17.02.1950
Efri deild: 57. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (3295)

68. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. 4. landsk. (StgrA) endaði ræðu sína með því að segja, að till. mínar miðuðu að því að rýra bótagreiðslurnar. Ég vil mótmæla þessu. Þær koma ekki nálægt þessu atriði, nema ef þannig ætti að skilja brtt. við 10. gr., og skal ég koma nokkuð að því. — Það fyrsta er, að ekki er búið að ákveða mæðrastyrkinn enn, svo að þar er ekki um að ræða að rýra neinar greiðslur. Hins vegar skal ég fullvissa hv. 4. landsk. um það, að ef ekki hefði verið farið að mínum till., er l. voru samþ., þá væru þau nú aðeins pappírsgagn, sem engum kæmi að haldi. En af því að Alþingi stillti greiðslunum í hóf eftir minni till., er l. voru sett, var hægt að byggja upp þessa þörfu stofnun. Það ætti hv. þm. að muna og vera mér heldur þakklátur, frekar en að vera með hnýfilyrði í minn garð. — Ég skal nú benda lítillega á rökvillur hv. þm. í sambandi við brtt. mínar við 10. gr.

Hv. þm. sagði, að með ákvæðinu eins og það er í frv. væri verið að tryggja uppeldi barnanna. En hvernig er þetta þá þar sem t. d. tíu börn eru og öll í hjónabandi? Hvað er þá um þennan uppeldisstyrk, sem hv. 4. landsk. er að tala um? Og ég skal taka annað dæmi: Hvað segir hv. 4. landsk. um það, ef ekkill með börn tekur að sér konu? Þarf hann þá ekki einnig að fá fjölskyldubætur? Nei, það er sannarlega óverjandi að hafa þessa grein, nema því aðeins, að hún nái til beggja kynjanna. Það er svo fráleitt að hafa ákvæði um það, að ef kona giftist aftur, eigi hún að fá sömu greiðslu með sínum börnum. en ef karlmaður með börn giftist aftur, þá fái hann engar greiðslur. Það er nefnilega svo, að þetta byggist allt á því, að Tryggingastofnunin græðir á því, að konan giftist aftur, og það er einmitt það, sem ég hef aldrei getað fellt mig við og eiginlega aldrei getað fyrirgefið hv. frsm., að búa þannig um hnútana. En auðvitað er sú hugsun einnig á bak við þetta, að þegar konan missir mann sinn, þá kemst hún í meiri erfiðleika með að ala upp börn sín, heldur en þegar maðurinn missir konu sína. En ég vil segja, að nauðsynlegt sé, að þessi ákvæði nái einnig til ekkla, svo að þetta sé jafnt fyrir bæði kynin. Það er og sett í þessi lög. — að heimilt skuli að greiða ekklum barnalífeyri, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, og var það rétt að farið. — En ég mun ræða þetta mál nánar við hv. frsm. í n., úr því að málið er nú komið á þetta stig, því að fyrir honum hefur alltaf vakað að koma konunum út, þ. e. a. s. að gera Tryggingastofnunina nokkurs konar hjónabandsskrifstofu.

Þá ætla ég að víkja örlítið að mæðralaununum. Það hafa engin rök verið færð fyrir því, að hlutföllin milli 1., 2. og 3. flokks séu rétt, og þess vegna hef ég gert mínar brtt., því að ég tel þau hlutföll vera röng eins og þau eru í till. n. Það hefur aldrei verið deilt um það, hvort upphæðin 400 kr. til konu með eitt barn væri of há eða of lág. En ef upphæðin til konu með eitt barn er rétt, þá er röng upphæðin til konu með tvö börn. Kona með 2 börn er mun betur sett með 800 kr. en kona með eitt barn með 400 kr. Hv. 8. þm. Reykv. (RÞ) vildi halda því fram, að það hefðu verið þessar ákveðnu greiðslur, sem vakað hefðu fyrir kvenréttindafélögunum. (RÞ: Ég sagði, að það hefðu verið þessi hlutföll, en ekki greiðslur.) Jæja, en ég vil segja, að þessi hlutföll eru röng. Ef þær hafa viljað fá 400 kr. með fyrsta barni, þá er rangt að greiða 1200 kr. með fjórða. Annars vænti ég þess að fá tækifæri til að ræða þetta við hv. frsm. í n. og skal taka brtt. mínar aftur til 3. umr. til þess að reyna að fá samkomulag. Hins vegar, ef hann vill ekkert samkomulag, þá er bezt að þær komi til atkvæða hér við þessa umr.Hv. 4. landsk. segist vera ánægður með greiðslur til konu með eitt barn, því að þá geti hún unnið úti. En hví ekki að láta hana fá það einnig í hjónabandi? Hér er þannig verið að misræma mjög mikið. Annars vakir aðeins fyrir þeim hv. þm. að krefjast fjár án þess að taka tillit til, hvaða þýðingu það hefur.

Í sambandi við brtt. hv. 1. þm. N-M. (PZ) við 13. gr. vil ég taka fram, að ef hann vill taka þær aftur til 3. umr., þá skal ég fá þær ræddar í n. og athuga möguleika á að fá þær einhverjar lögfestar, því að þær eru að mörgu leyti sanngjarnar.

Ég tel svo rétt að síðustu að minnast á rökþrot hv. 4. landsk. út af 20% uppbótunum til gamla fólksins. Hv. þm. heldur því fram, að tekinn hafi verið af því einhver réttur, sem það hafi átt. Ég get eigi séð, að í l. standi neitt um það að greiða því bætur með vísitölu 315, heldur stendur hér í l.: „Greiða skal bætur þessar með vísitölu eins og hún er á hverjum tíma.“ Hér er ekki átt við annað, en þá vísitölu, sem greidd er á kaup almennt, og er það því alveg rétt hjá hv. frsm., að bætt hefur verið við greiðslurnar til gamla fólksins frekar en hið gagnstæða. Auk þess væru það 360 vísitölustig, sem greidd væru á þessar bætur, ef 20% hjá hv. þm. væru samþ. — Annars er alveg óþarfi að vera að ræða þetta mál nánar, því að það eru aldrei annað, en hlægilegur áróður till. hjá þessum háttv. flokki, vitandi það, að búið er að bæta kjör þessa fólks meira en þeirra till. fara fram á, þótt hv. þm. þessa flokks séu alltaf að bæta sínar till.

Ég skal svo ekki ræða þetta nánar nú, en vona, að hægt sé að samræma till. hv. 1. þm. N-M. við frv. sjálft, því að eins og áður er sagt, er margt gott við þær.