa einkum í seinni tíð, þegar konur hafa meir en áður farið út á hinn frjálsa vinnumarkað, valdið miklum vandkvæðum einmitt þau ákvæði skattal., sem gera það að verkum, að þegar hjón eru skattlögð saman samkv. skattal., þá verður það þannig, að laun annars hjónanna fara venjulega alveg í kostnað af þessu, þ. e. a. s. í aukaskatt og kostnað við heimilisstjórn. Af þessu verður margs konar óréttlæti, m. a. það, að þjóðfélagið missir fyrir þetta oft vinnukraft, sem því annars væri hagur að, að hafa og það telur sér hag að, að hafa í sinni þjónustu, en unnið er óbeint með þessum skattal. á móti að verði notaður í þess þágu sem skyldi. Og auk þess eru þetta talsverðar hömlur á frjálsræði manna, að eiginlega er kona, sem er gift, nauðbeygð til að vinna sín heimilisstörf, fremur en að vinna þau störf, sem hún hefur vanizt við og ætlað sér að hafa að lífsstarfi sínu.

Ég játa, að það, sem hér er gert ráð fyrir samkv. 1. gr., er engan veginn full bót á þessu. Það er ofur lítil hjálp, en ekki meira. Og ég játa einnig, að það eru margar konur aðrar en þessar konur, sem einnig ættu að fá þessi hlunnindi. En það var til þess að víkka ekki sviðið of mikið, að ég taldi réttast á þessu stigi málsins að fara ekki út í fleiri atriði en þetta, bara vegna þess, að það er þá dálítið erfitt að vita, hvar á að draga línuna, svo að mér þótti hentast að draga hana þannig að miða við þær konur, sem vinna utan heimilis. En ég játa fyllilega, að þetta er ekki full bót, hvorki fyrir þær konur, sem vinna utan heimilis, og ég viðurkenni það jafnframt, að margar aðrar konur mættu hljóta sömu fríðindi og hér er gert ráð fyrir, en ég sé bara í bili ekki nein ráð til þess að fá það fram, þannig að ekki færðist þá meira úr skorðum. En nú eru skattal. í endurskoðun, og mun búið að endurskoða þau svo, að bráðlega má líklega vænta nýs skattalagafrv. fyrir Alþ. Og þá væri rétt að taka enn fleira til athugunar þessu viðkomandi.

Um 2. gr. er það að segja, að hér er um almennt réttlætismál að ræða, að gera persónufrádráttinn hærri, en hann hefur verið. Það hefur valdið miklum óþægindum og miklu óréttlæti, hvað persónufrádrátturinn er lágur.

En þetta er ekki mikil hækkun, sem hér er farið fram á. En þegar búið er að umreikna, kemur þetta öðruvísi út, og þetta er dregið frá hinum umreiknuðu tekjum.

Í 3. gr. er gert ráð fyrir því, að þessi lög, ef samþ. verða, komi til framkvæmda við álagningu skatts árið 1950. Mér er sagt, að það sé ekki óalgengt, að gert sé ráð fyrir slíku sem hér er gert ráð fyrir í þessu efni, og legg ég þetta því til með 3. gr.

Ég veit, að hv. þdm. er fyllilega ljóst, hvað hér er farið fram á, að þetta er sem sagt bara lítil úrbót. Og þegar væntanlega kemur fram frv. til nýrra skattal., gefst tóm til þess að athuga málið nánar og á breiðari grundvelli.

Ég hygg svo, að þetta mál, að lokinni þessari umr., muni eiga heima helzt í fjhn., og geri að till. minni, að því verði vísað þangað.