13.01.1950
Efri deild: 31. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (3335)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Maður byrjar nú þar, sem frá var horfið í gær, og verður að hafa það, þótt eitthvað hafi fyrnzt yfir ræðu hv. þm. Barð., úr því mér gafst ekki kostur á að svara honum þá þegar.

Hv. 1. þm. N-M. ræddi nokkuð sögu málsins, og þarf ég ekki að bæta þar neinu við. Hann skýrði það m. a. mjög vel, sem ég kallaði hvatningu Alþ. til þeirra manna, sem fluttu inn þessi hús.

Hv. þm. Barð. hafði það rangt eftir mér, að ég hefði sagt, að eigendur húsanna ættu þessa upphæð inni, sem hér er um að ræða. Ég sagði ekki annað en það, sem greinir í bréfi tollstjóra, en þar stendur t. d. skýrt, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og fyrr segir, er eigi unnt að reikna tollgreiðsluna nákvæmlega út, nema fyrir hendi séu ábyggilegar skýrslur um þær efnistegundir, sem inn hafa verið fluttar til húsanna, þar sem tilgreint sé magn og verð hverrar tegundar óunninnar. Ættu skýrslur þessar að vera frá seljendum húsanna.“ Og litlu síðar: „Eins og fyrr segir, mundi meginhluti efnisins til húsanna hafa átt að tollast með 8% verðtolli, hefði það verið flutt inn óunnið, en nokkuð af því þó með 10% verðtolli og ef til vill einhver lítill hluti með hærri tolli. Er því varla fært að lækka verðtollinn meir en niður í 10%. Fælist og í þeirri lækkun mjög mikil ívilnun fyrir kaupendur húsanna, þó vörumagnstollurinn væri látinn standa óbreyttur.“

Sé nú þetta borið saman við heimildargreinina, þar sem segir að ríkisstjórninni heimilist að endurgreiða toll af þeim innfluttum tilbúnum húsum, sem flutt verði inn á árinu 1946, að því leyti sem hann er hærri, en á því byggingarefni óunnu, er til húsanna þarf, þá sést, hvað þetta er skylt. — Þessi heimild var samþykkt, eða lögin gefin út 7. maí 1946, og 5 fyrstu húsin voru flutt inn í maí það ár og síðan fleiri á næstu mánuðum; og þessi hús voru flutt inn beinlínis með tilliti til þessarar heimildar. — Hv. þm. Barð. ræddi einnig um það, hvað endurgreiðslurnar væru óverulegar og hefðu litla þýðingu; reiknaði hann út, hverju endurgreiðslurnar mundu nema, eða um 7 þús. kr. á hús. Hef ég einnig gert ráð fyrir þeirri upphæð. Hv. þm. virtist hræddur um að sérstakir aðilar væru fyrir brjósti bornir með flutningi þessa frv. Ég hef nú hér lista yfir innflytjendurna, en ég þekki þar aðeins örfá nöfn. Haukur Björnsson og Haukur Claessen eru stærstu innflytjendurnir auk annarra smærri. Ég þekki þá ekki, og get ekki skilið, hvað hv. þm. á við með þessu. — Þá minnir mig hv. þm. segja, að Alþingi ætti ekki að „verðlauna“ þessa menn. Hér er ekki um það að ræða að „verðlauna“ einn eða neinn; hér er aðeins talað um réttlæti og að Alþingi standi við gerðir sínar. Þessi hús eru flutt inn fyrir hvatningu Alþingis og í skjóli þeirrar heimildar, sem hér um ræðir. Hv. þm. Barð. taldi enn fremur of langt um liðið til þess að breyta þessu nú. En eigendur húsanna hafa allan þennan tíma reynt að fá þetta mál afgreitt eftir þeirri leið, sem lögð var með heimildargreininni. Og sjálfsagt hefði þetta frv. getað borið þá að, er hv. þm. Barð. hefði þótt það of snemma fram komið. Virðist vera ekki lítill vandi að gera hv. þm. til hæfis.

Þá var hv. þm. með frómar hugleiðingar um niðurrif á fjárhag ríkisins. Hann gefur nú löngum ófagrar lýsingar á því, hvernig honum sé komið; en sjálfur er hann í þeim flokki, sem mest hefur farið með fjármál ríkisins undanfarin ár, og er honum það mál ábyggilega skyldara en mér.

Ég vil að lokum beina því til hv. fjhn. — og ekki vegna ummæla hv. þm. Barð., heldur af eigin hugleiðingum — að taka sérstaklega til athugunar 2. gr. frv.; en hún er byggð á niðurlagsorðunum í bréfi tollstjóra: „Að lokum skal á það bent, að verði ákveðið að endurgreiða að meira eða minna leyti toll af framangreindum húsum, þarf að búa svo um, að endurgreiðslan verði þeim til hagsbóta, er byggja þau handa sér, en eigi milliliðum.“

Bréfið er dags. 18. marz 1947, og tæplega hafa verið orðin eigendaskipti á húsunum þá; en n. þarf sem sagt að athuga, hvernig beri að bregðast við því, þar sem eigendaskipti hafa átt sér stað.