20.02.1950
Efri deild: 58. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (3298)

68. mál, almannatryggingar

Frsm. (Haraldur Guðmundsson) :

Herra forseti. Út af því, sem hv. 1. þm. N-M. (PZ) sagði nú síðast, vil ég taka fram, að það er fullkomlega rétt, að samkv. almannatryggingal. er réttur kvenna í mörgum tilfellum gerður meiri en réttur karla, — eins og sumir hafa orðað það, að það þyrfti að stofna karlréttindafélög til þess að bæta úr þessum halla. Þetta byggist að nokkru leyti á fornri venju, en í aðalatriðunum er þetta viðurkenning á því, sem er staðreynd, að í langflestum tilfellum er það karlmaðurinn, sem aflar tekna til heimilisins, þó að mörg dæmi séu þess, að konan vinnur utan heimilisins og aflar tekna til heimilisins, þó að meginreglan sé, að karlmaðurinn sé sá aðilinn, sem aflar teknanna fyrir heimilið, en það er aftur undirstaðan undir ákvæðum l., sem hv. 1. þm. N-M. minntist hér á. En dæmið, sem hv. 1. þm. N-M. tók um ekklana, er rétt, og í 9. gr. þessa frv. er tekið tillit til þessa. Í gildandi l. er nú ákveðið, að ekki megi greiða ekkium nema hálfan lífeyri með börnum, en í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir, að það megi greiða allt að fullum barnalífeyri, þegar ekklar eiga í hlut. Svo að það er þegar byrjað að stíga spor í þá átt, sem hv. 1. þm. N-M. benti á, að ástæða væri til að gera.

Við hv. þm. Barð. (GJ) hef ég ekki mjög mikið að segja. Það er aðeins ein af brtt. hans, sem gefur mér tilefni til þess að ræða við hann, það er brtt. hans um breyt. á upphæð mæðralaunanna. Hv. þm. sagði, og réttilega, að frsm. hefði láðst að sanna, að rétt hlutfall væri á milli mæðralauna til kvenna, sem hafa tvö börn og hinna, sem hefðu þrjú börn, og í þriðja lagi þeirra, sem hefðu fjögur börn. Þetta er vissulega alveg rétt. Hins vegar fæ ég ekki séð, hvernig hv. þm. getur til þess ætlazt, að hægt sé að sanna nokkurt rétt hlutfall í þessu efni. Sannleikurinn er, í þessu eins og öðru, að það er matsatriði, hvaða hlutfall skuli vera hér á milli, hvort sem hægt er að færa sönnur á það eða ekki, sem ég tel ekki vera beinlínis hægt, hvort barnalífeyririnn eigi að hækka um 200 kr. eða 400 kr., er tala barna hækkar um eitt barn. Ég hygg, að það verði alltaf matsatriði, hvað sé það rétta í þessu efni, en hins vegar geti hvorki ég né hv. þm. Barð. sannað, hvort réttara er. Till. frv. miðast við það, að ef börnin, sem móðir á að sjá fyrir, eru orðin fjögur eða fleiri, megi telja, að hennar aðstaða til að afla tekna utan heimilis sé eiginlega engu skárri en hjá þeim, sem eru komnir yfir 67 ára aldur og þess vegna njóta fulls lífeyris. Við það eru till. frv. miðaðar, að það sé ekki hægt að gera ráð fyrir, að hún geti leitað sér atvinnu utan heimilis, ef hún á fyrir fjórum börnum að sjá. Hvort þetta er rétt mat, er ekki hægt fyrir mig að færa sönnur á. Og ég skal viðurkenna, að þótt brtt. hv. þm. Barð. í þessu efni verði samþ., þá gerir það ekki mjög mikinn mun að því leyti, að það skakkar ekki nema um 180 þús. kr. á ári þess vegna, sem heildarupphæðin, sem greidd væri til þessa fólks, væri lægri, en það gengi út yfir þær konur, sem þyrftu að vinna fyrir þremur börnum eða fleiri. Hv. þm. Barð. leggur til, að upphæðin til þessara kvenna, sem þeim yrði greidd sem barnalífeyrir, hækki um 200 kr. fyrir hvert barn, sem hver slík kona á umfram tvö, þannig að miðað verði við 400 kr. barnalífeyri með tveimur börnum. En n. hefur lagt til, að tröppurnar væru 400 kr., þannig að lífeyririnn hækkaði um 400 kr. við hvert barn, sem slík kona ætti umfram tvö börn. Ég hygg, að það sé um matsatriði að ræða, þar sem ákveða skuli, hvort af þessu tvennu sé það heppilegra, sem hv. þdm. leggja sinn dóm á með atkv. sínum. Hitt er rétt, eins og hv. þm. tók fram, að í erindi, sem milliþn. barst um þetta efni frá Kvenréttindafélagi Íslands, þá voru tröppurnar, sem miðað var við, þannig, að gert var ráð fyrir, að mæðralaun yrðu 400 kr. til viðkomandi mæðra með 2 börn og að þessi lífeyrir hækkaði um 200 kr. við hvert barn. En þar var ekki aðeins gert ráð fyrir, að mæðralaun til ekkna, fráskilinna kvenna og ógiftra mæðra hækkuðu um 200 kr. fyrir hvert barn, heldur er hins að gæta, að í þeim till. er gert ráð fyrir, að það væri greitt þegar með fyrsta barni 200 kr., og það er meginmunurinn á milli þess, sem Kvenréttindafélagið lagði til að greiða þegar með fyrsta barni, og hins, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Sem sagt, úr þessu verða hv. þm. að skera, hvað ákveða skal í þessum efnum. Ég hygg, að það, sem í frv. er gert ráð fyrir, sé nær því, sem hóflegt megi teljast.

