14.03.1950
Efri deild: 72. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (3314)

68. mál, almannatryggingar

Frsm. (Haraldur Guðmundsson) [Upphaf ræðunnar vantar í handrit innanþingsskrifara.]:

Þá er það þriðja brtt. á sama þskj., að í stað 5. júlí komi 1. október 1950. Heilbr.- og félmn. mælir einróma með, að þessi till. verði samþ. Það er svo augljóst, að ekki þarf um það að ræða, að sjúkrasamlögin geta ekki verið tilbúin að veita sin fríðindi fyrr en þá.

Hvað viðvíkur fjórðu brtt. á þskj. 396, þá kemur hún í stað fimmtu brtt. á þskj. 394. Ég get að vísu ekkert séð því til fyrirstöðu, að hún verði samþ., nema sumir kunna kannske að segja, að samþykkt hennar auki aðeins skriffinnsku sveitarstjórna við skýrslugerðir, en aftur á móti held ég, að þetta geti baslazt eins og verið hefur, þótt ákvæði frv. um þetta efni haldist óbreytt. Hér er ætlazt til, að ein skráin sé send innheimtumanni í febrúar. En ef hann fær skrána ekki nógu snemma, þá er ætlazt til, að hann noti fyrra árs skrá, og hefur sá háttur verið á hafður til þessa. Hins vegar sé ég ekki ástæðu til þess að vera á móti samþykkt till.

Þá vík ég að brtt. hv. 7. landsk. (FRV) á þskj. 397. Skal ég þá fyrst ræða fyrstu brtt., sem er við 9. gr. frv. og fjallar um efni 27. gr. 1: Það er rétt, sem hv. þm. segir, að samkv. l. nú, sem gert er ráð fyrir í frv., að haldist óbreytt, þá á Tryggingastofnunin völ á, hvort hún krefur endurkræfan barnalífeyri hjá dvalarsveit móður eða framfærslusveit föður. Er það alveg rétt, að það getur valdið töluverðri skriffinnsku að innheimta þetta hjá föðurnum. En ástæðan fyrir því, að ekki er gert ráð fyrir því í frv. að breyta þessu frá því, sem er í 1., er sú, að áður hafði sá háttur verið á þessum málum, að dvalarsveit móður átti endurkröfurétt vegna barnalífeyrisins á hendur framfærslusveit föður og á þessu var engin breyting gerð, þegar lögin voru sett. Tryggingastofnunin fékk aðeins sama rétt og barnsmóðir hafði haft. Þótti því heppilegt að láta þetta ákvæði haldast óbreytt. Nú telur hv. þm. þetta óþarfa skriffinnsku, sem hægt sé að losna við, og segir að sér sé um það kunnugt, að í mörgum tilfellum sé verið að leita barnsföður í mörgum framfærslusveitum. Ekki skal ég nú rengja hv. þm. í þessu efni, því að hann er vel kunnugur oddvitastörfum, en ekki hygg ég, að mikið sé um þetta. En sú leit verður bara engu minni, þótt þetta sé flutt yfir á Tryggingastofnunina, heldur í sumum tilfellum meiri. Samkv. reglum um innheimtu barnalífeyris, útgefnum af atvmrn., segir svo: „Þar sem sýslumenn og bæjarfógetar eru innheimtumenn Tryggingastofnunarinnar hver í sínu umdæmi, telur ráðuneytið rétt, að það verði lagt í vald viðkomandi sýslumanns eða bæjarfógeta, hvort hann snýr sér til dvalarsveitar barnsmóður eða framfærslusveitar barnsföður, þegar svo stendur á, að báðar þessar sveitir eru innan lögsagnarumdæmis þess eða þeirra, sem hann hefur lögreglustjórn í.“ Þetta er sú regla, sem fylgt er af sýslumönnum eða umboðsmönnum þeirra, og geta þeir eftir henni valið um, þegar svo stendur á, að bæði dvalarsveit móður og framfærslusveit föður er í lögsagnarumdæminu, og hygg ég, að þeir snúi sér þá til framfærslusveitarinnar, nema þegar einhverjar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, t. d. ef um vangreiðslur er að ræða. En í reglugerðinni segir enn fremur: „Þegar hins vegar stendur svo á, að dvalarsveit er ekki á sama umboðssvæði og framfærslusveit, er rétt, að innheimtu sé hagað þannig, að dvalarsveit sé jafnan krafin. Ráðuneytið vill ekki gera ráð fyrir því, að til þess komi, að dvalarsveit greiði ekki umkrafið meðlag, þar sem hún á skýlausan endurkröfurétt á öllu meðlaginu úr ríkissjóði, ef framfærslusveit þverskallast við að greiða.“ Eins og áður segir, á dvalarsveit endurkröfurétt á hendur ríkissjóði, þegar framfærslusveit stendur ekki í skilum. Nú leggur hv. þm. til í sinni till., að þetta flytjist yfir á Tryggingastofnunina, en því marki að minnka skriffinnskuna verður ekki náð með þeirri ráðstöfun, heldur hygg ég, að hún aukist. Ég get því ekki fyrir mitt leyti mælt með till., og heilbr.- og félmn. hefur ekki tekið afstöðu til hennar. Ég hygg, að með samþykkt hennar muni skriffinnskan aukast frá því, sem nú er, þegar þessu er dreift á sveitarstjórnir úti um land.

