17.02.1950
Efri deild: 57. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (3294)

68. mál, almannatryggingar

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hv. frsm. heilbr.- og félmn. hefur nú talað hér í annað sinn og yfirleitt mælt á móti þeim brtt., sem fluttar hafa verið hér af einstökum þm., og ráðlagt hv. d. að fella þær flestar. Það gildir einnig um þær brtt., sem ég hef flutt hér, að hann hefur mælt í gegn þeim öllum og óskað eftir því, að þær væru ekki samþ. Hins vegar hafa þau rök, sem hann hefur flutt fram fyrir þessari ósk sinni, yfirleitt verið á þann veg, að ég get ekki á þau fallizt og tel þess vegna ástæðu til þess að fara um þau nokkrum orðum. Viðvíkjandi fyrri brtt. á þskj. 329 þarf ég þó ekki að vera fjölorður. Hv. frsm. benti á það, að jafnframt því sem ég flytti brtt. um að náð yrði því samræmi, sem þar er um að ræða á milli ekkna og fráskilinna kvenna annars vegar og ógiftra mæðra hins vegar, og ég flytti till. um að auka rétt ógiftra kvenna, þá legði hv. þm. Barð. fram till. um, að þessi réttur yrði verulega rýrður. Og mér skildist, að hv. frsm. drægi þá ályktun af þessu, að þá væri það nokkurn veginn rétt meðalhóf, sem felst í frv., um að ná samræminu á þann hátt, sem þar er lagt til. Ég tel þetta ekki sterk rök út af fyrir sig. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að ég tel, að það sé mjög fráleit skoðun og fráleit túlkun, sem haldið er fram í sambandi við þetta, og sérstaklega af hv. þm. Barð., að með þessu sé Tryggingastofnunin að veita einhverja sérstaka og þá ríflega meðgjöf með þeim konum, sem í því og því tilfelli væru að gifta sig. Það er síður en svo, að þetta sé nokkur meðgjöf með konum. Eins og allir hv. þm. vita, er þarna um að ræða barnalífeyri, þ. e. a. s. fé, sem nota á til þess að létta undir með uppeldi barnanna, en alls ekki um að ræða nokkurt framfæri konunnar. Og ég held, að uppeldi barnanna sé svo þýðingarmikið mál, að það sé síður en svo nokkuð athugavert við það, þó að Tryggingastofnunin, úr því að hún starfar og menn eru sammála um, að hún sé nauðsynleg stofnun, á þennan hátt greiði fyrir því, hvort sem það er ekkja eða ógift móðir, sem er með fleiri eða færri börn á sínu framfæri og síðan giftist, að uppeldi barnanna sé tryggt betur, en ella mundi. Og þetta gildir því fremur, ef menn vilja halda sér við það dæmi, sem hv. þm. Barð. hefur lagt hér fram, ef börnin eru fleiri, allt upp í 10 eins og hann talaði um, því að sá maður þyrfti að hafa meira en meðaltekjur, a. m. k. vinnandi maður, ef honum ætti að vera kleift aðeins af launum sínum að framfæra þessi tíu börn, sem hann í því tilfelli tæki að sér með konunni. Ég held, að það ætti að vera augljóst, að í svona tilfellum ætti að vera þörf á því — og það mikil þörf —, að sá maður, sem þannig giftist, héldi þeim lífeyri, sem þeim börnum væri ætlaður til framfæris, og það því fremur sem vitað er, að þessi lífeyrir, eins og annar lífeyrir samkv. tryggingal., er alveg ófullnægjandi til þess að framfleyta þeim, sem hann fær, ef ekki kemur annað til. Ég held því, að það sé full ástæða til þess að halda því ákvæði, sem nú er í l. varðandi rétt ógiftra mæðra um greiðslu barnalífeyris, þó að þær giftist, og það sé þess vegna eðlilegt, að þegar reynt er að fá samræmi, hvað þetta snertir, á milli þeirra og ekknanna, þá sé þetta samræmt upp á við, sem ég legg til, en ekki niður á við, eins og felst í frv. Og því fjarstæðara er, að meir sé dregið úr rétti mæðranna, eins og felst í brtt. hv. þm. Barð.

