12.01.1950
Efri deild: 29. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í C-deild Alþingistíðinda. (3332)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að fara um þetta mál nokkrum orðum, áður en það fer til n., sem ég tel, að eigi að vera fjhn., því að hér er um stórkostlegt fjárhagsmál að ræða. Þetta mál hefur áður verið til meðferðar hér í þinginu, eins og hv. flm. minntist á. og hef ég haft tækifæri til þess að fjalla nokkuð um málið áður, vegna meðferðar þess í fjvn. Það er rétt, að í l. nr. 44 frá 1946 var sett inn grein, þar sem ríkisstj. er heimilt að endurgreiða toll af húsum, sem flutt eru inn á árinu 1946, en ég veit ekki, hvort hv. flm. veit, að þegar þetta mál var rannsakað af fjmrn., þá var niðurstaðan sú, að hvorki væri þörf né ástæður til að endurgreiða tollinn, og neitaði því fyrrv. fjmrh., Pétur heitinn Magnússon, að nota heimildina. Meiri hl. fjvn. hefur og alltaf verið á móti þessu, nema fulltrúar Framsfl., enda er þetta mikið sérhagsmunamál þess flokks. Hv. flm. sagði, að þetta væri ákaflega mikið fjárhagsatriði fyrir fólk, og vildi hræra hjörtu þm., en mér skilst á grg., að innflutningstollarnir á hvert hús fari ekki frm úr 11 þús. kr., og hvaða fjárhagslegt atriði er það fyrir mann, sem byggir hús upp á ca. 300 þús. kr.? Þá segir hv. flm., að verð húsanna hafi farið svo mikið fram úr áætlun. Jú, það er rétt. Það var einn ágætur framsóknarmaður, sem var þarna milliliður og mest græddi á því að spana menn upp í að kaupa þessi hús, m. a. með gylliboðum um, að þau mundu verða svo og svo ódýr. Menn ginu við þessu, og svo á Alþingi að fara að bæta úr þessari glópsku! Þá má geta þess, að þessi hús voru flutt inn á vegum samvinnubyggingarfélaga, sem fá stórkostlegan styrk frá ríkissjóði, og hafa þau því mjög misnotað þennan ríkisstyrk með því að flytja inn þessi hús fyrir mun meira verð, en áætlað hafði verið. Slíkt á ekki að verðlauna, en um það vildi ég gjarnan vita, hvað af þessum húsum hefur fengið styrk, en hv. flm. hefur upplýst, að flest húsin hafi verið flutt inn fyrir samvinnubyggingarfélög, en þau njóta, eins og ég tók fram áðan, stórkostlegs styrks frá hinu opinbera. Á sínum tíma hófu menn, sem hagsmuni höfðu af slíkum innflutningi, ákafan áróður fyrir því að flytja inn hús, sem aldrei hefði átt að leyfa að reisa hér á landi. Þetta hlaut að setja upp iðgjöldin hjá tryggingafélögum hér í Reykjavík, því að húsin voru úr timbri og eldhætta í þeim miklu meiri, en í öðrum nýjum húsum, en svo var áróðurinn fyrir innflutningi þessara húsa mikill og ósvífinn, að fólki var talin trú um, að húsin kostuðu ekki nema í mesta lagi 120 þús. krónur, þótt þau hins vegar reyndust kosta 270 þús. krónur, og eins og ég sagði áðan, ber sízt að verðlauna annað eins og þetta. Hv. flm. segir að vísu, að menn hafi verið hvattir af Alþingi til þess að flytja inn þessi hús, en ég held, að þetta sé hreinn misskilningur, nema að því leyti, sem Alþingi lofaði að veita heimild til endurgreiðslu innflutningstollanna, en það ákvæði var sett inn fyrir takmarkalausan áróður hér í Alþingi fyrir því að hlúa að vissum einstaklingum. Hv. flm. sagði, að þetta frv. væri gert skv. till. tollstjóra og hann áliti rétt að hafa þennan hátt á og teldi, að húseigendurnir ættu þetta fé inni. Þetta er alger misskilningur hjá hv. flm. Tollstjóri bendir aðeins á, að ef tollendurgreiðslan eigi að fara fram, þá sé nauðsynlegt að fara þessa leið, því að ekki sé hægt að nota heimildina í l. nr. 44 frá 1946, og er þetta nokkuð annað, en leggja til, að endurgreiðslan fari fram. Hann bendir á að ef þetta fé eigi að fást endurgreitt, þá verði að setja um það sérstök lög, enda er það alveg rétt sjónarmið, en það er síður en svo, að með þessu leggi tollstjóri það til, að sá háttur verði á hafður, sem frv. gerir ráð fyrir, og það er síður en svo, að húseigendurnir eigi kröfu á þessum endurgreiðslum, enda þyrftu þeir þá ekki að flytja málið á Alþingi, heldur gætu þeir farið í mál við Alþingi, ef þeir ættu kröfu á þessu. Það kemur fram í grg. hjá hv. flm., að þessi tollur sé ranglátur og hafi verið settur á til þess að verja réttindi vissra manna. En þetta er misskilningur. Hér er um að ræða almennan verndartoll, enda er alls staðar gerður munur á því, hvort eitthvað er flutt inn fullunnið eða um hráefni er að ræða. Þetta er almenn regla, og ef þetta frv. verður samþ., þá er verið að breyta tollalöggjöfinni, og það aðeins vegna þessara húsa. En er þá ekki hægt að koma á eftir og heimta tolleftirgjöf af öðrum timburvörum fullunnum, svo sem húsgögnum, líkkistum o. s. frv.? Það eru vissulega engin takmörk fyrir því, hvað breyta má tollalöggjöfinni, ef þetta frv. verður samþ. — Það, sem skeð hefur í þessu máli, er það, að þeir, sem keyptu þessi hús, gerðu sér alrangar hugmyndir um kostnað þeirra, m. a. vegna upplýsinga frá seljanda, enda voru hús þessi svo léleg, að stórum þurfti að bæta þau, til þess að mætti setja þau upp skv. byggingarsamþykkt Reykjavíkurbæjar. Ég verð að segja, að mér finnst, að þeir, sem keyptu húsin, hefðu átt að kynna sér betur alla málavöxtu, áður en kaupin voru ráðin, og það var flónska þeirra að gera það ekki, og slíka flónsku á ríkissjóður ekki að borga.

