10.03.1950
Efri deild: 70. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (3303)

68. mál, almannatryggingar

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Ég verð að biðja hv. d. afsökunar á því, hve lengi það hefur dregizt að afgreiða málið á ný úr heilbr.- og félmn., og þar við bætist svo, að síðan n. afgreiddi málið, hafa störf hv. d. verið með þeim hætti, að ekki hefur unnizt tími til þess að taka það fyrir.

Áður en ég vík nú að till. hv. n., vildi ég segja það frá eigin brjósti, að augljóst er, ef frv. verður samþ., að ætla má, að útgjöld trygginganna vaxi um sem svarar 5½ millj. kr. á ári frá því, sem verið hefur, þegar tillit er tekið til uppbótargreiðslnanna. Síðan málið var afgreitt frá n., hefur verið lagt fyrir Alþingi frv. um gengislækkun, sem hefur í för með sér hækkun á verðlagi og þar með hækkun á dýrtíð í landinu. Mér þótti þó ekki rétt að taka málið aftur fyrir í heilbr.- og félmn. til þess að gera till. um sérstaka tekjuöflun handa tryggingunum til að mæta hinum auknu útgjöldum, sem samþykkt áðurnefnds frv. hefði í för með sér, bæði vegna þess, að tryggingarnar hafa safnað nokkrum sjóðum, og í öðru lagi vegna þess, að ekki er hægt að gera sér fyllilega grein fyrir hinum aukna kostnaði af gengisbreytingunni fyrr en líklega næsta haust. — Þetta vildi ég taka fram, áður en ég fer að ræða um brtt. n.

N. hefur ekki tekið upp aðrar till. en þær, sem allir nm. eru sammála um, en þær till. er að finna á þskj. 395,1–4. Fyrsta till. er um það, að ráðh. geti ákveðið, að útgerðarmönnum skuli skylt að tryggja gegn aukaiðgjaldi áhættu þá vegna bótaskyldra slysa, sem þeir bera samkv. 32. gr. l. nr. 41 1930, þannig, að Tryggingastofnunin greiði hinum slasaða, auk dagpeninga skv. 53. gr. laganna, fullt kaup eða aflahlut í eina viku frá afskráningardegi að telja. Ákvæði hliðstætt þessu var í tryggingal., þar til 1946, en var þá ekki tekið í almannatryggingalögin. Nú hefur aftur á móti komið um þetta eindregin ósk frá L. Í. Ú. í gegnum n. frá þeim aðila. Sú n. fór að vísu fram á fleira, en heilbr.- og félmn. gat ekki gengið inn á nema þetta. Er þetta ákvæði mjög til bóta. Gert er ráð fyrir í till. n., að ráðh. ákveði, hvort og hvenær þessi skylda er lögð á útgerðarmenn, og hygg ég, að það verði ekki fyrr en í júní. Hins vegar get ég ekki á þessu stigi sagt um, hve mikla hækkun þetta hefur í för með sér, en ljóst er, að kostnaður verður einhver af þessu fyrir útgerðarmenn.

Þá er það 2. brtt. á sama þskj.till. er nýmæli. Efni hennar er það, að erfðafjárskattur samkv. l. þar um og útarfur samkv. erfðalögum skuli hér eftir ekki renna í ríkissjóð, heldur í varasjóð trygginganna. Hugsunin á bak við þetta er sú, að miðað er við hina fornu réttarvenju, þegar erfðaréttur og framfærsluskylda voru látin fara saman. En nú hefur Alþingi með erfðalögunum nýju fellt niður rétt hinna yztu útarfa til arftöku. Nú hefur það verið svo, að þetta fé hefur runnið í ríkissjóðinn, en hér er lagt til, að það renni í varasjóð trygginganna, sem hafa a. m. k. að mestu leyti tekið að sér framfærsluskylduna. Hér er að vísu um litla upphæð að ræða. Ég held, að ég muni það rétt, að tekjur af þessu séu áætlaðar á frv. til fjárlaga fyrir 1950 um 350 þús. kr., hvort sem það verður nú eitthvað meira síðar. N. er á einu máli um þessa brtt., og vænti ég, að hv. d. geti á þetta fallizt.

Þriðja brtt. n. er við 23. gr., og er efni hennar í stuttu máli sem hér segir: Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að sveitarstjórn geti leitað álits undirskattanefndar utan kaupstaða, en yfirskattan. í kaupstöðum um það, hvort henni beri að greiða iðgjald fyrir aðila, sem fellur undir 109. gr., eða honum sé samt sem áður talið fært að greiða það sjálfum. Eftir frv. er því gert ráð fyrir, að nægilegt sé að leita til undirskattan. utan kaupstaða, en hér er gert ráð fyrir, að sveitarstjórn leiti til yfirskattan. bæði utan kaupstaða og í og álit hennar skeri úr um það, hvort manni ber að greiða iðgjaldið eða ekki. Ástæðan til þessarar brtt. er sú, að undirskattan. hefur í raun og veru sagt sitt álit, þegar hún semur skattskrá, og því ekki þörf á að leita til hennar á ný, heldur réttast að leita þá álits yfirskattanefndar. N. leggur einróma til, að þessi till. verði samþ.

Fjórða brtt. fjallar um frjálsar tryggingar fyrir íþróttamenn. Ég hygg, að á hverju þingi hafi verið borin fram frumvörp um slysatryggingu íþróttamanna, sem þá hafa verið miðuð við, að þær tryggingar féllu undir almennu tryggingaákvæðin, þar sem atvinnurekendur bera kostnaðinn af slysatryggingunum. Tryggingaráð hefur litið svo á, að óeðlilegt væri að feila slysatryggingu íþróttamanna undir þessi ákvæði, en vill mæta óskum þeirra á þann hátt, sem sagt er í fjórðu brtt. Gert er ráð fyrir að tryggja í hóptryggingu þannig, að félagssamtök geti tryggt meðlimi sína, „þegar þeir taka þátt í opinberri íþróttakeppni eða æfingum og námskeiðum undir stjórn viðurkenndra íþróttakennara.“ Lengra hefur n. ekki þótt fært að ganga, því að ef íþróttamennirnir hefðu verið tryggðir á öllum æfingum, en þyrftu ekki að vera undir eftirliti valdra manna, þá mundi ekki vera hægt að fylgjast með því, hvort og hvenær slys hefðu orðið. Enn fremur hefur ekki þótt annað ráðlegt en að endurtryggja a. m. k. 75% af áhættunni, til þess að koma í veg fyrir, að sjóðir slysatrygginganna almennt biðu tjón af þessu.

Ég hef svo ekki meira að segja um brtt. n., en vænti þess, að hv. d. samþykki þær. Aðrar brtt. mun ég geyma að ræða, þar til flm. þeirra hafa gert grein fyrir þeim.