Þá er það fjórða brtt. á sama þskj., varðandi 109. gr. N. hefur athugað till., en ekki „séð ástæðu til þess að taka hana upp eða mæla með samþykkt hennar. Einnig hef ég rætt hana við tryggingaráð, sem ekki hefur tekið afstöðu til hennar. Ég hygg og, að ekki sé rétt að samþ. till., a. m. k. að svo komnu máli. Meginhugsunin á bak við 109. gr. er sú, að þeir, sem ekki hafa svo háar tekjur, að þeir komist í skatt, séu þess ekki umkomnir að greiða tryggingaiðgjaldið og þess vegna sé eðlilegt, að sveitarstjórnir greiði iðgjaldið fyrir þá, án þess að sérstakar ástæður komi til. Samkv. brtt. hv. 7. landsk. á einungis að taka tillit til og greiða iðgjaldið, ef fyrir hendi eru þær ástæður, sem þar greinir, þ. e. a. s. slys, sjúkdómar, örorka, elli eða ómegð. Skal það metið af sveitarstjórn, hvort þessar ástæður eru fyrir hendi. Ef nú sveitarstjórn synjar greiðslu, má skjóta úrskurði hennar til yfirskattanefndar. M. ö. o., fyrst á sveitarstjórn að meta, hvort tekjurnar eru nægilegar, og síðar, hvort ákveðnar ástæður eru, fyrir hendi, óg síðan má áfrýja úrskurði hennar til yfirskattanefndar. Ég efast um, að bót sé að þessum till., þótt það skuli játað, að 109. gr. er hálfgerð vandræðasmíði. Með brtt. n. á þskj. 395 er gert ráð fyrir, að greinin orðist eins og þar segir, með það fyrir augum, að ef undirskattanefnd hefur ekki metið réttilega ókeypis fæði og húsnæði og þess háttar, þá geti yfirskattanefnd leiðrétt það. Eins og kunnugt er, hafa margir talið hættu á því, að unglingar, sem eru heima hjá efnuðum foreldrum, geti eftir ákvæðum gr. látið greiða iðgjaldið fyrir sig, en með brtt. n. er gert ráð fyrir, að þetta megi fyrirbyggja. Ég hygg því, að rétt sé og nægilegt það, sem n. hefur lagt til með þriðju brtt. sinni á þskj. 395.

