17.02.1950
Efri deild: 57. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (3291)

68. mál, almannatryggingar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara almennt út í málið, enda er það margrætt hér í d., svo að ég þarf ekki mikið um það að segja. Eins og frv. er, þá er ætlazt til þess, að stofnað verði nýtt embætti, og raunar upplýst í grg., að það sé búið að stofna það, en þar sem samþ. var á síðasta þingi, að ekki væru stofnuð ný embætti nema með leyfi fjmrh., þá hefði mig langað til að spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann hefði gefið samþykki sitt á þessu, en hann er ekki við, svo að ég verð að spyrja stólinn og fæ líklega ekkert svar.

Viðvíkjandi 3. gr. vildi ég beina því til hv. n., hvort ekki megi notast við þann 1æknadóm, sem til er og í eiga sæti valinkunnir læknar, þeir Vilmundur Jónsson landlæknir, dr. Helgi Tómasson yfirlæknir og Guðmundur Thoroddsen prófessor, og sleppa því alveg að búa til þennan nýja dómstól. Ég skil ekki annað en hægt sé að nota þann dóm, sem fyrir er.

Þá flyt ég brtt. við 8. gr., en í gr. er ætlazt til, að menn þurfi að hafa verið búsettir í sveitarfélaginu í 5 ár til að öðlast réttindi skv. gr. Þetta tel ég óviðkunnanlegt, að hefta þannig frelsi manna og taka af mönnum réttindi, þótt þeir flytji búferlum. Þetta miðar aftur á bak í áttina til átthagafjötra, og vil ég því fella endi gr. niður, en til vara ber ég fram þá till., að viðkomandi hafi búið 2 ár í sveitarfélaginu til þess að fá réttindin.

Þá flyt ég við 13. gr. brtt. um það, að ef kona á fleiri en eitt barn, þá vil ég láta mæðralaunin vera háð sömu lögum og barnalífeyri, þannig að hægt sé að krefja þau inn hjá barnsföður konunnar. Ég hef því lagt til, að við gr. bætist ný málsgrein, sem felur þetta í sér. Ég hef að vísu heyrt talað um það, að þessu fylgi vandkvæði, þar sem mæðralaunin séu mishá á 2., 3. og 4. barn o. s. frv. og erfitt mundi að fá þau handa konum, sem eiga mörg börn sitt með hvorum. En ég fæ ekki séð þau vandkvæði, því að ég hef aldrei heyrt dregið í efa, hvert væri 2., 3. eða 4. barn, sem kona á. Það held ég sé alveg greinilegt, og því finnst mér alveg sjálfsagt að hafa þetta eins og barnsmeðlögin. Við 16. gr. vil ég breyta 52 vinnuvikum í 104 vinnuvikur og geri ég þetta til þess að létta undir með hvers konar smáatvinnurekstri. Ég tel þessa till. alveg sjálfsagða og býst við, að hv. þm. geti fellt sig við hana.

Nú er komið fram í febrúar, og þó að frv. verði samþ. hér fljótlega, þá á það eftir að fara í gegnum Nd., svo að trúlega verður langt liðið vetrar, þegar frv. verður að lögum. Það er því ómögulegt, að fyrir 1. júlí verði hægt að stofna alls staðar sjúkrasamlög, þar sem engin eru fyrir. Ég hef því lagt til, að í stað 1. júlí komi 1. október. Það mun þó líklega fullsnemmt og spursmál, hvort ekki er bezt að miða þetta bara við næstu áramót. Þó að þessi tímaákvörðun, 1. júlí, ýti kannske á eftir málinu, þá er hún ekki heppileg og betra, að 1. okt. 1950 sé valinn. Bæði eru festir hinir almennu hreppsbúafundir haldnir á haustin og auk þess miklu betri tími til sérstakra fundarhalda, ef ekki reynist hægt að stofna samlögin á einhverjum hinna föstu funda. Og raunverulega hef ég enga trú á, að málið verði afgreitt að vorinu. Þá vil ég benda á, að ég tel þörf á að breyta 24. gr., þó að ég hafi ekki borið fram brtt. við hana, en það er vegna þess, að mér hefur verið sagt, að n. hafi slíka breyt. í undirbúningi. Ég tel það alveg fráleitt, að skattanefndirnar séu sá aðili, sem hefur úrslitaorðið, hvort tekjum manna sé þannig háttað, að sveitarfélagi beri að greiða iðgjald hans. Helzt tel ég, að þetta úrskurðarvald ætti að liggja hjá aðilum, sem ekki eru í viðkomandi sveitarfélagi. Sömuleiðis er athugandi, hvort ekki ætti að vera réttur til málsskots í sambandi við þennan úrskurð.

Brtt. minni við 30. gr. er ætlað að auðvelda framkvæmd í sambandi við skrár þær, sem 118. gr. l. gerir ráð fyrir. Mér skilst, að eftir núverandi ákvæðum frv. sé gert ráð fyrir, að tvenns konar skrár verði gerðar, það er að segja önnur um þá, sem gjaldskyldir eru, en hin svo eftir að gjöldin hafa verið ákveðin. Þessu vil ég breyta á þá leið, að fyrrnefnd skrá verði gerð í tví- eða þríriti, en síðan verði iðgjöldin færð inn á skrána af þeim, sem þann útreikning annast, og síðan verði skráin þannig útfyllt send bæði innheimtumanninum og Tryggingastofnuninni. Þetta tel ég, að ætti að geta sparað nokkra fyrirhöfn.

Ég hafði tilhneigingu til að flytja fleiri brtt. við frv., sérstaklega þau ákvæði þess, sem sniðin eru með það fyrir augum að styðja að lausaleikskrökkum og lausaleik milli karls og konu, þar sem ógiftar konur hafa hærri barnalífeyri, en þær giftu. Hins vegar hef ég ekki flutt slíkar till., vegna þess að ég hef heyrt, að n. sjálf hefði slíkar breytingar í undirbúningi, og ætla því að sjá til, hvort till. um jafnræði milli giftra kvenna og ógiftra í þessu máli kemur ekki fram. Ég geymi því að koma með brtt., þar til útséð er um, hvort n. ber slíka till. fram, en vil endurtaka það, að ég tel fráleitt að hónorera lauslæti í öllum myndum, eins og ýmsir lagabálkar hér frá Alþingi hafa gert síðustu árin.

Ég held ég hafi svo ekki fleiru við að bæta að þessu sinni. Ég er enn með því að breyta tilhöguninni á greiðslum til trygginganna þannig, að nokkur hluti þeirra verði lagður á tekjur, því að ég tel það réttlætismál. En þar sem allar slíkar till. hafa verið drepnar hér á Alþingi til þessa, hef ég ekki flutt brtt. í þá átt, en er hins vegar tilbúinn að fylgja slíkum till., ef breyting hefði orðið á vilja þm. í þessu efni.