14.03.1950
Efri deild: 72. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (3306)

68. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að bera fram aftur við 3. umr. brtt. á þskj. 331, við 3. lið, sem tekin var aftur til 3. umr., og óska eftir, að hún komi til atkvæða. Ég sé ekki ástæðu til að ræða hana meir efnislega. Ég gerði það við 2. umr., og er engin ástæða til að tefja málið með umr. um hana meir, því að ég þykist vita, að alþm. hafi nægilega kynnt sér efni hennar, og vænti ég, að þeir samþykki hana.

Ég vil enn fremur nú við þessa umr. leyfa mér að bera fram skriflega brtt. við 33. gr. frv. á þskj. 345, þannig, að gr. falli niður. Þessi gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þó að lífeyrisgreiðslur falli niður vegna fyrirmæla í 1. tölul. brááabirgðaákvæða laganna, haldast í fullu gildi ákvæði 16. gr. um hækkun lífeyris vegna frestunar á lífeyrisgreiðslum.“ Ég tel það algerlega rangt, ef frestað er að taka lífeyri af þessum ástæðum, að viðkomandi aðili hefur hærri tekjur en svo, að hann geti fengið lífeyri, sem ekki getur talizt nein frestun, að þá geti það skapað honum rétt til þess að fá hærri lífeyri, þegar hann kemst undir þau ákvæði, að hann geti fengið hann. Um þetta hefur ekki fengizt samkomulag í n., en ég legg til, að gr. falli niður.

Ég vil þá aðeins minnast nokkrum orðum á brtt. á þskj. 394. Ég hefði getað fylgt þeirri brtt. með nokkurri breyt., sem nú er ákveðið, að borin verður fram af hv. frsm., og erum við báðir flm. að henni. Sé ég ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir henni og mun fylgja brtt. í heild, ef hún verður samþ., en annars ekki. Ég sé ekki á þessu stigi málsins ástæðu til að ræða till., en mun að sjálfsögðu fylgja öllum þeim brtt., sem n. ber fram.