Fimmta brtt. hv. þm. er við 23. gr. frv. og vikur að 114. gr. laganna. N. hefur ekki tekið afstöðu til till., en bendir sérstaklega á, að miðað við þau margháttuðu ákvæði um fasteignaskatt, sem í lögum eru, sé ekki ástæða til þess að bæta einum enn í tryggingal. Hins vegar vil ég segja fyrir mitt leyti, að till. hefur mikið til síns máls og sé ég engu spillt, þótt hún sé samþ. Það er alveg rétt, sem hv. þm. tók fram, að ýmsar fasteignir, t. d. eyðijarðir, virkjanir o. fl., hækka ekki tekjur sveitarfélaganna, þótt þær hækki iðgjald sveitarsjóðs til trygginganna, og væri því rétt að hafa þann hátt á, sem hv. þm. leggur til. Get ég því fyrir mitt leyti mælt með till. og greitt henni atkv., án þess þó að það sé skoðun n. í heild.

Þá er það 2. brtt. á sama þskj., um að Tryggingastofnuninni sé heimilt að taka þátt í kostnaði sjúkrasamlags eða sveitarstjórnar við að hafa í þjónustu sinni hjúkrunarkonu eða aðstoðarstúlku til þess að veita aðstoð á heimilum í veikindum. Ég benti hv. flm. á, hvort hann vildi ekki bæta við till. því skilyrði, að sjúkradagpeningar yrðu þá ekki greiddir, ei heimildin yrði notuð. Það hefur hv. þm. ekki gert. Sú gr. frv., sem þessi brtt. er við, er um heimild til greiðslu sjúkradagpeninga til giftra kvenna vegna aðstoðar eða hjúkrunar í veikindum þeirra. Gert er nú ráð fyrir, að þessi ákvæði verði tekin inn í l., því að ákvæði 92. gr. hefur, eins og vitað er, verið frestað. Ef nú heimildin, sem greinir í 2. brtt. á þskj. 397, væri veitt, þá væri upp tekin sú aðstoð, sem gert er ráð fyrir í heilsugæzlukaflanum. Nú er hins vegar ljóst af orðum till., að henni er ætlað að ná til þeirra héraða, þar sem sjúkrasamlög eru starfandi. Ég sé því ekki ástæðu til þess að mæla með samþykkt þessarar till., því að það var aldrei ætlunin með l. að greiða bæði sjúkradagpeninga og einnig að inna af hendi greiðslur vegna aðstoðar veittrar í veikindum. Aftur á móti tel ég enga hættu í því fólgna að samþ. þetta, því að í till. er aðeins talað um heimild.