Hv. 4. landsk. hafði ýmislegt við till. frv. um breyt. á l. og orð mín hér að athuga. Það er vitanlega rétt, sem hann sagði í sambandi við greiðslu barnalífeyris til ekkna og ógiftra mæðra, að það má fá fullkomið samræmi í þessu efni á þann hátt, sem hann leggur til, að afnema takmörkun á lífeyri til ekkna, sem gifta sig aftur, þannig að þær fái sama lífeyri með börnum sínum til 16 ára aldurs eins og ógiftar mæður. Það má færa margt fram því til stuðnings. Hins vegar er um þetta ágreiningur hér í þinginu., og ég hygg, að sú regla, sem loks varð niðurstaðan þegar l. voru afgreidd, að láta þriggja ára regluna gilda fyrir ekkjur í þessu tilfelli, sé mjög nærri sanni, og fyrir þá þekkingu, sem hefur fengizt á þessu máli með reynslu, þá hygg ég, að megi segja, eftir þeirri reynslu, sem er komin á þetta, að ekki sé mjög mikil óánægja með þessa reglu. Allir virðast á sama máli um það, að samræmi eigi að vera á milli ekkna og ógiftra kvenna í þessu tilliti, og ég hygg, að réttast sé að halda sér við ákvæði frv. í þessu efni, sérstaklega þegar hlutur ógiftra mæðra er stórlega bættur með ákvæðum frv. frá því, sem var.

Hv. 4. landsk. þm. virtist hafa misskilið orð min í ræðu minni, því að hann taldi, að ég hefði talið ofrausn að greiða 600 kr. í grunn í mæðralaun. Ekki sagði ég þetta. Ég sagði, að það væri ofrausn borið saman við aðrar bætur, sem greiddar eru samkv. almannatryggingal., og mætti bæta því við, að samanborið við hámarkslaun þá væri þetta mjög um of. Það er rétt, að þegar bæta á upp fyrir einhvern flokk manna, þá megi líta til annarra flokka. Og ef litið er annars vegar til hjóna, sem hafa þrjú börn á framfæri og ekki hafa aðrar tekjur en þær, sem maðurinn vinnur sér inn, maður, sem greiðir full gjöld til trygginganna og þar að auki skatta til hins opinbera, og þessi hjón fá engan eyri frá tryggingunum, þá er býsna mikill munur gerður á þeim annars vegar og því hins vegar, ef kona, sem er á góðum aldri, fullvinnandi, á aðeins eitt barn og fær greitt með því frá föðurnum 200 kr. á mánuði. Þessari konu á að vera miklu auðveldara með að sjá um sitt eina barn með barnalífeyrinum en almennum verkamanni að sjá um sitt heimili, sem með vinnu sinni á að framfleyta fimm manna fjölskyldu og greiða einnig skatta og skyldur, en fær engan eyri frá tryggingunum. Og þegar litið er til þarfa bótaþeganna, þá verður líka að líta til þeirra, sem eiga að greiða í sjóðina, sem þarf að hafa, til þess að hægt sé að greiða bætur, en í þessu efni mundi þannig verða mismunað mönnum, ef farið væri að till. hv. 4. landsk. þm., — að ég ekki tali um ekklana, sem hafa engan rétt til þess að fá nema hálfan barnalífeyri, ef þeir eiga fjögur börn, þó að þar sé nú rýmkað um, ef 9. gr. frv. verður samþ. — Ég minntist alls ekki á, að þetta væri ofrausn að greiða þetta til kvenna, heldur, að það væri ofrausn með tilliti til þeirra sumpart, sem eiga að fá bæturnar, og hins vegar þeirra, sem eiga að greiða til trygginganna.