Tollstjóri segir, að endurgreiðslan hér á verðtolli verði um 770 þúsund krónur á þessi 108 hús í Reykjavík, ef fylgt er hans tillögum, og þá getur hv. fim. reiknað út (RÞ: og hv. ræðumaður líka). Ég hugsa það verði undir þeirri upphæð, sem ég minntist á áðan, svo að það sést, að þetta er ekki neitt fjárhagslegt atriði.

Þá vildi ég aðeins minnast á 2. gr. frv., þótt ekki sé það venja að ræða einstakar greinar við 1. umr. Þar er ákveðið, að núverandi eigendur húsanna skuli fá tollendurgreiðsluna. Á hverju byggist það? Er nokkur trygging fyrir því, ef húsin hafa verið seld, að þau hafi verið seld á því verði, að þetta væri reiknað sem fylgifé, ef það fengist endurgreitt, þ. e. að engin álagning hafi verið frá seljanda til kaupanda? Ég veit ekki, hve mjög eða hve mörg hús eru búin að ganga kaupum og sölum, né hvert tillit hefur verið tekið til væntanlegrar tollendurgreiðslu við söluna. Og enn er það að athuga, að síðan 1945 hefur byggingarkostnaður stóraukizt, og mælir það enn á móti því að greiða hundruð þúsunda úr ríkissjóði í þessu skyni. Það væri sök sér, ef húsaverð hefði fallið, svo að menn sætu uppi með hús sín verðminni, en þegar þau voru reist. En það er nú öðru nær. Eigendurnir eru nú betur settir en áður, því að húsin eru í hærra verði, svo að hér er barizt fyrir hagsmunum hinna betur stæðu gegn hagsmunum þeirra fátæku. Og lítið samræmi er í því að styrkja húseigendur, eins og hér er lagt til, og íþyngja svo sama flokki manna með stóríbúðaskatti, og þetta er hvort tveggja borið fram af einum og sama þm., þ. e. flm. þessa frv. Hér eru stórkostlegar álögur með stóríbúðaskatti á ferð, og mun hv. flm. tæpast hafa gert sér grein fyrir því, að hér hefur hún borið fram frv. um að styrkja þá, sem hún er að leggja stórkostlegar byrðar á með öðru frv.

Ég mun svo ekki ræða þetta mál nánar án frekara tilefnis og fylgi því til fjhn., svo að hún geti athugað það og fullvissað sig um rök þess. Sjálfsagt ræðir n. svo við hæstv. fjmrh. á sínum tíma. Hitt er svo annað atriði, að þetta mál er glöggt dæmi um takmarkalausar kröfur á hendur ríkinu; þótt skyldan bjóði að benda á tekjur eða afla þeirra á móti útgjöldunum, sem kröfur eru gerðar um, þá er það látið vera. En það er kominn tími til að fást við eitthvað annað, en hreint niðurrif í fjárhagsmálum þjóðarinnar.