14.03.1950
Efri deild: 72. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (3309)

68. mál, almannatryggingar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að fara að halda langa ræðu í þessu máli. Ég veit, að það er að mörgu leyti undir ágætri forustu, þar sem er forstjóri Tryggingastofnunarinnar, og býst ég við, að hann láti ekki neinn róa á sig í því máli, heldur hugsi bæði um hag stofnunarinnar og sennilega almennings líka.

Það er hér aðeins ein brtt. frá hv. allshn., sem ég vildi gera að umtalsefni, þó meir að forminu til, en efnisins vegna. Á ég við 2. till. á þskj. 395. Ég mundi ekki hafa talað um þessa till., ef ekki væri eins ástatt og nú er í þessari stofnun. Það er vitað, að ráðherraskipti urðu í dag og að hæstv. fjmrh. nýorðinn, sem gekk inn í embættið nú í dag, liggur veikur heima hjá sér og hefur þess vegna ekki getað fylgzt nægilega með þeim málum, sem honum koma sérstaklega við. Og mér virðist einmitt, að 2. brtt. á nefndu þskj. komi það mikið við fjmrh., að ekki sé rétt að láta hana ganga gegnum þingið öðruvísi, en að hann fái hana til athugunar og umsagnar og láti í ljós álit sitt á henni. Hér er sem sé verið að breyta einhverjum helzta tekjustofni landasjóðs og jafnvel jarðabótasjóðs, hefur mér heyrzt. Sumir munu nú kannske segja, að þetta séu ekki stórar upphæðir. En eftir því, sem nú horfir, eru það engar smáupphæðir, jafnvel þó að við séum nokkuð eyðslufrekir. Á fjárl. nú hefur þetta verið áætlað 300 þús. kr., og mun það láta nærri því, sem erfðafjárskatturinn hefur venjulega verið. Með breyt. erfðal. er því þannig farið, að inn í ríkissjóð hafa komið yfir 300 þús. kr. bara frá einu bretti. Þó að það yrði milljón eða þar um bil, yrði þetta náttúrlega eins og krækiber í tunnu við útlát, en þó þykir draga dálítið um hverja milljón, og ætla ég, að öll lækkun á tekjum ríkissjóðs verði til þess að draga úr verklegum framkvæmdum, sem ætlazt er til á fjárl., því að lögbundin gjöld er ekki eins hægt að takmarka og þau ólögbundnu. Það er alltaf ráðizt á þau, og það er vitað, að á undanförnum þingum hefur lent mest á þeim hinum verklegu framkvæmdum. — Mér hefði ekki þótt það fjarri sanni og vil fara fram á það við hæstv. forseta, að fjhn. þessarar d. gæfist tækifæri til að segja álit sitt um þetta atriði, áður en gengið er til endanlegrar atkvgr. um það hér í d., og hún gæti í samráði við fjmrh. ákveðið, hvað hún legði til í þessu máli.

Ég verð að segja, að það er eitt enn, sem dregur úr nauðsyn þessara greiðslna til trygginganna, en það er, að almannatryggingarnar eru líklega sú eina stofnun hér á landi, sem hefur nú fullar hendur fjár, sem betur fer, en aðrar stofnanir komnar meira eða minna á vonarvöl. Vil ég því benda á, að ekki er brýn nauðsyn að færa til í galtómum ríkiskassanum og láta í a. m. k. hálffulla skreppuna hjá tryggingunum. Þetta vona ég, að allir sanngjarnir þm. viðurkenni, og vil ég beina til þeirra þeirri áskorun, að þeir athugi vel þetta mál, en flaustri ekki að því. Ég vil sem sé endurtaka þessa ósk mína til hæstv. forseta, að hann vildi gefa fjhn. tækifæri til þess, áður en umr. er lokið, að athuga þetta mál í samráði við hæstv. fjmrh., því að form. n. er það innangengt til hans, að það ætti að vera hægt að ræða þetta atriði við hann og ætti ekki að tefja málið nema um einn dag í hæsta lagi.