20.02.1950
Efri deild: 58. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (3299)

68. mál, almannatryggingar

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður, því að ég geri ekki ráð fyrir, að það muni breyta neinu um afstöðu hv. þm., en ég vildi segja nokkur orð út af orðum þeim, er hv. 4. þm. Reykv. (HG) beindi gegn till. mínum.

Það, sem okkur greinir einkum á um, eru mæðralaunin og uppbætur á ellilauna- og lífeyrisgreiðslur. Hv. þm. heldur því fram, að ekki sé nauðsyn að greiða mæðralaun þeim konum, sem aðeins hafa eitt barn á framfæri sínu, og heldur því fram, að kona með eitt barn geti unnið fyrir sér, og sagði, að þjóðfélagið hefði ekki efni á að láta hana binda sig yfir einu barni. Ég er honum sammála. í því, að slíkt sé ekki heppilegt, en það er reynslan, að hafi kona eitt barn, þá er hún bundin yfir því, þar eð þjóðfélagslegum ástæðum er enn svo háttað hjá okkur, að hún á ekki annars kost. Ég veit, að hv. 4. þm. Reykv. veit það eins vel og ég, að hér í Reykjavík eru vísar að dagheimilum fyrir börn, en það eru aðeins vísar, og víðast hvar um land eru þeir ekki einu sinni til, hvað þá meira, en þessi dagheimili fullnægja hvergi nærri þörfum, svo að konur, sem jafnvel eiga aðeins eitt barn, eiga þess engan kost að vinna utan heimilisins, þar eð þær eru bundnar yfir barninu. Þess vegna verður að láta ákvæðin um mæðralaun ná einnig til kvenna, sem hafa aðeins eitt barn, og það var í þessu tilefni, sem ég viðhafði þau orð, sem hv. þm. var að fetta fingur út í, en ég sagði, að kona væri jafnbundin yfir einu barni og 3 eða 4, en hitt datt mér ekki í hug að segja, að fyrirhöfnin væri jafnmikil, því að þar er að sjálfsögðu ekki saman að jafna. Það er þessi aðstaða, sem veldur því, að þm. verða að sjá svo til, að þessar konur verði ekki settar hjá við slíkar greiðslur.

Hvað viðvíkur uppbótum á ellilífeyri og greiðslum í því sambandi, þá tekst víst hvorugum að sannfæra hinn, en ég hefði þurft að fá frekari skýringu á því, að væru bætur þessar greiddar með núverandi vísitölu, 340 stigum, þá yrði það lægra en gert er ráð fyrir í frv. og till. n. Ég hef að vísu ekki reiknað þetta út, eins og hv. frsm., en ég furða mig dálítið á þessu. Um hitt atriðið, sem þeir héldu fram hv. frsm. og hv. þm. Barð., að ákvæði það, sem stæði í l. um, að greiða skyldi verðlagsuppbót á bætur, þá skýra þeir það á þann veg, að átt sé við þá verðlagsuppbót, sem greidd sé á hverjum tíma, en þegar l. voru sett, var allt greitt með fullri verðuppbót, og því var bótaþegum lofað, en síðar voru svo samþ. l. um að greiða eftir lægri vísitölu en rétt var, og var því hlutur bótaþega rýrður, þó að þeim séu greiddar bætur með vísitölu 315 stig. Þegar svo dýrtíðin hefur vaxið svo, að nauðsyn hefur verið talin að greiða opinberum starfsmönnum 20% uppbót á þeirra laun, þá skil ég ekki, hvaða rök liggja fyrir því, að bótaþegum sé ekki greidd nema 10% uppbót, þó að ekki væri farið eins langt niður með þá og hina. Og þó að þeir fengju 20% uppbót, yrði það samt sem áður miklu minni hækkun, sem þeir fengju, heldur en embættismennirnir, og einkum yrði þó mikill munur miðað við þá, sem hæst eru launaðir, þar sem þeir fá í hlutfalli við laun, svo að það eykur enn á misræmið, þegar sumir fá hærri uppbætur en nemur allri bótaupphæðinni. Ég fell því ekki frá því, hvað svo sem hv. frsm. segir, að verr er farið með bótaþega en Alþ. getur látið sér sæma, ef þeir fá ekki hlutfallslega eins mikið og embættismennirnir. — Ég mun nú ekki ræða þetta frekar, enda sannfærir líklega hvorugur annan, en ég vildi taka þetta fram í tilefni þess, sem hv. frsm. sagði hér áðan.