Þá er það viðvíkjandi mæðralaununum. Hv. frsm. orðaði það eitthvað á þá leið, að það væri fullkomin ofrausn, sem felst í tillögu minni varðandi mæðralaunin, það er að segja, að greidd skuli mæðralaun þegar með fyrsta barni. Og hann reiknaði það út, að ef fylgt væri till. minni um þetta efni, þá mundu viðkomandi mæður, sem hefðu eitt barn á framfæri sínu og fengju samkv. minni till. 600 kr. í grunn og síðan barnalífeyri 800 kr. í grunn, fá í tekjur 4.200 kr., og það er rétt, það er þessi upphæð. En ég er ekki sammála hv. frsm. um það, að það sé ofrausn, þó að konan fengi frá Tryggingastofnuninni þessar tekjur, annars vegar til framfæris barninu og hins vegar til að mæta því vinnutapi, sem hún yrði fyrir vegna þess, að hún þarf að sinna barni sínu. Hv. frsm. talaði mikið um það, að ungri og frískri og fullvinnandi konu, sem hefði aðeins eitt barn á framfæri sínu, væri engin ofætlun að vinna fyrir sínu eigin framfæri, og taldi, að sá tími, sem hún þyrfti til þess að annast um þetta eina barn, væri ekki það mikill, að hún hefði ekki tíma til þess að vinna fyrir sínu framfæri. Hins vegar færi miklu meiri tími hjá móður til barnaumönnunar, ef börnin væru tvö, og því meiri sem börnin væru fleiri. Ég held, að þetta sé alger misskilningur hjá hv. frsm. Ég held, að það fari nákvæmlega sami tími í það hjá móður að sjá um eitt barn og t. d. fjögur börn, ef heimilisástæður hennar eru á annað borð þannig, að hún þarf að vera heima yfir barninu, en getur ekki komið því yfir á einhverja aðra að sjá um það. Og þegar verið er að setja löggjöf um þetta, verður að ganga út frá því, að ekki komi þarna aðrir aðilar til en móðirin sjálf. Sem sagt, tíminn, sem til þess fer að líta eftir einu barni, verður alveg sá sami og fer í að líta eftir tveimur eða þremur börnum. Hins vegar verður það því meiri vinna og erfiði að líta eftir börnunum sem þau eru fleiri, og því eðlilegt, að mæðralaunin hækki eftir því, sem börnunum fjölgar. En grundvöllurinn undir minni till. er sá, að með fyrsta barninu er móðirin hindruð frá því að geta stundað vinnu utan heimilis, og þess vegna verða mæðralaunin að koma til framfæris, að mínu áliti, fyrst og fremst við fyrsta barn, og á þessu byggjast mínar till. um þetta efni. Það má hins vegar segja, að ef móðirin verður alveg hindruð frá því að stunda vinnu utan heimilis, vegna þess að hún sé bundin yfir einu barni, þá nægi engan veginn 600 kr. í grunn henni til framfæris. En það er a. m. k. verulegur styrkur að þessu framlagi og gæti gert móður kleift að standa straum af þeim kostnaði, sem af því leiddi að koma barninu í gæzlu með einum eða öðrum hætti, svo að hún gæti stundað vinnu utan heimilis, en það tel ég, að séu alveg rétt rök fyrir þessari brtt. minni, að mæðralaunin eigi fyrst og fremst að koma til með fyrsta barninu. Hitt má síðan auðvitað alltaf deila um, hversu háar upphæðirnar eigi að vera. Og eins og ég tók fram þegar í minni fyrri ræðu, þá álít ég, að þær upphæðir, sem ég legg til, — þó að þær séu nokkru hærri en í frv., — séu of lágar, en ég hef hins vegar orðið að miða þær nokkuð við þær bótagreiðslur aðrar, sem ákveðnar eru í almannatryggingal., og hef þess vegna bundið hámarkið við fullan lífeyri, eða 1.200 kr., og ekki séð mér fært að fara hærra, og hef þess vegna líka orðið að stilla fyrstu upphæðinni í hóf, með tilliti til þess.