Þá vil ég víkja nokkuð að megintill. á þskj. 397, sem eru um fyrirgreiðslu vegna öryrkja o. fl. Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði um þetta efni, að er lögin um Tryggingastofnunina voru samin, þá var undirbúið frv. um vinnustofnun ríkisins og átti Jón heitinn Blöndal mestan þáttinn í því. En hv. þm. láðist að geta þess, sem mestu máli skiptir í þessu sambandi, að í undirbúningstill. var gert ráð fyrir því, að vinnustofnunin yrði sjálfstæð stofnun, að öðru leyti en því, að tekjur hennar yrðu innheimtar með iðgjöldum Tryggingastofnunarinnar. En hvers vegna það? Einmitt vegna þess, að Tryggingastofnuninni var upphaflega ætlað að sjá um fjármál þessarar stofnunar, en öðrum aðila ætlað að sjá um framkvæmdir allar. Með þetta fyrir augum var ráð fyrir því gert, að vinnustofnunin hefði sérstaka stjórn, en iðgjöld hennar innheimt með iðgjöldum Tryggingastofnunarinnar. Er ég enn á þeirri skoðun, að þetta fyrirkomulag sé að öllu leyti heppilegra. — Þá er ég sammála hv. þm. um nauðsyn þess að styrkja öryrkjana og að gera ráðstafanir til þess, að vinnugeta þeirra komi þeim og þjóðfélaginu að meira gagni en hingað til hefur verið. En hins vegar tel ég að það, sem fram kom í ræðu hv. þm., að hægt væri að spara stórfé, ef þetta yrði framkvæmt, og þær tölur, sem hann nefndi í því sambandi, sé byggt á of mikilli bjartsýni. Öryrkjarnir eru nú eitthvað á milli 2.200 og 2.400 yfir 50%, þar af um 1/3 undir 75% og 2/3 yfir 75%, og eru litlar líkur til, að vinnugeta þeirra geti komið að verulegu haldi. Ég vil enn fremur segja í þessu sambandi, að þótt lítið hafi borið á framkvæmd Tryggingastofnunarinnar í þessu efni, þá er það ekki rétt, að ekkert hafi verið gert. Það er nú unnið að því að gera skrá með tilliti til þess, og er það fyrsta skilyrði þess, að nokkuð sé í þessu hægt að gera. Þá hefur Tryggingastofnunin nú þegar skrá yfir alla öryrkja, sem til hennar hafa sótt um styrk, og er það ljóst, að mjög fáir eru þeir öryrkjar, sem ekki eru á þeirri skrá. Þegar svo fullkomnum athugunum á þessum öryrkjaskrám er lokið, var ætlunin að ráðgast um við bæjarstjórn í Reykjavík, hvort ekki væri eitthvað fyrir þetta fólk hægt að gera. Er og víst, að sú leið verður farin. En ef till. hv. þm. yrði samþ., sé ég ekki betur, en að sveitarfélögin geti haldið að sér höndum í þessu efni og vísað á Tryggingastofnunina. En það eru alls ekki lítil störf, sem henni er ætlað að inna af hendi samkv. till. Ég efast og um, að ákvæði till. auðveldi það að fá atvinnurekendur til þess að taka öryrkja í þjónustu sína. Í Bretlandi eru ákvæðin um þetta þannig, að atvinnurekendum er skylt að hafa ákveðna prósentu af starfsliði sínu öryrkja. Þetta ákvæði þyrfti einnig að setja í löggjöf hér. Í till. hv. þm. segir svo: „Geti Tryggingastofnunin ekki miðlað þeim, sem þess óska, vinnu við þeirra hæfi með þessum hætti, getur hún haldið námskeið fyrir þá.“ Hér er m. ö. o. ætlazt til, að Tryggingastofnunin komi upp sérstökum námskeiðum fyrir öryrkja. Enn fremur segir þar, að Tryggingastofnuninni sé heimilt að koma upp verkstæðum, vinnustofnunum o. fl. Ég held, að svo sammála sem ég annars er hv. flm. um aðgerðir í þessum málum, þá sé óráðlegt að samþ. þetta nú. Ég tel, eins og ég hef áður tekið fram, alveg rangt að blanda hér saman Tryggingastofnuninni og framkvæmd í þessu máli. — Ég hef því leyft mér ásamt hv. þm. Barð. og hv. 8. þm. Reykv. að bera fram brtt. við brtt. á þskj. 379, svo hljóðandi:

„Meginmál 3. tölul. (ný grein á eftir 21. gr.) orðist svo:

Tryggingastofnun ríkisins skal fyrir lok ársins 1950 láta fram fara athugun á vinnugetu öryrkja, sem ætla má, að geti unnið fyrir sér að nokkru eða öllu leyti, ef þeim er veittur kostur á atvinnu við þeirra hæfi. Jafnframt skal Tryggingastofnunin gera tillögur um ráðstafanir til þess, að starfskraftar slíkra öryrkja geti komið þeim sjálfum og þjóðfélaginu að sem mestum notum, og hafa samráð og samvinnu við trygginganefndir og héraðsstjórnir um þær tillögur.“

Ég álít, að ef Alþ. telur ástæðu til að ýta á eftir þessu frekar en gert er í l., eins og þau eru, þá sé rétt að samþ. nú þessa skriflegu brtt. í staðinn fyrir brtt. 397.