Ég er hv. þm. algerlega ósammála um, að það sé engu tímafrekara að sjá um fjögur börn en eitt. Ég þekki þetta prýðilega. Ég hef átt bæði eitt barn og fjögur og samtals eitt og fjögur, og ég veit, að það er miklu tímafrekara að sjá um fjögur börn en eitt. Og ég efast ekki um, að ef hv. þm. kemst í sömu aðstöðu og ég að þessu leyti, þá sannfærist hann um þetta. Hitt er rétt, að æskilegt væri að geta létt undir með mæðrum, fremur en gert er með l., þó að þær eigi ekki nema eitt barn. En það er ekki hægt að ætlast til þess, að hægt sé af þjóðfélaginu að láta konu, sem á eitt barn, geta bundið sig við að sjá um eitt barn, enda er það að vísu ekki hægt eftir till, hv. 4. landsk. þm. Ég er þeirrar skoðunar, að ef um er að ræða hrausta og vel vinnandi konu, sem á ekki nema eitt barn, og það, hvort hún eigi að fá með því barnalífeyri, þá sé a. m. k. meiri ástæða til að styrkja ýmsa aðra, en að veita henni fjárstyrk umfram það, sem gert er ráð fyrir eftir l. nú. Ef brtt. hv. 4. landsk. þm. verða samþ., munu mæðralaunin hækka um 1.600.000 kr., eða verða samtals hátt á þriðju millj. kr. Og það er óhætt að fullyrða, að það er ekki hægt að hækka svo útgjöld á þessum lið án þess að afla tryggingunum aukinna tekna. Ég get því ekki mælt með till. hv. þm. af þeim ástæðum, sem ég hef nefnt.

Hv. 4. landsk. hélt því fram, að því er mér skildist, að Tryggingastofnun ríkisins eða löggjafarsamkoman hefði svikið bótaþega og greitt lægri bætur, en til var ætlazt samkv. l., og ef þeir hefðu fengið bætur sínar með dýrtíðaruppbót, þá væri hlutur þeirra betri, en hann sé eftir frv. og till. Ég furða mig á þessari fullyrðingu, því að í l. segir, að bætur skuli greiddar með verðlagsuppbót. Árið 1947 voru bætur greiddar með vísitölu 315, eins og þá var almennt gert, og 1948 var einnig greitt með vísitölu 315. Ef nú yrði greitt með vísitölu 340, sem mun vera nær sanni, þá mundi hækkunin nema 13% á lífeyrinn, en ef till. n. yrði samþ., mundi hann hækka um 15% og sjúkrasamlagsgjald að auki, svo að hækkunin mundi nema um 20%. Hlutur bótaþega yrði því stórum lakari, ef það fyrirkomulag yrði haft, sem hv. 4. landsk. vill hafa, og ætti hann að sjá það. — Þá sagði hv. þm., að hefði till. hans og flokks hans 1946 um 25% hækkun á bótagreiðslum frá því, sem þá var í l., verið samþ., hefði Tryggingastofnunin samt haft nægar tekjur. Þetta er alger misskilningur hjá hv. þm. Árið 1947 hafði Tryggingastofnunin 42 millj. kr. tekjur, 25% þar af eru 10½ millj. kr., en afgangur það ár nam rúmum 7 millj. kr. Það hefði því orðið tekjuhalli það ár. Árið 1948 námu tekjurnar 47 millj. kr. og 25% af því nemur tæpum 12 millj. kr., en tekjuafgangur það ár nam aðeins 5,5 millj. kr., sem er tæpur helmingur þess, sem þurft hefði til að framfylgja þessu. Ég held satt að segja, að reynt hafi verið eins og hægt er að fylgjast með verðlagsbreytingum, svo að hlutur bótaþega yrði ekki skertur. Ef frv. og till. n. verða samþ., verður lífeyrir 4.140 kr. og sjúkrasamlagsiðgjöld 192 kr. fyrir þetta bótatímabil á 1. verðlagssvæði og tilsvarandi á 2. verðlagssvæði. Þá er heimild til að greiða þeim, sem eru eigna- og tekjulausir og þurfa hjúkrunar eða eru algerir einstæðingar, allt að 50% hærri bætur, svo að greiðslan getur numið 6.200 kr., ef hækkunarheimildin er notuð til fullnustu, og þar að auki kemur svo það, sem sjúkrasamlagið greiðir. Ég fullyrði því, að svo langt er gengið til að mæta þörfum hins tryggða, að ef lengra væri gengið í þeim efnum, væri óhjákvæmilegt, að allmikill hluti af greiðslunum mundi lenda hjá mönnum, sem ekki þyrftu á þeim að halda. Þá verður að bera saman almennar tekjur þeirra, sem greiða til trygginganna, og bótaþega, því að óhæft er að ganga svo langt í bótagreiðslunum, að æskilegra sé að vera bótaþegi, en að vinna fyrir sér og greiða til trygginganna.