Ég vil vænta þess, að þrátt fyrir þessi andmæli hv. frsm. þá vilji hv. þdm. leggja það á sig að meta það, hvor okkar hafi sterkari rök í þessu efni. Og hver sem niðurstaðan verður við atkvgr. um frv. í þetta sinn, þá geri ég nú ráð fyrir því, að það muni fara kannske um þetta efni eins og nú þegar er þó orðið um sjálfa hugmyndina um mæðralaunin, að þegar hún var flutt fram af okkur sósíalistum við setningu l. hér 1946, þá fékk hún ekki viðurkenningu, en till. okkar þar um felldar. Nú hefur hugmyndin fengið þá viðurkenningu, sem kemur fram í frv., eins og það liggur fyrir. Og mér þykir ekki ósennilegt, að það muni fara svo, hvort sem það verður fyrr eða síðar, að þessi rök verði viðurkennd, sem ég flyt nú fram fyrir þessari till. minni, á þann veg, að það beri einnig að láta mæðralaunin koma til þegar við fyrsta barn, en ekki láta þau bíða, þangað til börnin verða fleiri.

Viðvíkjandi þriðju brtt., sem ég flyt á þskj. 330, í sambandi við uppbætur á ellilífeyrinn og annað, sem þar greinir, lítur út fyrir, að erfitt sé að koma þar við nokkrum rökum. Því er stöðugt haldið fram, að búið sé að hækka þessar greiðslur um 10%, þótt það sé bláköld staðreynd, ef miðað er við gildistöku l., að þá hafa þessar greiðslur verið lækkaðar. Ég þóttist taka þetta nægilega skýrt fram í minni fyrri ræðu, en þrátt fyrir það þá heldur hv. frsm. fram því gagnstæða. Það var ákveðið við gildistöku l. að greiða á þetta fulla vísitölu, en nú er vitað, að vísitalan er hærri en 315 stig, og er því raunverulega búíð að lækka þessar greiðslur. Í sambandi við þetta tók hv. frsm. að vísu fram, að á ellilífeyrisgreiðslurnar væri greitt með vísitölu 315, en á laun almennt með vísitölu 300. En honum er það eins vel kunnugt og okkur, að þegar vísitalan var bundin, illu heilli, þótti ekki fært að greiða minna á ellilífeyrinn en 315 vísitölustig, því að svo voru þessar greiðslur annars skornar við nögl. Þess vegna þótti ekki fært að fara neðar með þessar greiðslur. Það liggur líka í augum uppi, þegar meta á afkomumöguleika ellilífeyrisþega og annarra launþega, að það er gengið mun nær hinum fyrrnefndu með stýfingu vísitölunnar í 315, en hinum síðarnefndu með stýfingu niður í 300 vísitölustig. Það er því alveg fráleit röksemdafærsla, að búið sé að bæta ellilífeyrisþegunum upp það tap, sem þeir urðu fyrir með stýfingu vísitölunnar, þótt þeim sé nú greitt með 315, og þykir mér furðulegt, að hv. frsm. n., sem er þó þessum málum mjög vel kunnugur, skuli nota slíkt undir meðferð málsins. Þykir mér einkennilegt, ef á þetta verður fallizt í hv. d. — Hitt þykir mér og jafnfráleitt, að telja það sem hækkun á ellilífeyrinum, þegar Tryggingastofnunin tekur að sér að greiða sjúkrasamlagsgjöld fyrir þetta fólk, eins og ákveðið er í heilsugæzlukafla l. Það, sem verið er að gera með þessu, er aðeins það, að ekki er verið að svíkja ellilífeyrisþegana um það, sem þeim og öðrum hafði verið lofað við setningu l. Það er því alveg fjarstæða að nota slíkt sem þetta sem röksemd á móti mínu máli. Frá mínu sjónarmiði séð hafa ellilífeyrisgreiðslurnar því verið lækkaðar síðan l. voru sett, þótt greitt sé á lífeyrinn með 315 vísitölustigum og sjúkrasamlagsgjöldin einnig greidd. Ég vil því fastlega vænta þess, að hv. frsm. geti fallizt á að greiða 20% uppbót til þessa fólks og gera þar með þess hlut ekki rýrari en annarra, sem þegar hafa fengið þá uppbót.

Ég skal nú ekki eyða tíma hv. d. í að ræða aðrar brtt., sem fram hafa komið, en mér sýnist þær flestar vera þannig, að ég geti ekki greitt þeim atkv. En mér virðist sem sagt ekki vera ástæða til þess að ræða það frekar en ég gerði í upphafi í sambandi við brtt. hv. þm. Barð., sem yfirleitt ganga í þá átt að rýra bótagreiðslurnar. Það er mín skoðun, sem og hefur komið fram í þessum umr., að ég tel bæturnar of lágar og því ástæðu til að hækka þær frekar en hið gagnstæða.