14.03.1950
Efri deild: 72. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (3312)

68. mál, almannatryggingar

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. (GJ) hefur borið hér fram á þskj. 331 brtt. um það, að fæðingarstyrkur samkv. 34. gr. l. skuli vera jafn til allra mæðra og nema 200 kr. fyrir hverja móður. Samkv. l., eins og þau eru nú, er gerður munur á því, hvort konan vinnur utan heimilis eða þjónar á heimili sínu. Það er fyrsta skilgreiningin, sem gerð er. Gert er ráð fyrir, að allar konur fái 80 kr. og að móðir, sem ekki stundar atvinnu utan heimilis, fái auk þessara 80 kr. 120 kr. upp í kostnaðinn. En þess utan er ætlazt til samkv. l., að mæður, sem stunda atvinnu utan heimilis, skuli fá 140 kr. á mánuði í allt að 3 mánuði samtals fyrir og eftir fæðingu. Þetta gerir samtals fyrir mæður, sem vinna utan heimilis, 500 kr. móti 200 kr., sem þær fá, er vinna á heimilum. Nú hefur það verið talið af mörgum algerlega óréttlátt að gera þennan greinarmun milli kvenna eftir því, hvort þær stunda atvinnu á heimilum eða utan þeirra. Ég skal ekki mæla móti ýmsum rökum, sem þar hafa komið fram. En það er líka gert ráð fyrir því í l., eins og þau eru nú, að þessi hækkaði fæðingarstyrkur skuli aðeins greiddur til kvenna, sem vinna utan heimilis, svo framarlega sem maðurinn geti ekki séð heimilinu farborða, en af þessu fylgir það, að ógiftar mæður, sem vinna utan heimilis, fá ætíð hinn hærri fæðingarstyrk, ef þær hafa misst laun vegna barnsburðar. Nú er gert ráð fyrir því í þessari till. á þskj. 331, að allar mæður skuli fá jafnan fæðingarstyrk. Ég hefði nú viljað, ef svo ætti að vera, að hann væri hækkaður frá því, sem hann er nú, en ekki að miðað væri við lægsta fæðingarstyrk. Það fann ekki hljómgrunn í n. Ef þessi till. yrði samþ., mundu skerðast til mikilla muna þau réttindi, sem ógiftar mæður og giftar konur, sem neyðast til að stunda vinnu utan heimilis vegna fátæktar, hafa haft fram að þessu. Mér þykir hér vera ráðizt á garðinn þar, sem hann er lægstur, og vildi því vænta þess, að þm. greiddu atkv. gegn þessari till., þannig að gr. stæði óbreytt eins og hún nú er í l. Færi nú svo, mót von minni, að þessi till. á þskj. 331, um jafnan fæðingarstyrk, yrði samþ., hef ég leyft mér að bera fram viðaukatill. Væri ekki svo komið, að þetta frv. er til síðustu meðferðar í d., mundi ég hafa geymt mér það til síðustu umr. að bera fram brtt., en nú eru það síðustu forvöð, þar sem málið kemur ekki hér fyrir oftar. Í þessari viðaukatill. legg ég til, að ógift móðir, sem verður fyrir vinnutjóni, eigi rétt á því, að Tryggingastofnunin greiði henni til viðbótar allt að kr. 100.00 á mánuði í allt að 3 mánuði á þann hátt, sem segir í 2.–4. mgr. gr., enda hafi þá Tryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur barnsföður og sveitarfélagi fyrir viðbótarupphæðinni. Þessi brtt. stefnir að því að bæta nokkuð úr því misrétti, sem þær konur og þau börn, sem bágast eiga í þjóðfélaginu, yrðu fyrir, ef till. hv. þm. Barð. yrði samþ. Ég vil þess vegna í fyrsta lagi skora á hv. þdm. að fella till. hv. þm. Barð., en ef svo færi, að hún yrði samþ., vil ég mælast til, að sú viðbót, sem ég hef lagt hér fram, verði samþ. við till., til þess að bæta hana svolítið upp.